Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:21:59 (5964)

1996-05-13 22:21:59# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eitt af því sem ég hef haft á móti hinum nýju kynslóðum sjálfstæðismanna hér í þingsölum er hvað þeir eru lítt bókmenntalega sinnaðir. En nú er risinn hér upp silfurhærður og grásprengdur en bersýnilega afar greindur hv. þm. af Suðurnesjum sem kann Grím Thomsen utan að. Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma. Hann er úr kjördæminu en minnist þess þó að einu sinni átti ég í blaðadeilu í Morgunblaðinu um fyrrv. ráðherra Alþfl. Ég var þá í öðrum stjórnmálaflokki sem ég man ekki svo glöggt hver var en þetta hafði skelfilegar afleiðingar enda býr nú viðkomandi ráðherra erlendis.

Herra forseti. Hv. þm. getur þess að búið sé að breyta frv. um Póst og síma. Það er að vísu rétt að það er búið að breyta frv. en það stendur eftir sem áður að ef og þegar Póstur og sími verður gerður að hlutafélagi og starfsmennirnir færast þar með úr störfum hjá ríkinu og verða starfsmenn hlutafélagsins þá fá þeir ekki biðlaunin greidd. Ég færði hér rök fyrir því að það megi gagnálykta út frá dóminum sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í svokölluðu SR-máli að biðlaunin séu bætur fyrir það að geta ekki lengur bætt við réttindum ofan á þau sem búið var að ávinna sér. Ég er þeirrar skoðunar og vek athygli á því að hæstv. ríkisstjórn hefur nú áfrýjað málinu. Ef hún tapar því máli mundi þessi breyting, sem hv. þm. greindi frá að búið væri að gera á frv., brjóta gegn sama dómi nema því aðeins að það frv. sem hér er verið er verið að fjalla um í kvöld sé orðið að lögum. Og það er auðvitað galdurinn, herra forseti. Allt þetta streð okkar hér í 600 sumur miðar að því einu að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson getur dundað sér við það næsta vetur að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög, eins og Pósti og síma verður breytt í hlutafélag núna, án þess að þurfa borga milljarða króna í biðlaun fyrir þessar bætur. Þetta er auðvitað það sem allt snýst um. Það er verið að færa umtalsverð verðmæti frá launafólki hjá þessum stofnunum yfir til ríkisins.