Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:40:04 (5974)

1996-05-13 22:40:04# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:40]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er að stíga í ræðustólinn öðru sinni í þessari umræðu og fyrir því liggja ýmsar brýnar ástæður sem ég mun koma að í máli mínu. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. er mættur en ég hefði viljað sjá hæstv. forsrh. við þessa umræðu. En mér er tjáð að hann hafi varamann hér inni þannig að líklega hef ég ekki rétt á því að kalla hann til umræðunnar. Inntak ræðu minnar er það að mér finnst nauðsynlegt að ræða við hæstv. ráðherra afleiðingar þessa frv. og fá að heyra það frá hæstv. forsrh. hvort að hann geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta frv. mun hafa og einnig það frv. sem í kvöld var tekið út úr félmn., þ.e. frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem væntanlega mun koma til umræðu á hinu háa Alþingi á allra næstu dögum, rétt í þann mund sem þing Alþýðusambandsins, m.a. í tilefni af 80 ára afmæli ASÍ, er að hefjast. Þannig standa málin hér, hæstv. forseti.

Hv. þm. Pétur Blöndal lýsti því yfir rétt áðan að hann vonaðist til þess að hann þyrfti aldrei að standa í þeim sporum að þurfa að halda tveggja tíma ræður. Þegar ég kom hingað í sali fyrir einum fimm árum, var það mjög í minnum haft hvernig Sjálfstfl. hagaði sér þegar hann var í stjórnarandstöðu á tímabilinu 1987--1989. Það var talið að fáir hefðu staðið sig með öðrum eins glæsibrag og þeir í að halda langar ræður og þó einkum að leika sér með þingsköp því að m.a. þeir sem nú gegna ráðherraembættum voru algjörir sérfræðingar í því að teygja umræður mjög á langinn og nýta þingsköpin til hins ýtrasta. Hv. þm. ætti því að tala varlega um framtíðina. Enginn veit í hvaða stöðu hann verður á næstu árum eða á næsta kjörtímabili. Ef sú stund rennur upp að eitthvert frv. verði á ferð, t.d. um breytingar á Vinnuveitendasambandinu og lögum þess eða eitthvað sem snertir fyrirtækin í landinu þá er nú aldrei að vita nema hann vilji snúast til varnar. (Gripið fram í.) Það á eftir að koma í ljós. Þingmaðurinn er á góðri leið.

Hæstv. forseti. Áður en ég kem að efninu verð ég líka að beina orðum til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar því hann er ekki nógu vel að sér í sögu Alþfl. sem á nú 80 ára afmæli á þessu ári. (ÖS: Ég er vel að mér í sögu Alþb.) (Gripið fram í: Það er skiljanlegt.) Já, en hann er nú búinn að vera nokkur ár í Alþfl. og á auðvitað að þekkja sögu þess mæta flokks. Þegar hann er að tala um það hve Alþfl. sé hallur undir hið ljúfa líf þá verður að rifja það upp fyrir honum að fyrsta kynslóð alþýðuflokksmanna var meðal helstu bindindismanna í landinu og ef ég man rétt þá er í fyrstu stefnuskrám Alþfl. að finna miklar heitstrengingar um það að ... (Gripið fram í: Varaformaðurinn er enn í þeim hópi.) Nei, það ... (Gripið fram í: Nei!) Mörgu fer aftur hér í heimi. Heimur versnandi fer. Það eru breyttir tímar en þingmaðurinn ætti að kynna sér þessa sögu betur áður en hann kemur með sögulegar fullyrðingar.

Áður en ég kem að meginefni minnar ræðu vil ég líka nefna þessi tvö atriði sem menn eru sífellt að þræta um hérna. Það eru annars vegar biðlaunin og hins vegar ... Já, hér fæ ég sögulega leiðréttingu frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem bendir mér á að Sjálfstfl. hafi verið í stjórnarandstöðu 1988--1991. Ég þakka henni fyrir þessa leiðréttingu. Þetta mun rétt vera. Það voru kosningar einmitt 1991 og fundum við nú svo sannarlega fyrir því þegar nokkrir ráðherrar misstu stólana og voru hér alveg trylltir en ætla nú að ná sér í enn hærri embætti í okkar samfélagi.

