Minning Þórarins Þórarinssonar

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 13:31:37 (5980)

1996-05-14 13:31:37# 120. lþ. 137.1 fundur 235#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[13:31]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Þórarinn Þórarinsson, fyrrverandi ritstjóri og alþingismaður, andaðist í gærmorgun, 13. maí, áttatíu og eins árs að aldri.

Þórarinn Þórarinsson var fæddur í Ólafsvík 19. sept. 1914. Foreldrar hans voru hjónin Þórarinn Þórðarson sjómaður og Kristjana Magnúsdóttir húsmóðir. Hann hóf nám í Samvinnuskólanum 1931 og lauk þar burtfararprófi vorið 1933. Árin 1933--1936 var hann blaðamaður við Tímann og Nýja dagblaðið, blöð Framsóknarflokksins. Hann var ritstjóri Nýja dagblaðsins 1936--1938 og ritstjóri Tímans 1938--1984.

Þórarinn Þórarinsson var formaður Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík 1936--1938 og formaður Sambands ungra framsóknarmanna 1938--1944. Í stjórn Fiskimálasjóðs var hann 1947--1953 og í útvarpsráði 1953--1971 og 1975--1978, formaður þess síðara tímabilið. Hann var kosinn í kosningalaganefnd 1954 og í endurskoðunarnefnd laga um þingsköp Alþingis 1966. Árið 1972 var hann skipaður formaður þingmannanefndar til að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins. Hann sat á mörgum þingum Sameinuðu þjóðanna á tímabilinu 1954--1974 og var fulltrúi í undirbúningsnefnd hafréttarráðstefnunnar 1971--1973, síðan fulltrúi á hafréttarráðstefnunni 1973--1982. Hann átti sæti í fjölda nefnda á vegum Framsóknarflokksins, meðal annars í sendinefndum þingmanna vegna samninga um landhelgismál við Þjóðverja 1975 og við Breta 1976. Árið 1978 var hann skipaður í stjórnarskrárnefnd.

Í alþingiskosningunum haustið 1959 var hann kosinn þingmaður Reykvíkinga og sat á Alþingi til vors 1978, á 20 þingum alls. Hann var formaður þingflokks Framsóknarflokksins 1971--1978.

Þórarinn Þórarinsson fékk ungur að árum mikinn áhuga á stjórnmálum og fylgdist vel með umræðum og skrifum um þjóðmál. Hann gekk til fylgis við Framsóknarflokkinn, varð ungur málsvari hans í ræðu og riti. Um tvítugt hóf hann starf við málgagn flokksins og á þrítugsta árinu var hann kjörinn í miðstjórn hans. Meginstarf hans í þágu flokksins var þó ritstjórn fram til sjötugs og stjórnmálaskrif henni samfara.

Þórarinn Þórarinsson naut ekki langrar skólagöngu en bjó að meðfæddri fýsn til fróðleiks og skrifta. Jafnframt víðtækri þekkingu á stjórnmálum innan lands kynnti hann sér gjörla stjórnmál víða um lönd. Hann kom til Alþingis vel búinn þekkingu sem nýtist alþingismanni. Hann átti sæti í utanríkismálanefnd allan þingtíma sinn og var formaður hennar síðustu átta árin. Í umræðum á Alþingi fjallaði hann mest um utanríkismál og talsvert um iðnaðarmál auk þátttöku í almennum stjórnmálaumræðum. Honum var létt um mál og hann var traustur málsvari flokks síns. Auk skrifa um stjórnmál og blaðagreina margs konar efnis samdi hann þriggja binda rit um sögu Framsóknarflokksins. Nokkur síðustu æviárin átti hann við sjúkleika að stríða en hélt þó áfram skriftum fram undir ævilok.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Þórarins Þórarinssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]