Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 13:37:23 (5981)

1996-05-14 13:37:23# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, MF
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[13:37]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðum um frv. frá því að þær hófust fyrir nokkrum dögum. Mér sýnist að þær séu staðfesting á því sem fram kemur í nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. að málið er hroðvirknislega og illa unnið, að búið er að slíta í sundur friðinn á milli ríkisvaldsins og starfsmanna þess og að hér er um enn eina atlögu að launafólki í landinu að ræða, að frv. sýnir ótrúlegan hroka og lítilsvirðingu ríkisstjórnarinnar í garð starfsmanna ríkisins og að ekki hefur í neinu verið svarað gagnrýni sem kemur fram í umsögnum þeirra fjölmörgu aðila sem sendu efh.- og viðskn. umsagnir og komu á fund nefndarinnar og hér er ríkisstjórnin að fórna meiri hagsmunum fyrir minni verði frv. að lögum.

Upphaflegur tilgangur hæstv. ríkisstjórnar, að marka nýja starfsmannastefnu, auka valddreifingu og sveigjanleika í starfsmannahaldi, einfalda launakerfið og auka jafnrétti jafnframt því markmiði að ríkið verði fyrsta flokks vinnuveitandi mun ekki nást. Að vísu getur það farið eftir því hvernig við teljum að fyrsta flokks vinnueitandi eigi að vera en ég fullyrði að þær breytingar sem hér eru lagðar til munu ekki verða til þess að auðvelda stjórnum stofnana ríkisins og valddreifing er engin. Þvert á móti er miðstýring aukin og er ætlunin að stjórna með hótunum. Starfsumhverfi starfsmanna ríkisins mun verða þeim fjandsamlegt. Það er einkennilegt að sjá þessa tilhneigingu á tímum þegar flestir viðurkenna að besta árangri má ná í stjórnun fyrirtækja og stofnana með því að auka lýðræði og samábyrgðartilfinningu starfsfólks.

Hér á landi sem annars staðar í heiminum eru haldin sérstök námskeið fyrir stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja til þess að efla þessa samvinnu. Það er viðurkennd staðreynd að líði starfsfólki vel á vinnustað skilar það betri árangri. Þessi staðreynd er þó ekki höfð til hliðsjónar við samningu þessa frv. Hér eiga menn að búa við hræðslu, aga, undirgefni við yfirboðara, fulltrúa ríkisstjórnarinnar, sama hvort um er að ræða stjórnendur stofnana eða annað starfsfólk. Skilaboðin eru: Framkvæmdu það sem við segjum á hraða sem þú ræður varla við fyrir lægri laun og minni réttindi en áður. Ef þú tekur þessu þegjandi og sýnir undirgefni í starfi muntu umbun hljóta. Ef yfirmaður svíkst um að fylgja þeirri reglu skilar hann ekki viðunandi árangri og verður látinn fara. Þetta sýnist mér vera megintilgangurinn með frv. undir yfirskini þess að við viljum bæta ríkisreksturinn.

Æskilegur ríkisstarfsmaður verður á besta aldri, þ.e. þann tíma sem starfsorkan er mest. Það mun verða hagur forstöðumanna að láta hann fara þegar starfsorkan minnkar. Að öðrum kosti kemur það niður á heildarafköstum stofnunar og þá sýnir forstöðumaðurinn ekki lengur viðunandi árangur. Ef starfsorkan dvínar vegna veikinda, aldurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum verður starfsmönnum vikið úr starfi.