[22:45]

Aðeins um biðlaun og æviráðningu. Ég ítreka það enn einu sinni að hér er um réttindi að ræða sem samtök opinberra starfsmanna vildu fá að semja um. Hvað sem menn segja þá eru þetta réttindi, sum hver umsamin réttindi, önnur hafa verið tekin upp á fyrri árum í lögum af ýmsum ástæðum og opinberir starfsmenn vildu fá að semja um þessi réttindi en ekki að upplifa að þau væru afnumin einhliða eins og hér á að fara að gera. Um það snýst málið fyrir utan það að biðlaun, eins og fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, tengjast því þegar breyting verður á högum manna hvernig sem hún verður. Þeir sem þegar hafa gengið í gegnum breytingar á ríkisstofnunum yfir í einkafyrirtæki hafa orðið fyrir réttindamissi. Þeir starfsmenn hafa orðið að hverfa í önnur verkalýðsfélög. Það hafa orðið breytingar á lífeyrismálum þó menn hafi reyndar rekið sig á varðandi biðlaunin og eru nú einmitt að koma hér í gegn lagabreytingum m.a. vegna þess dóms sem vitnað var til í umræðunni. Það verður því ekki fram hjá því horft að hér er um réttindi að ræða. Réttindi sem verið er að breyta. Það mergur málsins.

Hæstv. forseti. Meginástæðan fyrir því að ég stíg hér í stól að nýju er að mér finnst einn þáttur þessa stóra máls alls ekki hafa komist nægilega vel til skila og það hafa engin svör fengist hvað þann þátt varðar. Ég hef ekki orðið vör við að fjölmiðlar í landinu hafi beint sjónum að þeim þætti en það er sá réttindamissir og þau mannréttindabrot og brot á alþjóðlegum sáttmálum sem er að finna í frv. Það verður ekki fram hjá því horft. Ég fullyrði, virðulegi forseti, að 22. gr. þessa frv. brýtur í bága við mannréttindasáttmála. Það felst í því að hér er verið að breyta högum starfsmanna ríkisins, allnokkurs hóps, í þá veru að jafnvel heilu stéttarfélögin eru svipt samningsrétti og verkfallsrétti án þess að hafa verið spurð, án þess að um það hafi verið samið. Þetta brýtur í bága við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og þá mannréttindasáttmála sem við erum aðilar að. Ég skil ekki hvers vegna menn beina ekki sjónum að þessu atriði. Ég krefst þess að þetta verði kannað sérstaklega í efh.- og viðskn. á milli 2. og 3. umr. Ég get tekið á mig þá sök með öðrum þeim sem eru fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. að hafa ekki kveikt almennilega á þessu atriði nógu snemma til að kalla eftir lögfræðilegum álitum. En þetta verður að kanna. Þessar breytingar og ýmsar aðrar kalla á málaferli og kærur, það getur ekki annað gerst. Til að rökstyðja mál mitt, hæstv. forseti vil ég vísa til mannréttindasáttmála Evrópu. Þar segir í 11. gr.:

,,Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum. Þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum. Eigi skulu réttindi þessi háð öðrum takmörkunum en þeim sem mælt er um í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna öryggis almennings eða ríkis, til að koma í veg fyrir óspektir eða glæpi, til verndar heilbrigði eða siðgæði eða til að vernda réttindi og frelsi annarra. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að herliðar, lögreglumenn eða stjórnarstarfsmenn njóti þessara réttinda.``

Í 22. gr. frv. er verið að taka þau réttindi að starfa í stéttarfélagi, að njóta félagafrelsis, að hafa samningsrétt og verkfallsrétt sem eru vernduð réttindi --- þau eru vernduð réttindi samkvæmt stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum --- það er verið að taka þessi réttindi af ákveðnum hópi fólks án þess að þeir hafi verið spurðir. Ég get nefnt t.d. stéttarfélag lögfræðinga. Það má nefna hóp prófessora við Háskóla Íslands sem hefur aldrei verið spurður að því hvort hann vildi gangast undir það að vera embættismaður o.s.frv. Það segir einnig, hæstv. forseti, í alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, í 6. gr.:

,,Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja þennan rétt.``

Þessi grein, hæstv. forseti, tengist öðru broti sem er að finna hér í þessum lögum og það er í 36. gr. Þar er stjórnvaldi heimilað að flytja menn úr einu embætti í annað. Ég dreg stórlega í efa að þessi grein standist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins þar sem kveðið er á um rétt manna til að stunda atvinnu. Þar segir í 75. gr.:

,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.``

Samt sem áður er löggjafinn hér að taka sér það vald að færa menn á milli embætta. Og það er vísað til 20. gr. stjórnarskrárinnar þar sem forseta landsins, sem þeir náttúrlega segja hér í skýringum að í raun þýði ráðherra, í 20. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.``

Hvernig kemur þetta allt heim og saman? Hvað er það sem gildir? Í fyrsta lagi kveður stjórnarskráin á um frelsi manna til að velja sér atvinnu. Síðan er hér grein sem er mjög gömul að stofni til sem kveður á um rétt til að færa menn milli embætta. Síðan er alþjóðasáttmálinn um félagsleg og efnahagsleg réttindi sem kveður á um að menn eigi að velja sér embætti eða starf af frjálsum vilja. Hvernig kemur þetta heim og saman? Þetta er einn hrærigrautur og það sem verið er að gera í þessari grein er að veita ráðherra eða stjórnvaldi heimild til að færa menn milli embætta og lækka þá í launum. Það er ekki verið að gera það sem 20. gr. stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir, að menn skuli einskis í missa af réttindum sínum, heldur segir hér, með leyfi forseta, í 36. gr.:

,,Flytjist maður í annað embætti skv. 1. mgr., sem er lægra launað en fyrra embættið, skal greiða honum launamismuninn þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í fyrra embættinu.``

Það þarf sem sagt að greiða honum sömu laun þessi fimm ár eða það sem eftir er af fimm ára skipunartímanum, en svo má lækka hann í launum. Hvernig kemur þetta nú heim og saman við það sem var verið að vitna til hér áðan í lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum sem eru almennar vinnureglur sem ber að fara eftir á hinu Evrópska efnahagssvæði? Þar er einmitt gert ráð fyrir því að menn haldi sömu réttindum og skyldum og sömu launum. Ég fæ ekki betur séð, hæstv. forseti, en að það sé verið að þverbrjóta þetta allt saman. Úr þessu verður að fást skorið. Hver er meining löggjafans og hvernig stenst þetta stjórnarskrána og alþjóðasáttmála? Það er sem sagt vísað í 20. gr. en síðan er inntak sjálfrar greinarinnar og það sem verið er að gera allt annað en það sem þar stendur.

Ég sé mig knúna til að vekja sérstaka athygli á þessu. Ég tek bara þessar tvær greinar en ég efast ekki um að það sé í fleiri greinum sem það orkar tvímælis hvort þær standast lög og rétt, hvort þar sé ekki um óeðlileg afskipti af málefnum stéttarfélaga að ræða. Þar má t.d. nefna þá grein sem snýr að þeim sem standa utan stéttarfélaga og fleira og fleira sem kallar á miklu betri skoðun. Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni er þessi löggjöf einfaldlega svo hraðsoðin og illa unnin, enda bera brtt. það með sér, að þetta eru alveg óþolandi vinnubrögð.

Hæstv. forseti. Þar kem ég aftur að því sem ég nefndi áðan að það var verið að afgreiða í kvöld í félmn. frv. um stéttarfélög og vinnudeilur með það algjörlega á hreinu að það fer allt á annan endann á vinnumarkaðnum í haust og í vetur. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það eru handónýt ákvæði í því frv. um vinnustaðarsamninga sem var auðvitað ætlað að ýta undir að menn geri vinnustaðarsamninga sem er eitthvert fyrirbæri sem menn eru afskaplega hrifnir af í augnablikinu, hver sem ástæðan er fyrir því. Þeir geta eflaust oft skilað ýmsu og raunin virðist vera sú frá öðrum löndum að þar sem vinnustaðarsamningar eru í gildi þar er t.d. minni launamismunur innan fyrirtækja. Það má því eflaust eitthvað á þeim græða og þau geta gefið góða raun. En það að lögbinda þá með þeim hætti sem til stendur gerir það að verkum að minni stéttarfélög geta varla tekið þá áhættu að fara út í slíka samninga nema það sé búið að semja um allt fyrir fram í bak og fyrir þannig að réttur þeirra sé tryggður. Það sama má segja um önnur ákvæði þessa frv. Það sem hér er verið að gera er einfaldlega það að verið er að setja allan vinnumarkaðinn eins og hann leggur sig á annan endann.

