Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 21:15:05 (5962)

1996-05-13 21:15:05# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[21:15]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er fróðlegt að fylgjast með þingmönnum stjórnarliðsins sem koma hér galvaskir og taka menn upp eins og þeir séu skyndilega orðnir lærimeistarar og við hinir séum lærisveinarnir. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn. kemur til að mynda og spyr hv. þm. Lúðvík Bergvinsson út úr hans fræðigreinum og segir að hann verði að verja fræðimannsheiður sinn. Ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til þess að sitja fyrir svörum um mína eigin fræðigrein og verja fræðimannsheiður minn en þá verður það auðvitað að fylgja því, herra forseti, að fræðigrein mín lýtur að kynlífi laxa og það er kannski akkúrat vegna þess að ég kann svolítið fyrir mér í þeim fræðum sem lúta að stórlöxum og ég vona að mér takist að verða vel við þeim áskorunum sem ég veit að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson beinir til mín á eftir.

Herra forseti. Það er lýsandi fyrir stjórnarliða að sjá hér hv. þm. Pétur H. Blöndal koma og ég get ekki annað en sagt að það er vitsmunaleg frekja af hv. þm. sem hefur hvorki sést í salnum í dag né síðustu daga að koma hingað og voga sér að fara fram á það að góður og gegn þingmaður stjórnarandstöðunnar sem hér hefur flutt lærða og vel undirbúna ræðu ,,súmmeri`` hana upp á tveimur mínútum. Ég veit að vísu ekki mætavel hvernig vitsmunum hv. þm. Péturs H. Blöndals er háttað en það sem ég hef séð til þeirra þá gerir það að verkum að ég ber virðingu fyrir þeim. Ég skil ekki hvers vegna hann kemur hingað og heimtar að þetta sé sett í einhvers konar hraðsoðnar neytendaumbúðir í þeirri veiku von um að hann geti skilið þetta. Hv. þm. á að gera meiri kröfur til sjálfs sín. Ég geri kröfur til hans og þær kröfur sem ég geri til hv. þm. Péturs H. Blöndals eru þær að hann hafi a.m.k. eirð í afturendanum til þess að sitja og hlusta á svona góða ræðu. Ég segi það t.d. að hv. þm. hefði haft gott af því að hlusta hér á mjög gott yfirlit um mannréttindi og mannréttindaákvæði. Ég tel til að mynda, herra forseti, að þá hefði hv. þm. skilið það af hverju það jaðrar a.m.k. við skerðingu mannréttinda að vera skyndilega sviptur parti af kjaraumhverfi sínu þegar biðlaunin eru skert með þeim hætti sem hv. þm. ætlar að bersýnilega að fylgja. Ég hef stundum í gamni, herra forseti, af því að það kemur fyrir að ég bregð fyrir mig kímni og sjaldan séð eftir því eftir því sem árin færast yfir mig, sagt það við hv. þm. Pétur H. Blöndal að atvinnutæki hans séu skærin því hann hafi atvinnu af því að klippa ,,kúpona``. Við getum ímyndað okkur, herra forseti, að það yrði skyndilega gjörbreyting á atvinnuumhverfi hv. þm. Péturs H. Blöndal og skærin yrðu tekin af honum og hann þyrfti að krafsa fram úr þessu með naglaþjöl, skera kúponana þannig. Auðvitað ætti hann þá einhverja heimtingu á því að hann fengi einhverjar bætur í staðinn, er það ekki? Eru það ekki fémæt réttindi, herra forseti, ef menn hafa atvinnu af því að klippa kúpona fá þeir a.m.k. almennileg skæri? (JónK: Alvöru skæri.) Ritstjóri Tímans hefur bersýnilega skoðun á því hvernig menn eiga að bera sig að við það að klippa kúpona. Það gleður mig sannarlega að sjá ritstjóra þessa virðulega blaðs --- hann hefur ekki verið tíður gestur í þessum sölum þó hann hafi að vísu rekið hér inn nefið af og til og það gleður mig jafnan. Það ber meira að segja svo vel í veiði að tveir hv. þm. Framsfl. eru staddir hér og annar sefur fagurlega í stóli sínum. Þingmaðurinn er vel að manni og tekur sig vel út í stólnum og satt að segja vildi ég gjarnan þegar samningar og réttindi launafólks eru annars vegar að gervallur Framsfl. svæfi því staðreyndin er auðvitað sú að Framsfl. hefur komið öllum á óvart. Menn áttu ekki von á því að Framsfl. mundi ganga fram með þeim hætti sem hann hefur gert núna á þessum vetri.

Herra forseti. Það vill svo til að ég hef skrýtin áhugamál eins og ýmsir þingmenn. Það er ekki bara urðin í Þingvallavatni og kynlíf laxa. Ég hef líka lagt ákveðna stund á rannsóknir á sögu Framsfl. í náinni fortíð. Eitt af því sem ég læt stundum fyrir sjónir mínar í þann mund sem Óli lokbrá er að veifa væng sínum yfir höfuð mitt og fjölskyldu minnar smárrar er þetta plagg sem heitir ,,Fólk í fyrirrúmi`` og ég sé að hið mikilúðlega höfuð hv. þm. Jóns Kristjánssonar, ritstjóra Tímans, hneigist til samþykkis. Einhvers staðar í bakgrunni höfuðs hans, sennilega þar sem vitsmunalífið á sér bólfestu, rekur hann minni til þess að hafa séð þetta. (JónK: Það er ekki til þar.) Er það ekki til þar? Herra forseti, mér heyrist að hv. þm. beri á móti því að slíkt sé að finna í höfði hans en ég verð þó að segja að miðað við kynni mín af þingmanninum og hina ágætu pistla sem hann stundum skrifar um lífríki í Tímann get ég ekki annað en mótmælt þessari sjálfsásökun þó að hún sé að vissu marki sjálfsgagnrýni í anda hins löngu gengna leiðtoga Maós formanns.

Herra forseti. Það kom fram að hv. þm. Jón Kristjánsson hneigði höfuð í einhvers konar samþykki við því að hann hefur áður séð þetta. Það gleður mig að hv. þm. skuli kannast við þetta plagg vegna þess að því miður er það svo að það er sjaldgæft að hér sé nokkur þingmaður sem tilheyrir Framsfl. sem man eftir þessu plaggi. (Gripið fram í: Það er ekki von til þess.) Það er liðið nokkuð á kvöld, herra forseti, og menn eru komnir í þá stöðu að vilja falla fram og gera játningar og hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson lýsir því hér yfir og ég vona að það sé sjálfrátt en ekki ósjálfrátt að fyrir vestan þá notuðu menn ekki kosningaloforð Framsóknar vegna þess að plaggið ,,Fólk í fyrirrúmi`` er stefna Framsfl. Það er ályktun 23. flokksþings framsóknarmanna og hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson lýsir því yfir að menn á Vestfjörðum hafi ekki notað stefnu Framsfl. í kosningabaráttu Framsfl. Má það e.t.v. vera, herra forseti, að hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson hafi farið flokkavillt? Kann að vera að skýringin á því að hv. þm. finnur sig á ókunnum slóðum sem hann kann bersýnilega ekki mjög vel við sig á, samanber það að hann hefur a.m.k. tvisvar hér á þessum örstutta fundartíma kvöldsins hnigið í ómegin og sofnað? Kann að vera, herra forseti, að skýringarinnar sé að leita í þeirri staðreynd að á morgun, stundvíslega kl. 20.30, er hv. þm. frummælandi á fundi á Hótel Scandic Loftleiðum sem er haldinn á vegum stjórnmálaflokks, að vísu ekki Framsfl. heldur Alþfl.? Kann það að vera að skýringin á því að hv. þm. lýsi því yfir að hann hvorki þekki né fylgi stefnu Framsfl.? Ég segi bara, komdu fagnandi, vinur, í náðarfaðm sósíaldemókrata hvenær sem þú vilt.