Annar megintilgangur frv. er svo að afnema biðlaunaréttinn svo að hægt sé að einkavæða ríkisfyrirtæki. Lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna eru gömul, því neitar enginn og vissulega er þörf á að endurskoða ýmis ákvæði þeirra. Það er hins vegar nauðsynlegt að að þeirri endurskoðun komi allir sem málið varðar. Við umræður um lög er varða réttindi og skyldur skólastjórnenda og kennara grunnskóla vegna yfirtöku sveitarfélaga á þessum málaflokki var lögð sérstök áhersla á að niðurstaða þess máls fékkst í samstarfi við aðila máls, kennara, skólastjórnenda, fulltrúa sveitarfélaga og ríkis. Áhersla var lögð á trúnaðartraust, samvinnu og gagnkvæma virðingu allra sem hlut áttu að máli. Þannig á að vinna. Þannig hefði átt að vinna þetta frv. og önnur þau er snerta launafólk í landinu. Mér er spurn: Var haft samráð við fulltrúa sveitarfélaga þegar þetta frv. var á vinnslustigi? Komu þeir að málinu? Ef svo er, með hvaða hætti og hver var afstaða þeirra? Sveitarfélögunum og viðsemjendum þeirra kemur nefnilega málið við. Um langan tíma hefur verið viðhöfð sú regla að starfsmenn sveitarfélaganna hafa sömu réttindi, skyldur og kjaraumhverfi og starfsmenn ríkisins. Þetta þekkja a.m.k. þeir hv. þingmenn sem hafa verið í sveitarstjórnum eða sinnt vinnu fyrir sveitarstjórnir.

Í kjarasamningum sem gerðir eru við starfsmenn sveitarfélaga er vísað í lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna eins og segir í texta sem er í nær öllum kjarasamningum þeirra, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, með áorðnum breytingum og reglugerðum, settum á grundvelli þeirra, skulu gilda fyrir starfsmenn sveitarfélaganna.`` Undantekningar frá þessari reglu eru kjarasamningar hjá fjórum sveitarfélögum, að vísu stórum sveitarfélögum en þau eru aðeins fjögur. En þar eru þó í gildi reglur sem byggja á sömu lögum. Það var því fullkomlega eðlilegt að réttindi starfsmanna eins og grunnskólakennara og skólastjórnenda sem varða starfsmenn sveitarfélaga færðust óbreytt yfir. Þarna hefur verið samræmi á milli og því spyr ég: Komu fulltrúar sveitarfélaganna að verki þegar þetta frv. var samið? Var þeim ljóst þegar samið var um réttindi og skyldur grunnskólakennara að annað frv. yrði lagt fram samhliða þar sem þessum lögum um réttindi ríkisstarfsmanna og skyldur ríkisstarfsmanna, sem frv. byggir á, yrði verulega breytt og að það geti orkað tvímælis að þau geti gilt samtímis? Var fulltrúum sveitarfélaganna kunnugt um þetta eða var samráð við sveitarfélögin með svipuðum hætti og við stéttarfélögin, sem sagt ekki neitt? Að minnsta kosti hafa talsmenn sveitarfélaganna lítið tjáð sig um málið.

Af þeim ráðningarsamningum sem ég hef séð og gerðir hafa verið við starfsmenn sveitarfélaga er skýrt kveðið á um það hvað varðar félaga BSRB og BHMR að um réttindi og skyldur starfsmanna fari á hverjum tíma samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Það segir okkur að verði breyting á þeim lögum gildi hún einnig fyrir þá starfsmenn. Niðurstaða þessa máls er þá ekki síður mikilvæg fyrir sveitarfélög og starfsmenn þeirra. Það var e.t.v. í ljósi þeirrar staðreyndar og slæmrar samvisku vegna frv. um stéttarfélög og vinnudeilur að hæstv. félmrh., ráðherra sveitarstjórnarmála, lét þau orð falla af fullkominni lítilsvirðingu við launafólk í landinu á baráttudegi þeirra 1. maí þar sem þúsundir verkafólks voru saman komnar til þess að mótmæla verkum þessarar ríkisstjórnar. Um þau mótmæli sagði hæstv. félmrh. að einhverjir tveir eða þrír verkalýðsforingjar tali ekki fyrir munn allrar verkalýðshreyfingarinnar. Þetta leyfði hæstv. félmrh. sér að segja þrátt fyrir að honum væri fullkunnugt um hörð mótmæli launafólks um land allt. Verkafólkið er ekki lengur í fyrirrúmi hjá Framsókn. Þar ráða allt önnur sjónarmið ferðinni, enda eru þeir ekki hér á mælendaskrá hvorki til að verja frv. né gagnrýna. Það er lítið um efnislega umræðu af þeirra hálfu þegar kjör fólksins í landinu eru annars vegar.

