Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 21:13:32 (5961)

1996-05-13 21:13:32# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[21:13]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór í ræðu minni ágætlega yfir það sem ég taldi að þyrfti nauðsynlega að skoða frekar. Vissulega er það rétt hjá hv. þm. að þegar deilt er og menn bera fram sín rök og bera þau undir dómstóla, þá getur dómur vitaskuld fallið á báða vegu. Eins og þetta mál liggur fyrir mér er ég nokkuð sannfærður um að verði stofnað til málaferla vegna sumra ákvæðanna kæmi mér ekki á óvart að ríkið yrði dæmt til þess að greiða bætur í a.m.k. einhverjum tilvikum. Ég get m.a. nefnt fund sem ég sótti í samgn. þar sem fyrir svörum var prófessor sá er samdi þetta frv. að mestu leyti, Eiríkur Tómasson. Þar gat hann ekki fullyrt að biðlaunarétturinn væri ekki varinn af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það er því hægt að vísa til merkra manna sem eru ekki vissir eða sömu skoðunar.