Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:36:49 (5972)

1996-05-13 22:36:49# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist ágætra orða núverandi útvarpsstjóra sem sagði: ,,Það blundar í mér svolítið fól.`` Ég sé það að í rauninni var hv. þm. að koma hér upp í stól til þess að segja: ,Mig langaði alltaf til þess að verða bókmenntagagnrýnandi``, því hann tók ræðu mína fyrir og skipti henni í ýmsa kafla og gaf þeim síðan einkunnir. En hann átti eftir að taka lokakaflann þegar ég var að tala um hann sjálfan.

Herra forseti. Ég lýsi því þá hér yfir að ég er á móti æviráðningunni og ég er þeirrar skoðunar að hún eigi að hverfa en ég er þeirrar skoðunar að hún sé partur af réttindum sem opinberir starfsmenn hafa unnið sér í gegnum samninga við ríkið og þeir hafa greitt fyrir þetta. Þeir hafa staðgreitt æviráðninguna. Ef hún er af þeim tekin þá á að greiða þeim til baka það sem þeir hafa greitt fyrir hana. Ég er þeirrar skoðunar að það sé sérstaklega þörf á því að hægt sé að hnika til forstöðumönnum stofnana og æðstu embættismönnum ráðuneytanna en það eru nákvæmlega þeir sem mér sýnast vera grjótfastastir í þessu kerfi sem hv. þm. er greinilega hreykinn af að vera að byggja hér upp.

Að því er biðlaunaréttinn varðar þá er ég búinn að lýsa því hvaða skoðun dómstólarnir eða a.m.k. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur á honum. Þar er um það að ræða, herra forseti, að maður flyst úr starfi hjá hinu opinbera yfir í hlutafélag sem er alfarið í eigu hins opinbera. (Gripið fram í: Sama starf.) Það er sama starf, sama skrifborð, sami sími, sömu laun og sömu áunnin réttindi en hann hefur ekki möguleika til þess að byggja ofan á þessi réttindi. Og hvað segir dómarinn? ,,Það á að borga honum biðlaun fyrir það.`` Með öðrum orðum, ekki deili ég við þennan dómara. Hvað sem mér finnst um biðlaun eða ekki, þá er ég þeirrar skoðunar að þetta sé partur af því sem opinberir starfsmenn hafa unnið sér í samningum við ríkið og það verður að greiða fyrir það. Ég tek ekki gleraugun af hv. þm. Pétri Blöndal og brýt þau án þess að ég þurfi að borga þau.