Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:19:34 (5963)

1996-05-13 22:19:34# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Félagi Össur hefur farið mikinn í málflutningi sínum eins og honum er tamt.

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að ávarpa ber þingmenn hv. þm.)

Hv. þm. er allra manna skemmtilegastur og minnir hann á menn frá fyrri tíð sem gátu í senn verið skemmtilegir og alvarlegir í hugsun. Ég hygg að hv. þm. sé einmitt þannig. Hann lætur fljúga brandarana en meinar örugglega mjög mikið með þeim. Mig langaði til þess að rifja upp ljóð eftir Grím Thomsen sem hann orti um Goðmund á Glæsivöllum.

  • Goðmundur kóngur er kurteis og hýr,
  • yfir köldu býr;
  • fránar eru sjónir, en fölur er hans hlýr,
  • og feiknstafir svigna í brosi.
  • Hann fór fljótt yfir sögu og minntist aðeins á Póst og síma hf. sem væntanlega kemur hér til umræðu fljótlega. Hann talaði um að verið væri að taka öll réttindi af því fólki sem flyttist yfir til þess nýja fyrirtækis. Ég vildi aðeins leiðrétta það í stuttu andsvari að samkvæmt þeim tillögum sem frá okkur koma í samgn. verða áunnin réttindi ekki tekin af þessu fólki heldur munu þau fylgja með og réttindi þeirra tryggð í nýju félagi eins og t.d. lífeyrisréttindi. Ég ætla aðeins að lesa hér úr lögum sem eru lög um réttindastöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Það hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Frá og með þeim degi sem aðilaskipti verða í skilningi 1. mgr. 1. gr. skal nýr eigandi takast á hendur réttindi og skyldur fyrri eiganda samkvæmt ráðningarsamningi og virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið á almennum kjarasamningi með sömu skilmálum og giltu hjá fyrri eiganda þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.`` Í mínum huga er ljóst að starfsmenn Pósts og síma munu einskis missa af lífeyrisréttindum sínum þegar flutningur verður. (KÁ: En biðlaunin?)