Herra forseti. (Gripið fram í: Okkur vantar bráðum formann.) (Gripið fram í: Mér var boðið það um daginn af formanni Alþfl.) Það er bersýnilegt, herra forseti, að í kjölfar hins nýja liðsmanns jafnaðarstefnunnar fer óvígur her sem vill ganga í Alþfl. og við verðum bara að reyna að setja upp biðlista, þeir eru vanir því í stjórnarliðinu.

Herra forseti. Það vill svo til að hv. þm. Jón Kristjánsson situr hér við hlið sposks hæstv. heilbrrh. Hún er sennilega sposk á svipinn vegna þess að hún veit hvað ég ætla að lesa upp. Það var þannig, herra forseti, að Framsfl. kom saman rétt fyrir kosningar og samþykkti stefnuskrá. Ég held að hvert einasta loforð, sem menn hafa rekist á úr kosningabaráttu Framsfl. hafi verið svikið. Nánast hvert einasta loforð. Ef einhver getur bent mér á loforð sem búið er að efna þá er ég reiðubúinn til þess að taka þann hinn sama og gæða honum á því sem er að finna í skápnum í bókaherberginu mínu. En förum ekki nánar út í það. Herra forseti. Í stefnuskrá Framsfl. er rætt um það með hvaða hætti Framsfl. ætlar sér að eiga samráð og samstarf við verkalýðshreyfinguna um nákvæmlega þá hluti sem við höfum verið að ræða í 27 klukkustundir. Það er um samráð um breytingar á samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Framsfl. mun leita samstarfs við aðila vinnumarkaðar um endurskoðun allra laga og reglugerða sem um vinnumarkaðinn gilda.``

Herra forseti. Við þekkjum mætavel hvernig þetta samráð og samstarf hefur verið efnt. Við vitum hvernig þetta loforð hefur verið svikið vegna þess að það sem stendur upp úr varðandi það starf sem var unnið af hálfu þessarar ríkisstjórnar gagnvart frv. sem við erum að ræða hér núna, gagnvart frv. um Póst og síma, gagnvart frv. um vinnudeilur og stéttarfélög. Þar er ekkert samráð. Ef það er eitthvað sem skortir á þá er það nefnilega samráð. Framsfl. gekk til kosninga og hann lofaði og lofaði hlutum og það var líka Framsfl., sem bauð þessum hv. þm. sem hér er í dyragættinni og heitir Ögmundur Jónasson og er formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, fyrir örfáum árum, ég man ekki hvenær, til þess að ávarpa flokksþing Framsfl. Hvers vegna var það gert? Það var skýrt þannig af þáv. formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni, að það væri gert til þess að undirstrika tengslin við félagshyggjuna og verkalýðshreyfinguna. Á tímum fyrrv. formanns Framsfl., hv. þm. Gunnlaugs M. Sigmundssonar var lögð áhersla á þetta nána samráð og það hefði aldrei gerst á þeim tímum að Framsfl. færi fram með þeim hætti sem hann hefur gert núna. Ég nefni sérstaklega frv. um vinnudeilur og stéttarfélög. Auðvitað er það svo að það er hæstv. fjmrh. sem leggur fram frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en hann gerir það ekki fyrr en eftir að hann er búinn að fá samþykki ekki bara ráðherra Framsfl. heldur líka gervalls þingflokks Framsfl. þannig að Framsfl. ber fulla ábyrgð á þessu frv. En það verð ég að segja hv. þm. Framsfl. til hróss, ekki síst þeim ráðherra sem nú gengur úr salnum, að þeir kunna að skammast sín, þessir heiðursmenn. Þeir hafa sektarkennd og það sér á að þeir hafa samvisku og það sér á þessari samvisku, hún er löskuð. Það er auðvitað rétt sem ég les af vörum hæstv. ráðherra, það sér ekki á svörtu. Það er rétt. Það sem áður var þó a.m.k. grátt er orðið svart í samstarfinu við Sjálfstfl. En þegar ég segi það að hv. þm. Framsfl. kunni að skammast sín dreg ég þá ályktun af þeirri staðreynd sem æpir auðvitað á þingheim allan og alla þá sem hafa undanfarna daga fylgst með umræðunni. Hver er þessi staðreynd? Hún er sú að það hefur ekki einn framsóknarmaður kveðið sér hljóðs, það hefur enginn framsóknarmaður haldið ræðu, það hefur enginn framsóknarmaður veitt andsvar, það hefur enginn framsóknarmaður sagt eitt einasta orð hvorki af viti né án vits. Þeir hafa misst málið, þeir hafa skotist hérna inn en jafnóðum hrokkið burt eins og lauf fyrir vindi. Þegar hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson villtist hér inn eins og einmana barn fauk hann út undan hinum skynsama lestri hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um mannréttindi. Hv. þm. Lúðvík Bervinsson reyndi ekki einu sinni að rifja upp kosningaloforðin sem þeir gáfu. Hann nefndi það að vísu að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hefði lofað ýmsu sem ekki væri komið í leitirnar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að dvelja miklu lengur við Framsfl. en hins vegar ef það er einhver manndómur í reyndum þingmönnum Framsfl. eins og hv. þm. Jóni Kristjánssyni, formanni fjárln., standa þeir auðvitað upp og lýsa yfir skoðun sinni eða á hún ekki að koma í ljós fyrr en menn ganga hér til atkvæðagreiðslu? Ég spyr, herra forseti: Er það sanngarnt af heilum stjórnmálaflokki að hafa hugleysið í fyrirrúmi en ekki fólkið og þora ekki að standa upp og segja eitt einasta orð? Er það virkilega svo að hv. þm. Jón Kristjánsson, sem hefur um árabil verið í félagshyggjuarmi Framsfl., ætli að sitja hérna eins og dökkhærð barbídúkka í allt kvöld og þegja? Er það svo að hv. þm. Jón Kristjánsson sé búinn að gleyma rótum sínum? Er hann búinn að gleyma rótum Framsfl.? Er hann búinn að gleyma félaganum í hásetafélagi Reykjavíkur sem á sínum tíma hratt ekki einungis jafnaðarmannaflokknum, Alþfl., úr vör heldur líka Framsfl.? Sama árið. Er hann búinn að gleyma því að það var Jónas frá Hriflu sem skapaði íslenskt flokkalandslag, pólitísk kennileiti okkar í dag og vildi að verkalýður til sjávar og sveita reyndi að vinna saman? Ég veit það að hv. þm. Jón Kristjánsson er vaskur maður og hann er reyndur maður og ég veit það að hann er nógu reyndur til þess að hann ber sennilega ekki djúp sár í hjarta yfir samstarfinu við Sjálfstfl. en ég veit að honum líður illa. Ég veit það að mönnum eins og hv. þm. Guðna Ágústssyni líður líka illa vegna þess að þeim mönnum sem hafa allt sitt líf, a.m.k. frá því ég kynntist þeim alltaf reynt að rétta hlut lítilmagnans, reynt að rétta hlut þeirra sem eru að vinna fyrir launamenn á Íslandi, þeim hlýtur að líða illa núna að vera skyndilega orðnir aðilar að ríkisstjórn sem leggur fram ekki eitt, ekki tvö, ekki þrjú og ekki fjögur, heldur fimm frv. í beit sem öll vega að rótum þeirrar félagshyggju sem þessir hv. þm. hafa unnið fyrir allt sitt líf. Ég segi það af því að mér er hlýtt til þessara hv. þm. að ég líð önn fyrir þeirra hönd. (Gripið fram í: Þetta hefur aldrei verið nema í nösunum á þeim.) Þeir hafa nú stórar nasir sumir.