Ég spyr, hæstv. forseti: Er það allt til að koma þessu biðlaunaákvæði í gegn? Er það virkilega svo mikils virði fyrir einkavæðingu framtíðarinnar að það sé bara í lagi að setja allan vinnumarkaðinn á annan endann? Eða er stolt og æra ráðherra orðin svo ofboðsleg og mikils virði að það sé öllu tilkostandi til að keyra í gegn einhver vitlaus frv.? Hvað er þetta eiginlega sem menn eru að gera? Hafi verið einhver heil brú í þeirri hugsun sem var að finna í frv. um stéttarfélög og vinnudeilur þá er hún öll komin út í veður og vind. Það er ekki heil brú í því máli. En það er töluvert sterk bygging í þessu frv. Það er nokkuð ljóst hvað verið er að gera. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu alla aftur en það vekur miklar áhyggjur varðandi komandi vetur hver áhrif þessara tveggja frv. verða.

Hæstv. forseti. Þá ætla ég að koma að einu atriði sem hefur heldur ekki verið minnst á hér. Það er hvernig staðið er að gerð þessa frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég kemst ekki hjá því að nefna þetta. Það er eins og allt verði að víkja fyrir yfirgangi ríkisstjórnarinnar. Og þá er ég að nefna að einn meginhöfundur þessa frv. heitir Eiríkur Tómasson og er prófessor við Háskóla Íslands. Eftir því sem ég best veit hefur hann gegnt því embætti í allan vetur á meðan hann var að vinna í þessu frv. Hann vinnur við Háskóla Íslands og þetta frv. og m.a. það mál hvort prófessorar við Háskóla Íslands eigi að teljast embættismenn eða eitthvað annað hefur mjög fléttast inn í þessa sögu. Prófessorinn, hinn opinberi starfsmaður, hefur unnið í því hér í vetur að semja þetta frv. og það sem meira er í þessu frv. og þessari 22. gr. sem ég hef gert hér að umtalsefni er líka minnst á stöðu konu hans. Þetta er hið ágætasta fólk en ég spyr: Eru þetta eðlileg vinnubrögð? Stenst þetta stjórnsýslulög? Það var skipuð nefnd til að semja þetta frv. Þar segir í 3. gr. 2. kafla um sérstakt hæfi:

[23:00]

,,Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls:

1. Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.

2. Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.

3. Ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem segir í 2. tölul. (Gripið fram í.) --- Ég er að vitna í stjórnslýslulögin, hv. þm., um hæfi eða óhæfi nefndarmanna. (VE: Samning á lagafrv. er ekki stjórnsýsluákvörðun.) Það er verið að tala um nefndarmenn. Nefndarmenn sem eru í vinnu fyrir stjórnvöld. (VE: ... sem taka stjórnsýslulegar ákvarðanir.)

(Forseti (GÁS): Ekki samtöl í þingsal.)

Spurningin er sú, hv. formaður efh.- og viðskn.: Hvað er við hæfi? Hvar á að draga mörkin og hvenær eiga menn að víkja þegar t.d. nefndarstarf snertir þá sjálfa? Eitt er það að menn séu skipaðir sem fulltrúar fyrir opinbera starfsmenn t.d. til að breyta lögum en annað er það þegar lagagreinar snerta þá sjálfa. Ég vísa til þess að m.a. við þingmenn höfum stuðst við stjórnsýslulögin þegar við höfum verið að meta hvort mál snerta okkur á hinu háa Alþingi. Ég hef nefnt það sem dæmi að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir hefur stundum vikið af vettvangi þegar til umræðu hafa verið frv. sem snerta fyrirtæki sem tengjast fjölskyldu hennar og þá vísar hún til stjórnsýslulaga. Það eru sú viðmiðun sem menn hafa hér tekið upp. Ég vek athygli á því að mér finnst ekki eðlilegt að menn séu að semja frv. og að setja inn ákvæði sem snerta þá sjálfa og fjölskyldur þeirra. Mér finnst það ekki eðlileg vinnubrögð. Spurningin er sú hvað er stjórnsýsla. Í 1. gr. stjórnsýslulaganna um gildissvið segir, með leyfi forseta:

,,Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þau gilda þó ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla.``

Spurningin er: Hver er viðmiðunin? Hvar draga menn hinar siðferðilegu línur. Er rétt að menn séu að semja lög sem snerta þá sjálfa? Ég vildi vekja máls á þessu, herra forseti, þótt hér sé um hinn mætasta mann að ræða. Þetta beinir bara sjónum að því hvernig vinnubrögðin eru í kringum þessi mál hér. Það mætti hafa um það mörg orð.

Hæstv. forseti. Ég ætla að lokum að víkja aðeins að því sem fram kemur í nál minni hluta efh.- og viðskn. og enn snerta þessi vinnubrögð afskipti af málum jafnt opinberra starfsmanna sem annarra. Í nál. minni hluta efh.- og viðskn., þar sem verið er að vitna í álit Lagastofnunar vegna frv. um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem þeir voru reyndar að fjalla um það hvenær afskipti af stéttarfélögum eru heimil eða óheimil, þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Rétt er þó að taka fram að Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf hefur lagt áherslu á mikilvægi reglulegs samráðs stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja frið í þjóðfélaginu, þar á meðal samráð við undirbúning löggjafar sem snertir þá.``

Síðar segir: ,,Þó að réttur einstakra launþega til að stofna stéttarfélög séu mannréttindi hvers launþega og sá réttur verndi ekki þau stéttarfélög sem þegar eru til staðar er ljóst að bæði stjórnarskrá og alþjóðasáttmálar á þessu sviði gera ráð fyrir því að íhlutun ríkisvalds með lagasetningu um málefni stéttarfélaga sé mjög takmörkuð og hindri ekki lögmæta og eðlilega starfsemi stéttarfélaga. Þá er það einnig mjög mikilvægt hlutverk ríkisvaldsins að stuðla hverju sinni að því að friður ríki á vinnumarkaði án þess þó að grípa inn í starfsemi og baráttu stéttarfélaga.``

Þetta kemur fram, hæstv. forseti, í áliti Lagastofnunar um þær almennu reglur sem gilda í samskiptum ríkisvalds og stéttarfélaga. Ég tel að hér hafi ríkisvaldið teygt sig til hins ýtrasta og reyndar farið fram úr því sem eðlilegt getur talist. Tilgangurinn í þessu máli er ljós, hæstv. forseti, hér er verið að ryðja braut fyrir einkavæðingu, hér er verið að breyta leikreglum á almennum vinnumarkaði, hér er verið að stefna mjög í tvísýnu og að sjálfsögðu verður ríkisstjórnin að bera ábyrgð á gerðum sínum. En við stjórnarandstæðingar höfum tekið okkur þann rétt að mótmæla þessu frv. og þeirri umræðu er engan veginn lokið. Næsta lota, sem mun væntanlega snúast um stéttarfélög og vinnudeilur, er fram undan. Það er auðvitað svo að meiri hlutinn mun ráða þó að reynt hafi verið að benda á það inn á hversu hættulega braut er verið að fara hér og hversu hæpin þessi frv. eru í þeim skilningi hvernig þau standast íslensku stjórnarskrána og þá alþjóðasáttmála sem við erum aðilar að. Þetta er afar sorglegt að horfa upp á. Ég get ekki notað önnur orð. Það er sorglegt að horfa upp á þessa stefnu og það er illskiljanlegt að ríkisstjórn skuli tefla þeim árangri í tvísýnu sem hér hefur náðst í efnahagsmálum, þeim vinnureglum sem menn hafa verið að þróa smátt og smátt, aðallega á almennum vinnumarkaði, því að það gildir alls ekki um opinbera starfsmenn, þar hefur allt verið í háa lofti svo árum skiptir og því miður mun þetta frv. verða til þess að viðhalda því ástandi.