[21:30]

Virðulegi forseti. Það sem hefur vakið athygli í máli hv. þm. Sjálfstfl. sem hafa haft nennu til að koma og fara í andsvör er auðvitað að aftur og aftur ráðast þeir að fulltrúum stjórnarandstöðunnar fyrir það sem þeir kalla málþóf. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur t.d. sagt að búið sé að flytja sömu ræðuna sjö eða átta sinnum. Því miður virðist ekki vera búið að flytja hana nógu oft því ekki hefur hún náð inn fyrir höfuðskeljarnar á hv. þm., sem eru að vísu býsna þykkar, en staðreyndin er sú að hér er um sérstakt mál að ræða. Ég veit að vitsmunir hv. þm. Vilhjálms Egilssonar eru af þeirri stærðargráðu að hann skilur, herra forseti, að það mál sem við ræðum núna er ekkert venjulegt mál. Það varðar ekki hvort við ætlum að hækka tolla eða lækka tolla, hækka skatta eða lækka skatta. Nei, virðulegi forseti, þetta varðar allt starfsumhverfi opinberra starfsmanna á Íslandi. Það hefur komið fram í máli fjölmargra fulltrúa stjórnarandstöðunnar að þeir telja a.m.k. að það stappi nærri því að alþjóðlegir sáttmálar séu brotnir. Sumir hafa haldið því fram að það jaðri við að einstök ákvæði stjórnarskrár séu brotin. Það er þess vegna auðvelt að skilja að mönnum sé heitt í hamsi og þeim sé mikið niðri fyrir. Það er ekkert skrýtið, virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan skuli verja verulega miklum tíma í umræður um þetta mál vegna þess að það snertir grundvallaratriði. Það er ekki voðalega oft sem á fjörur okkar rekur mál sem varða beinlínis grundvallaratriði. Varða það hvernig menn andstæðrar skoðunar í stjórnmálum upplifa viðhorf til þessara hluta eins og biðlauna, eins og kjarasamninga og eins og mannréttinda. Þess vegna þýðir ekki að koma hér upp, virðulegi forseti, og brúka munn yfir því að menn séu í málþófi. Það gengur ekki þegar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og sá sem heldur í strengina, hæstv. fjmrh., koma aftur og aftur og kvarta yfir því að menn séu að tefja málin þegar þeir sjálfir hafa hvorki nennu eða a.m.k. ekki sinnu til að skýra ákveðin mál. Hér hefur aftur og aftur verið spurt út í tiltekin mál. Menn vilja fá ákveðin svör. Þessi svör af hálfu stjórnarliðsins liggja t.d. fyrir í meirihlutaáliti efh.- og viðskn. Ég hefði gjarnan viljað sjá hv. þm. Vilhjálm Egilsson og lið hans skýra betur út einstök atriði í því áliti. Ég vek t.d. athygli á því að í málefnalegri ræðu sinni fyrr í dag spurði hv. þingkona, Guðný Guðbjörnsdóttir, hæstv. fjmrh., ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur a.m.k. þrisvar hvort það mætti gera ráð fyrir að við endurskoðun háskólalaga, sem mér skildist að ætti að fara fram í sumar, yrði með einhverjum hætti sett bytta undir þann leka sem nú er komin á framgangskerfið í háskólanum þannig að það mundi ekki rofna. Þetta var þráspurt og það kom aldrei neitt svar. Að lokum gat hún kreist hæstv. fjmrh. þannig að svarið kom. Hvernig var svarið? Það var svona: Þetta er mál sem verður að gera ráð fyrir að háskólinn leysi innbyrðis, þ.e. háskólinn leysi innbyrðis tengslin milli prófessora og dósenta.

Herra forseti. Hv. þingkona hafði í löngu og ítarlegu rökstuddu máli sýnt fram á að þetta vó að rótum þeirrar jafnréttisbaráttu sem hefur farið fram í háskólanum. Hún er fulltrúi Kvennalistans sem hefur barist fyrir þessum málum og hefur þess vegna frumburðarrétt á því að koma hér upp og spyrja um þessa hluti. Það er eðlilegasti hlutur í heimi að einmitt Kvennalistinn leiti svara við spurningum af þessu tagi. Svarið var ekki ítarlegra en þetta. Að þetta mál, sem tók sennilega hálftíma í ræðu hv. þm., fékk ekkert svar. Við sem erum hér og höfum áhyggjur og áhuga á þessu kerfi verðum að gera ráð fyrir því að e.t.v. kunni að koma til þess að háskólinn leysi þetta mál innan sinna eigin vébanda en við vitum ekkert um það. Herra forseti, svona vinnur ekki Alþingi Íslendinga. Þetta er ,,hippsumhapps``-aðferðin sem enginn leggur nafn sitt við og svona eiga menn ekki að vinna. Svona á Alþingi ekki að taka upp, jafnvel ekki á þessum síðustu og verstu tímum. En svona væri hægt að taka miklu fleiri dæmi. Af því að ég sé að hér er standandi í salnum einn maður úr hinni geistlegu sveit þá nefni ég t.d. að staða presta og prófasta er mjög ótrygg, að vísu ekki staða þessa hv. þm., Hjálmars Jónssonar, því hann hefur komið sér makindalega fyrir í sínu sæti. En staða presta er ótrygg eins og ég mun koma að síðar þegar ég ræði hvernig mælt er fyrir um það í Ágsborgarjátningunni og þegar ég kem í 16. gr. Ágsborgarjátningarinnar, sem hefur verið reifuð af hálfu Prestafélagsins, og ég er viss um að hv. þm. séra Hjálmar Jónsson hann mun sennilega (HjálmJ: Fara í andsvar við þig.) fara í andsvar um hana. En það er í lagi, virðulegi forseti, því við erum öll hér á bandi hins góða og erum biblíuföst. En þetta, virðulegi forseti, fannst mér nauðsynlegt að segja vegna þess að mér finnst hv. þm. Sjálfstfl. hafa komið af nokkru stærilæti. Þeir deila a.m.k. hart á það að menn skuli taka drjúgan tíma í að ræða þessi mál. En stjórnarandstaðan hefur sinn rétt og hún hefur rétt til þess að nota tjáningarfrelsið til að ræða út í hörgul og í þaula hvert einasta smáatriði. Ástandið upp í háskóla í kjölfar gerræðisverknaðar efh.- og viðskn. er auðvitað lýsandi dæmi um þessi vinnubrögð. Þau eru öll slæm, því miður. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem hefur um árabil átt virðingu mína fyrir dugnað sinn og útsjónarsemi og á það reyndar enn þá vegna þess að ég er til í það í kristilegum anda að fyrirgefa eina og eina misgjörð. En, virðulegi forseti, þær misgjörðir sem eru saman safnaðar hér í þessu plaggi hv. þm., reyna jafnvel á jafnaðargeð mitt til fullnustu.

Herra forseti. Ég held að við þurfum að velta því aðeins fyrir okkur í hvaða umhverfi frv. kemur fram. Það kemur fram við þær aðstæður að á hinu háa Alþingi er gríðarlega sterkur meiri hluti og vald mikils meiri hluta er alltaf vandmeðfarið. Það þarf mikinn þroska til að bera til að fara vel með það vald. Menn þurfa að búa að nokkrum andlegum styrk til að láta ekki kné fylgja kviði við slíkar aðstæður. Ég verð að segja að mér finnst sem nokkuð vanti á það hjá meiri hlutanum sem ræður í þessum sal. Mér finnst að það sé verið að beita valdi hins sterka gagnvart hinum smáa. (Gripið fram í: Er þá Alþýðuflokkurinn hinn smái?) Það er við hæfi, virðulegi forseti, að þingmenn stjórnarliðsins hafi uppi gáska á þessu kvöldi vegna þess að þeir vita að tímanum vindur fram og stjórnarandstaðan mun ekki beita málþófi til að drepa mál sem meiri hlutinn vill koma fram. Það er ekki þannig. En hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem er sennilega að reikna út vextina á kúponunum á borði sínu, er hlátur í huga. Honum er hlátur í huga vegna þess að hann veit að það verður ekki hann sem sætir þeim þrengingum sem er að finna í stöku ákvæði þessa frv., það verður ekki hann sem verður í gervi starfsmanns Pósts og síma sviptur biðlaunum með því að gera viðkomandi ríkisfyrirtæki að hlutafélagi í eigu ríkisins. En hann er hins vegar búinn að sjá til þess með starfi sínu í efh.- og viðskn. að allir þeir, sem starfa hjá ríkisfyrirtækjum sem verða í framtíðinni gerð að hlutafélögum, jafnvel þótt þau verði 100% í eigu ríkisins, hafa ekki biðlaunaréttinn sem þeir hafa í dag. Ef hv. þm. tekur mig upp í sams konar spurningatíma og hann tók hv. þm. Lúðvík Bergvinsson áðan þá mun hann e.t.v. spyrja mig um afstöðu mína til biðlaunanna. Þá mun hún koma fram, hv. þm., ef hún verður ekki þegar reifuð í mínu örstutta máli sem eftir lifir ræðu minnar. (PHB: Gott.)

Herra forseti. Ég sé að ákveðin eftirvænting speglast í augum hv. þm. Péturs H. Blöndals, hann vill ræða biðlaunin. Ég held að það sé eitt af því sem er allra verst í þessu frv. og þó að ég sé þeirrar skoðunar að hv. þm. efh.- og viðskn. hafi mjög lagfært frv. frá því sem fyrir var tel ég auðvitað að það sé út af harðri andstöðu en þó málefnalegri hjá stjórnarandstöðunni í þessum sölum og í nefndinni og það sýnir auðvitað að lýðræðið fúnkerar að vissu marki. (PHB: Heyrði ég rétt?) Ég verð samt sem áður að segja það að eins og ákvæðin voru upphaflega lýsir það skelfilegri og villimannslegri hugsun gagnvart vinnandi fólki á Íslandi. Það er auðvitað ekki hlutur sem ég get í sjálfu sér skammað þessa hv. þm. fyrir sem eru innan efh.- og viðskn., en þar var bókstaflega gert ráð fyrir því að biðlaunarétturinn væri ,,halveraður``. En sökum kröftugrar stjórnarandstöðu innan nefndarinnar hafa þessir ágætu þingmenn auðvitað breytt því. Eftir sem áður er það alveg ljóst samkvæmt frv. að ef menn fara út í það sem búið er að lýsa yfir, sem liggur jafnvel fyrir í formi afgreiddra frv. á borðum þingmanna, að farið verði í það að búa til hlutafélög úr opinberum fyrirtækjum sem eru í eigu ríkisins í dag verða viðkomandi starfsmenn algjörlega sviptir biðlaunaréttinum.

Þá skulum við velta fyrir okkur eðli þessa biðlaunaréttar. Hæstv. fjmrh. hefur nánast sagt að biðlaunaréttur feli ekki í sér áunnin réttindi. Ég tel að ekki sé með nokkrum rökum hægt að halda því fram. Í fyrsta lagi er hægt að segja að hann er áunnin réttindi að því leyti til að hann varð að veruleika fyrir sameiginlega baráttu verkalýðshreyfingarinnar um mjög langa hríð. En hann er líka áunnin réttindi vegna þess að hann er fall af tíma, þ.e. hann breytist með tíma. Þeir sem hafa unnið skemur en 15 ár hafa ákveðinn biðlaunarétt, þeir sem hafa unnið lengur en 15 ár hafa virkari og meiri biðlaunarétt. Ég viðurkenni það fúslega að ég er bara þingmaður með slaka meðalgreind en ég get ekki fallist á það þegar hv. þm. halda því fram í ljósi þessa að biðlaunin séu ekki áunninn réttur. Auðvitað eru þau áunninn réttur. Svo koma þingmenn hér og sérstaklega hæstv. fjmrh. og halda því fram að biðlaunin séu ekkert annað en aðferð til að borga mönnum tvöföld laun vegna þess að menn fá biðlaun þegar þeir tapa starfinu jafnvel þó þeir séu áfram í starfi sem ríkið útvegar þeim þá hjá hinu nýja hlutafélagi, tökum sem dæmi Póst og síma.

Herra forseti. Það var skelfilegt þegar hæstv. samgrh. anaði út í það forað að setja fram frv. um Póst og síma vegna þess að það var svo gersamlega vanhugsað að það stóð ekki steinn yfir steini þegar kom að réttindaákvæðunum. Réttindaákvæðin sýndu bara að hæstv. ráðherrar höfðu ekki meiri faglegan metnað en svo að þeir höfðu ekki einu sinni lesið nýfallna dóma vegna þess að réttindaákvæði frv. um Póst og síma braut algjörlega í bága við nýfallinn dóm í svokölluðu SR-máli. Það er þarflegt, herra forseti, að velta því máli örlítið fyrir sér. Það mál, virðulegi forseti, var tvenns konar. Annars vegar féll sá dómur vegna þess að gert var ráð fyrir að viðkomandi starfsmaður SR-mjöls, sem áður hafði verið starfsmaður Síldarverksmiðja ríkins, fengi sambærilegt starf hjá hinu nýja hlutafélagi. Vegna þess að lögin tóku einungis til þeirra 50 starfsmanna, sem unnu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, þá taldi héraðsdómur að þetta væri brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga. En jafnframt kom það líka fram, virðulegi forseti, að um var að ræða starf og það sagði í niðurstöðuorðum dómsins ,,sem var ekki sambærilegt``.

[21:45]

Það lá fyrir að ef opinberu fyrirtæki er breytt í hlutafélag, sem er 100% í eigu ríkisins, þá er starfið ekki sambærilegt. Nú skulum við álykta út frá þessum staðreyndum. Viðkomandi starfsmanneskja hafði nákvæmlega sömu laun, hún hélt nákvæmlega sama áunna lífeyrisrétti, hún hafði sama síma, sama herbergi, sama skrifborð. En hvað var það sem hún hafði ekki? Hún hafði ekki lengur möguleika til að byggja ofan á þau réttindi sem fyrir voru. Hún gat ekki áunnið sér frekari réttindi. Hvað þýðir þetta ef menn gagnálykta? Það þýðir bara það eitt að biðlaunin eru ekki hugsuð sem laun heldur sem bætur fyrir það að tapa möguleikunum til ávinnslunnar. Ef þetta er rétt rökleiðsla hjá mér er alveg klárt að eins og frv. um Póst og síma kom fram var það bara tómt rugl. Þá er það líka klárt að jafnvel þó þessar breytingar, sem liggja núna fyrir standist samkæmt stjórnarskrá og öllum alþjóðlegum sáttmálum þá eru þau samt sem áður í blóra við lögmál sem búið er að setja og það eru orð hæstv. forsrh. Vegna þess að hæstv. forsrh. hefur úr þeim stóli sem ég stend í núna, virðulegi forseti, lýst því yfir að ekki verði farin sú leið að taka aftur slík réttindi. Þá er spurningin, virðulegi forseti, hvort muni vega þyngra vilji hæstv. fjmrh. og stjórnarliðsins, sem hann hefur í eftirdragi, eða orð hæstv. forsrh. Ég hef af nokkrum kynnum mínum af hæstv. forsrh. aldrei staðið hann að öðru en því að orð hans eru þyngri en gull. Ætla hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem geispar hér í sæti sínu og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem lítur jafngáfulega út núna og í dag, að verða til þess að orð hæstv. forsrh. liggi tætt og brotin á gólfinu? Herra forseti. Ég held að þessir hv. þm. eigi að hafa meiri metnað fyrir hönd flokks síns og formanns en svo og ég hirði þá ekki um afstöðu Framsfl. vegna þess að hann er horfinn héðan úr salnum og þykir mér lítil tíðindi.

Herra forseti. Sú starfsmannastefna sem liggur fyrir í frv. er partur af uppstokkun í ríkisrekstrinum sem hæstv. fjmrh. hefur staðið fyrir um nokkurra ára skeið. Það er margt gott um það að segja og hæstv. ráðherra hefur t.d. haldið fjórar merkilegar ráðstefnur um þetta og þær eru ekki hvað síst merkilegar fyrir það að þær hafa allar verið skemmtilegar og allar endað með skemmtilegri samdrykkju, má vera að það séu e.t.v. áhrif frá stjórnarsamstarfinu á síðasta kjörtímabili. En, virðulegi forseti, (Gripið fram í: Nú?) ja, Alþfl. hefur alltaf haft orð á sér fyrir að kunna að lifa lífinu (Gripið fram í: Létt.) létt. Er það ekki rétt? (Gripið fram í: Nei.) Nei, herra forseti. Nú er ég kominn út á það svell sem hálast er og hygg ég að rétt sé að reyna að krafla sig aðeins til baka.

Herra forseti. Ég var að ræða hér um biðlaunaréttinn og orð forsrh. Ég er þeirrar skoðunar og tel að ég hafi fært sæmileg rök að því hér áðan að biðlaunin séu bætur fyrir tap á réttindum sem viðkomandi starfsmaður hafði í þjónustu ríkisins en missir þegar viðkomandi starf flyst yfir í hlutafélag jafnvel þó það sé 100% í eigu ríkisins. Ég er algerlega ósammála því sem menn eru að segja um biðlaunin að þau séu ekkert annað en tvöföldun launa. Úr þessum örfáu ræðum hv. stjórnarliða og ekki síst hæstv. ráðherra er hægt að finna dæmi um það að þeir hafa þrátt fyrir allt gott skyn og stundum missa þeir út úr sér það sem þeir eru að hugsa. Nú mundi ég aldrei segja um hv. þm. Vilhjálm Egilsson að hann næði ekki að hugsa jafnhratt og hann talaði, því það gerir hann sannarlega, en hv. þm. sagði í andsvari einhverja síðustu daga þegar verið var að væna hann og stjórnarliðana um að það væri verið að taka burt ákveðin réttindi sem væru fémæt og hefði þess vegna þurft að semja um. Ég man ekki hvernig hv. þm. orðaði það en efnislega sagði hann að auðvitað hlyti að koma til einhverrar umræðu um bætur í tengslum við næstu kjarasamninga. Með öðrum orðum fannst mér sem hv. þm. væri þarna a.m.k. í andófi sínu kominn niður á annað hnéð, að hann væri farinn að fallast á það að ef til vill kynni að vera búið að taka einhver réttindi sem væru fémæt og sem þyrfti að greiða fyrir.

Virðulegi forseti. Hafi hv. þm. Vilhjálmur Egilsson verið kominn a.m.k. niður á annað hnéð þá fór hæstv. fjmrh. í andsvari sínu fyrr í umræðunni niður á þau bæði. Það var raunar við 1. umr., herra forseti. Þá vorum við að ræða um áunnin réttindi og ég hafði haldið því fram við hæstv. ráðherra þegar við vorum að ræða um hina nýju stétt, embættismennina, að þeir væru í sjálfu sér sviptir verkfallsrétti og samningsrétti sem hvort tveggja væru fémæt réttindi og þyrfti þess vegna með einhverju móti að greiða fyrir. Ég dró þá ályktun að það þyrfti að semja um þau áður en þau voru með þessum hætti tekin af viðkomandi starfsmönnum. Þá sagði hæstv. ráðherra að fyrir þessi réttindi væri greitt vegna þess að þeir héldu biðlaunarétti. Hann orðaði þetta efnislega með þessum hætti. Ég get þess vegna ekki dregið aðra ályktun en þá að hann hafi með þessum orðum fallist á að samningsrettur og verkfallsréttur þessara hópa feli í sér fémæt réttindi. Þá finnst mér, herra forseti, sem þarna sé komin ansi athyglisverð veila í röksemdafærslu hæstv. ráðherra.

Þá kem ég að því, virðulegi forseti, að allt sem er í þessu frv. er þess eðlis að það mætti breyta því. Ég er auðvitað ekki forustumaður í BSRB þannig að það er ódýrt fyrir mig að segja þetta en nánast hvert og eitt einasta atriði er þess eðlis að ég gæti fallist á að því yrði breytt, biðlaunaréttinum líka, ef fyrir það kæmi einhvers konar greiðsla. Við megum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að það má segja að opinberir starfsmenn hafi búið við það sem kallað er aukna ráðningarfestu miðað við almenna vinnumarkaðinn og þeir hafa búið við ýmiss konar skilyrði sem eru talsvert betri en tíðkast á hinum almenna markaði. Þeir hafa, herra forseti, miklu víðtækari réttindi. En þetta eru ekki réttindi sem þeir hafa fengið í jólapakka frá ríkisstjórninni í gegnum árin. Nei, virðulegi forseti, þetta eru réttindi sem þeir hafa í rauninni staðgreitt hverju sinni. Ég fullyrði að ég þekki ekki dæmi þess að það hafi gerst að ríkisvaldið hafi að eigin frumkvæði breytt lögum til að auka réttindi opinberra starfsmanna. Það hefur alltaf verið þannig að það hefur gerst fyrir þrýsting viðkomandi samtaka. Og það hefur alltaf verið þannig, virðulegi forseti, að fyrir það hefur verið greitt með því að opinberir starfsmenn hafa sætt sig við lægri laun en tíðkast á hinum almenna vinnumarkaði.

Herra forseti. Ég minnist þess að það eru ekki nema nokkur ár síðan opinberir starfsmenn, kennarar og BSRB, fóru í mikla herferð til að reyna að ná jafnstöðu gagnvart almenna markaðnum. Gerðar voru miklar skýrslur og þær sýndu að engum blöðum var um það að fletta að munurinn á launakjörum opinberra starfsmanna og þeirra sem störfuðu á almennum vinnumarkaði var talsvert mikill. Hvert var svarið þegar forusta opinberra starfsmanna gekk fyrir dyr ríkisvaldsins og óskaði eftir því að þessi munur yrði leiðréttur? Svarið var að það væri sanngjarnt að þeir starfsmenn sem væru innan vébanda þessara samtaka hefðu lægri laun vegna þess að þeir byggju við miklu öruggara og traustara réttindaumhverfi. Réttindi þeirra voru með öðrum orðum miklu betri. Ég er að verulegu leyti sammála þessu, virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að réttindin sem opinberir starfsmenn hafa haft í gegnum árin séu þess eðlis að þau skapi ákveðið öryggi sem er ekki að finna á hinum almenna markaði og það réttlætir að það sé einhver munur þarna á milli almenna vinnumarkaðarins og opinbera markaðarins vegna þess að í þessum réttindum er að finna fémæti. En þá verður líka að gagnálykta að þegar þessi réttindi eru skert með einhverjum hætti, þegar þau eru tekin til baka, þá verður að greiða fyrir þau. Ég hef skilið mál hv. þm. Vilhjálms Egilssonar þannig að það sé ekki útilokað að það verði gert en það þurfi að koma fram í samningum og þá væntanlega næstu samningum.

Herra forseti. Það er ekki hægt að semja eftir á. Sá sem er settur í þvílíka stöðu getur aldrei vænst þess að ná rétti sínum. Þess vegna er þetta í meginandstöðu við það sem sanngjarnt er. Þetta er a.m.k. í andstöðu við stefnu annars stjórnarflokksins vegna þess að Framsfl. hefur lýst því yfir að engar breytingar eigi að gera nema í góðu samráði við vinnumarkaðinn. Þetta kemur fram í stefnuskrá Framsfl. En það sem er mun verra er að ég tel að þetta sé líka í andstöðu við gildandi lög. Þegar lögin sem við búum við núna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru sett 1954 þá fólst í þeim ákveðin þjóðarsátt, það fólst í þeim ákveðin sátt milli framkvæmdarvaldsins og starfsmanna þess. Þessi kjarasátt kemur fram í einni af greinum laganna frá 1954. Ég held að ekki sé hægt að túlka 37. gr. laganna frá 1954 öðruvísi en svo að þar sé a.m.k. Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja lofað lögum samkvæmt að það fái að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði sem kunni að koma upp við endurskoðun laganna. Það hafa heldur betur komið upp ágreiningsefni við endurskoðun þessara laga. Það er hins vegar rakið afskaplega vel í ýmsum umsögnum sem efh.- og viðskn. hefur borist hvernig opinberir starfsmenn fengu að fylgjast með þessu.

Herra forseti. Ég tel að lög hafi verið brotin þegar menn fóru í viðræður milli hins opinbera og samtaka opinberra starfsmanna. Að vísu hefur hæstv. fjmrh. gefið út áróðursrit á kostnað skattborgaranna þar sem það kemur fram að haft hafi verið fullt samráð milli hæstv. fjmrh. annars vegar og opinberra starfsmanna hins vegar. Nú er ég búinn, herra forseti, að lesa og rekja efni 36. gr. gildandi laga þar sem segir að samtökum opinberra starfsmanna eigi að gefast kostur á því að fjalla um ágreiningsefni sem koma upp við endurskoðun þessara laga. Það er samt sem áður þannig að það var ekki bara í skötulíki sem þetta samráð fór fram, það var nánast ekki til. Það var þannig að hæstv. fjmrh. fékk einfaldlega lögfræðing út í bæ til að búa til þetta frv. Ég fæ ekki betur séð af lestri málsatvika en að þessi frumvarpssmíð hafi farið fram án þess að samtökum opinberra starfsmanna hafi verið gefinn kostur á því að fylgjast með heldur hafi þau bókstaflega verið dulinn verknaðarins. Þau hafi ekki fengið að vita af því að í bígerð var að kollvarpa því réttindaumhverfi sem opinberir starfsmenn búa við. Það kemur fram í minnisblaði frá Bandalagi háskólamanna til fjmrh. að 4. okt. hafi frumvarpshöfundurinn óskað eftir fundi með samtökunum. Þar var honum gerð ítarleg grein fyrir sjónarmiðum opinberra starfsmanna, a.m.k. Bandalags háskólamanna. Síðan eru menn á einhverjum málamyndarfundum en það er ekki fyrr en eftir áramót, þ.e. nokkrum mánuðum síðar, þegar bersýnilega er búið að láta í veðri vaka að verið sé að taka tillit til sjónarmiða Bandalags háskólamanna og opinberir starfsmenn höfðu enga ástæðu til að ætla annað en að farið yrði í eðlilegt samráð samkvæmt hefð, samkvæmt gildandi lögum, þá gerist það allt í einu að mönnum berst bréf þar sem liggur fyrir að það er verið að gjörbreyta öllu réttindaumhverfinu, það er verið að gjörbreyta lögunum. Það var ekki fyrr en um miðjan febrúar sem forustu Bandalags háskólamanna og þá væntanlega BSRB líka varð ljóst að ekki var verið að gera neinar smávægilegar breytingar á lögunum og þar með þeim réttindum sem í þeim eru fólgin heldur var um allsherjaruppstokkun að ræða.

Herra forseti. Mig langar aðeins að gera að umræðuefni þau markmið sem kemur fram í frv. að eigi að nást með þessum lögum sem væntanlega spretta upp úr frv. hér. Þar kemur fram, m.a. að það eigi að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði. Ef það væri svo að það væri einlægur vilji hins opinbera, þ.e. hæstv. ráðherra, til að jafna þennan aðstöðumun þá hefði maður getað gert ráð fyrir því að jafnað yrði í báðar áttir. Það var ekki einungis um það að ræða að þar sem fyndust betri réttindi til handa opinberum starfsmönnum væru þau skert til að ná þeim niður á sama svið og þeir búa við sem eru á almennum vinnumarkaði og þiggja hærri laun út á óvissara umhverfi. Nei, herra forseti, maður hefði gert ráð fyrir því að sú leið yrði farin líka að þar sem einhvers konar ákvæði er að finna sem eru miklu verri fyrir opinbera starfsmenn þá yrði einnig breytt á hinn veginn. Ég, herra forseti, verð hins vegar að segja að þegar maður les t.d. IV. kafla frv. um skyldur opinberra starfsmanna þá kemur í ljós að víða eru í gildi ákvæði sem má með sanni segja að séu úrelt og mjög til baga fyrir opinbera starfsmenn. Af hverju er sú leið ekki farin að breyta þessum lögum, herra forseti?

[22:00]

Ég ætla að nefna nokkur dæmi. Ég nefni sem dæmi að í 30. gr. gildandi laga eru ákvæði sem kveða á um að ef opinberir starfsmenn eru fjarverandi án sérstakra gildra forfalla þá þurfa þeir að greiða tvöfalt fyrir hverja stund sem þeir eru í burtu. Þetta er úrelt ákvæði, fornfálegt refsiákvæði. Ef það er svo að hæstv. fjmrh. er að reyna að byggja upp eins og hann segir sjálfur, nútímalega starfsmannastjórnun a.m.k. jafnnútímalega og er hjá einkafyrirtækjum, hvers vegna fóru menn þá ekki í það að taka þetta úrelta ákvæði burtu? Þetta skiptir litlu máli en sýnir hugarfarið vegna þess að það afhjúpar þann tilgang sem liggur raunverulega að baki frv. og hann er sá að jafna aðstöðumuninn bara í eina átt. Það þykir mér auðvitað nöturlegt, herra forseti. Það er hægt að fara í fleiri ákvæði sem eru í sama farvegi. T.d. má ráða þegar maður les frv. að þar er verið að breyta núgildandi 31. gr., þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu, sem yfirboðarar telja nauðsynlega.``

Síðar segir í greininni að engum sé skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur þriðjungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma. Í frv. er þessu breytt með tvennum hætti:

,,Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega.``

Síðar segir að það sé ekki skylt að vinna meiri yfirvinnu en sem nemur fimmtungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma. Þegar ég las þetta fyrst þá hugsaði ég, jæja þarna er þá verið að draga úr skyldum opinberra starfsmanna. Ég gladdist yfir þessu og taldi að þetta bæri vott um hið upprunalega hjartalag skátans sem situr í stóli hæstv. fjmrh. og hann væri þarna að létta ákveðinni kvöð af sínum starfsmönnum. En auðvitað kemur í ljós að þetta eins og svo margt ananð sem til betri vegar horfir á vinnumarkaði á rætur að rekja til vinnutilskipana frá ESB sem hafa þjóðréttarlega skuldbindingu hér á landi. Þannig að það var ekki bara hinn góði vilji hv. þm. Vilhjálms Egilssonar sem þó er einlægur í sínum ásetningi, hver sem hann er, né heldur hugarfar skátans. Það var einfaldlega verið að fara eftir því sem ESB keyrir í hausinn á hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum. Ef það hefði verið raunverulegur tilgangur að jafna aðstöðumuninn þá hefði þessu ákvæði um að starfsmönnum sé skylt að vinna yfirvinnu sem forstöðumaðurinn telur nauðsynlega, verið breytt vegna þess að á hinum almenna vinnumarkaði er þetta ekki svona. Þar fer vinnutími eftir einstaklingsbundnum ráðningarsamningi eða eftir kjarasamningum hverju sinni. Þetta er í sjálfu sér kannski ekkert voðalega erfitt ákvæði. En ég tel að ef þetta hefði verið hinn einlægi vilji ríkisstjórnarinnar þá hefði þessu verið breytt. Þegar maður les þetta hins vegar í tengslum við ýmislegt annað sem er að finna í þessu frv., sérstaklega í hinni upprunalegu gerð þess þar sem bókstaflega var gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmaður hefði lítinn eða nánast engan málskotsrétt, mætti auðvitað með vondum vilja álíta sem svo að hér væri að verulegu leyti eins konar dulin uppsagnarheimild. Það hefði mátt álykta það. Ég verð hins vegar að segja hv. efh.- og viðskn. til hróss að hún hefur í ýmsum efnum sem varða málskotsrétt, sem varða skyldu yfirmanna til að gefa starfsmönnum kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri ef það er verið að veita þeim áminningu eða jafnvel að segja þeim upp, að ýmsu leyti tekið tillit til ábendinga sem hafa komið fram hjá stjórnarandstöðunni.

Herra forseti. Ég verð að segja að það er ýmislegt í þessu frv. sem mér finnst ekki alvont. Sumt finnst mér gott. En ég mótmæli alfarið þeirri aðferð sem er notuð af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma vilja sínum fram. Ég tel að það hefði verið hægt að ná sáttum um nánast hvert einasta atriði ef menn hefðu reynt. Ég held að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., geti ekki haldið því fram miðað við þau gögn sem liggja fyrir, að það hafi verið reynt að fara málamiðlunarleiðina eða samráðsleiðina. Ég er alveg sannfærður um að það hefði verið hægt að ná samkomulagi um öll þessi atriði. Það hefði e.t.v. þýtt að það hefði þurft að meta þessi réttindi sem verið er að skerða að einhverju leyti til fjár. Ég minnist þess að reikningshausinn hér í þessum sal, hv. þm. Pétur H. Blöndal, spurði mig hvatskeyttur að vanda við 1. umr. þegar ég var einmitt að reifa þetta með biðlaunin. ,,Ja, hvað reiknarðu dýrt?`` Ég hef auðvitað hvorki vit né þroska til að reikna af jafnmikilli kúnst og hv. þm. og ég gat ekki svarað því. En ef ég settist niður með hv. þm. Pétri H. Blöndal, þá gæti ég með hans aðstoð væntanlega reiknað út hvað við erum í krónum að svipta t.d. hina tilvonandi starfsmenn Pósts og síma hf. mörgum krónum með þeim breytingum á biðlaunaákvæðinu sem gert er hérna. Ætli það hlaupi ekki á gríðarlega háum upphæðum. Og ég veit það, af því að hv. þm. Pétri H. Blöndal leiðist stundum í þessum sal, hugurinn fer svo víða og hann er kannski eirðarlausari en meðalþingmaðurinn og af því að hann er fljótur að reikna þá kannski gerir hann mér það til geðs að reikna þetta út á þeim örfáu mínútum sem eftir lifa af minni ræðu.

Herra forseti. Ég vil segja það hér að þó ég sé algjörlega mótfallinn þessari aðferð sem stjórnarliðið hefur við það að koma hér ýmsum hlutum fram þá eru þarna hlutir sem ég hef margoft lýst yfir að ég hefði viljað sjá. Það er eitt sem ég vil sérstaklega taka fram. Ég er fyrir löngu kominn á þá skoðun að það sé eðlilegt og að það sé hluti af bættum stjórnarháttum ríkisins að fá yfirmönnum ríkisfyrirtækja í hendur meira vald. Vegna þess hvað ráðuneytin eru veikar einingar og eiga oft erfitt með að vinna vel með þeim stofnunum sem undir þau heyra þá hef ég margoft sagt það þegar þessi mál hefur borið á góma hér í þessum stól að það sé algjörlega nauðsynlegt að setja stjórn yfir öll fyrirtæki sem eru í eigu ríkisins og allar stofnanir. Ég hef fundið það oft á máli hv. þm. stjórnarliðsins að þeir hafa tekið undir þetta að því marki að ég held að það sé almenn skoðun meðal hv. þingmanna stjórnarliðsins að allar stofnanir sem fara með einhvers konar eftirlitshlutverk eigi að hafa stjórn yfir sér. Ég er þeirrar skoðunar að allar stofnanir ríkisins eigi að hafa stjórn yfir sér og í öllum stjórnunum eiga starfsmenn að hafa fulltrúa. Ég tel að við þessar aðstæður þar sem starfsmenn hefðu líka málskotsrétt til þessarar stjórnar þá eigi viðkomandi yfirmaður kost á því að hafa mikið svigrúm. Ég t.d. deili ekki þeim varhug sem goldinn er af hálfu stjórnarandstöðunnar við því svigrúmi sem forstöðumönnum stofnana er veitt með frv. til að ákveða viðbótarlaun. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það er hægt að misnota þetta. Það er hægt að setja upp vildarvinakerfi. Þess vegna er svo nauðsynlegt að hafa aðhaldið sem felst í stjórninni yfir þessum fyrirtækjum. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að á næstunni ... (Gripið fram í: Hver á að velja stjórnina?) Eftir atvikum þá gæti það verið Alþingi. Það færi eftir eðli stofnananna. En ég held eins og ég sagði áðan að starfsmenn eigi að hafa fulltrúa þar. Ég skal ekki liggja á þeirri skoðun minni að ég tel að það eigi að vera mikið pólitískt vald yfir þessum stofnunum. Það þýðir ekki að það eigi að skikka yfirmenn viðkomandi stofnunar frá starfi ef þeir fara eitthvað lítillega út af línunni. Það má ekki misskilja orð mín þannig. Ég t.d. deili ekki skoðun sem kemur fram í umsögn Bandalags háskólamanna varðandi erindisbréf yfirmanna stofnana þar sem talað er um að í þessu geti falist leið fyrir óvæginn ráðherra að segja ekki bara gleðileg jól við sitt fólk heldur bókstaflega reka það. Ég deili ekki þeim ótta og tel að ef þannig stjórn væri yfir stofnun þá væri það ekki hægt.

Ég er þeirrar skoðunar að á næstu árum muni nýjar aðferðir ryðja sér til rúms innan ríkiskerfisins. Ég er t.d. alveg sannfærður um að við munum á næstu árum í verulegum mæli sjá samningsstjórnun tekna upp. Ég er hlynntur því. En þá verðum við líka að veita viðkomandi stofnun og yfirmanni hennar og yfirstjórn, möguleika til að umbuna einstökum deildum innan stofnunarinnar eða einstökum starfsmönnum eftir framlagi þeirra. Ég tel að það sé nauðsynlegt. Við getum til að mynda tekið dæmi af samningsstjórnunarkerfi sem nú er verið að reyna í Kvennaskólanum í Reykjavík. Það virkar vel. Það virkar þannig að gæðastjórnun er líka innifalin í því. Þar er hver einasti kennari spurður í þaula um starf sitt, nemendur spurðir um kennarana o.s.frv. Í þessu felst ákveðin innri hvatning en jafnframt hvati fyrir viðkomandi stofnanir til að aga sjálfar sig og endurmeta sín eigin markmið. Ég verð að segja, eftir tiltölulega skammvinna reynslu sem ráðherra, að það var oft og tíðum skelfilegt að finna hvernig sumar stofnanir hafði borið langt af leið. Þær voru komnar víðs fjarri hinum upprunalegu markmiðum sínum. Og okkur sem trúað er til þess að fara vel með peninga skattborgaranna, við eigum ekki að vera hrædd við að taka ákvarðanir sem gætu leitt til þess að þær stofnanir starfi betur.

Ég ætlaði aðeins að nefna þetta með Kvennaskólann vegna þess að ég hlustaði á erindi um hvernig það verkefni er rekið. Þar er öllum innan skólans settur hvati til að bæta ráð sitt, til að verða betri starfsmenn. Starfsmenn taka því fagnandi. En ég velti einu fyrir mér þegar ég heyrði þetta ágæta erindi. Hver var hvatinn fyrir viðkomandi starfsmenn? Hver var hvatinn? Hann var ekki í kerfinu. Þá varð mér hugsað til minnar eigin skammvinnu reynslu af því að kenna góðu fólki. Ég eyddi einu sinni heilu ári sem lektor við Háskóla Íslands og kenndi við margar deildir. Það var alveg sama hvar ég bar niður ég fann alltaf einn skelfilegan hlut. Það var óskaplegur munur á nemendum eftir því frá hvaða skólum þeir komu, jafnvel nemendur sem voru valdir í krafti þess hvað þeir höfðu háar einkunnir eins og í tannlæknadeild, en mér veittist sá heiður að kenna þar einu sinni. Það var alveg ljóst að það var mikill munur á þeirra þjálfun sem námsmönnum. Það verður að segjast eins og er. Hvernig getum við eytt þessum mun sem getur haft mikil áhrif á þroska þessara námsmanna og mikil áhrif á möguleika þeirra innbyrðis til að hasla sér völl í lífinu? Við getum það auðvitað með því að útvega þeim góða kennara. Og hvernig förum við að því að útvega þeim góða kennara? Ég held, herra forseti, að eitt af því sem við þurfum að geta gert sé að viðkomandi skólastjóra sé leyfilegt að fara fram úr einhverju miðstýrðu launakerfi fjmrn.

Herra forseti. Hv. stjórnarliðar sem hér hafa talað, menn á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Vilhjálm Egilsson, hafa getið sér orð fyrir það hvað þeir eru frjálshuga. Samt er ekki að finna neitt í þessum tillögum sem frá þeim koma sem gerir ráð fyrir því að með einhverju móti sé dregið úr þessari gríðarlegu miðstýringu hjá ríkinu. Og það þykir mér afskaplega merkilegt, herra forseti. Ég get ekki annað en dregið þá ályktun að þessir menn séu að fylgja einhverju allt öðru heldur en eigin sannfæringu. Mér þykir illt að segja það, herra forseti, en ég hef það stundum á tilfinningunni að þegar þessir hv. stjórnarliðar koma hér upp í ræðustólinn og halda sínar innblásnu ræður og skammast yfir málþófi stjórnarandstöðunnar sé það ekkert annað heldur en Baldur og Konni. Baldur er áfram uppi í ráðuneyti og situr þar en Konnarnir eru allir hér.

Herra forseti. Ég tel að ef þessir hv. þm. ætla að vera samkvæmir sjálfum sér þá eigi þeir að iðka sjálfstæða hugsun og hætta að láta ráðherrann skipa sér fyrir í öllum málum. Sér í lagi líð ég önn fyrir það að sjá hinn vaska nýgræðing í okkar hópi, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem kom hingað eins og stormsveipur. Það gustaði af honum og ég sé að hann er að falla í sama farið. Hann er að verða partur af þessum nafnlausa skara sem hættir að hafa sjálfstæðar skoðanir en kemur hingað endrum og eins, rýkur upp í andsvar þegar menn eru búnir að halda ræðu í einn og hálfan tíma og biður um að fá útdrátt í neytendapakkningu í tveggja mínútna formi. Herra forseti. Hvar eru hugsjónir hv. þm. sem ætlaði að brjóta upp kerfið? Hann er orðinn partur af hinum nafnlausa skara sem gerir ekkert nema rétta upp hendurnar þegar kemur að því að greiða atkvæði. Hvar eru hinar sjálfstæðu skoðanir?