[13:45]

Virðulegi forseti. Ég hef oft velt því fyrir mér frá því þetta frv. og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur voru lögð fram og ljóst var að ekkert samráð var haft við verkalýðshreyfinguna, hvernig á því stæði. Undirbúningurinn að breytingum í ríkisrekstri hófst fyrir þó nokkrum árum og umræðan um þörfina á því að endurskoða lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna hefur verið í gangi um langan tíma. Ég hef fylgst vel með umræðunni um umbætur og nýskipan í ríkisrekstri í tíð þessarar og síðustu ríkisstjórnar því það er löngu ljóst að það þarf uppstokkun og verulegar breytingar í ríkisrekstri. Og eftir að hafa starfað í fjárln. í átta ár, séð þessa þörf og horft á sjálfvirkan vöxt kerfisins vegna þess að skipulag þess er í molum, verkefni stofnana lítt skilgreind og í mörgum í tilvikum óljós markmið, þá fannst mér það ánægjuefni að skipulega yrði unnið að því að endurskoða rekstur ríkisins og fá fram skýrari skilgreiningu á hlutverki þess. Ég hef sótt flesta þá fundi sem fjmrh. hefur haldið um nýskipan í ríkisrekstri og hlustað af athygli á hugmyndir um breytingar og hugleiðingar um það hverjar orsakir þess eru að ekki hefur betur tekist en raun ber vitni að ná utan um rekstur ríkisins. En ekki datt mér í hug eftir fyrstu fundina að niðurstaða ráðuneytis yrði sú að helst væri um að kenna starfsmönnum ríkisins sem sinntu verkefnum sínum slaklega vegna þess að þeir hefðu of mikil réttindi, of góð kjör og hvati til góðra verka væri því enginn.

Það var ekki fyrr en ég hlustað á ræðu prófessors Sigurðar Líndals á ráðstefnu sem haldin var 20. okt. 1994 og síðan ræðu fyrrverandi fjármálaráðherra Nýja-Sjálands í nóv. 1995 að ég áttaði mig á því hvert stefndi, hvert viðhorfið er gagnvart ríkisstarfsmönnum og að til þess að ná tökum á ríkisrekstrinum yrði fyrst að ná tökum á starfsmönnunum. Það gerist með því að þeir sýni yfirvaldinu óttablandna virðingu og undirgefni og taki því sem að þeim er rétt. Að það mætti sem minnst samráð hafa við þá um réttindi þeirra og skyldur. Þeir eru jú bara vinnuhjú. Þetta er eins og ég hef áður sagt einkennilegt sjónarmið í ljósi þeirrar reynslu að besti árangur fyrirtækja og stofnana hefur náðst í samráði og samvinnu við starfsfólk. Kúgunarstjórnaraðferðir hélt ég að væru úreltar og í engu samræmi við það gæðastjórnunarkerfi sem boðað hefur verið. En vegna þess að ákvörðun um að breyta lögum um réttindi og skyldur starfsmanna er í beinum tengslum við og reyndar afleiðing hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar um það hvernig staðið skuli að nýskipan í ríkisrekstri, þá tel ég nauðsynlegt að fara aðeins yfir þá umræðu og þær hugmyndir sem í gangi eru og tengjast beint starfsumhverfi starfsmanna ríkisins.

Ég ítreka þá skoðun mína að það er þörf á að breyta ríkisrekstrinum en það á að fara varlega. Það á að stíga skrefin eitt og eitt í einu og það allra mikilvægasta er að breytingarnar séu unnar í samráði við það starfsfólk sem hlut á að máli hverju sinni. Mér finnst reyndar að hæstv. fjmrh. hafi byrjað á öfugum enda. Það á að byrja á því að skilgreina eðli og markmið þjónustu ríkisins, skoða og skilgreina hlutverk hverrar einustu stofnunar og skilgreina á skýran hátt hver verkefnin eru sem við teljum að eðlilegt sé að greidd skuli úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Verkefna- og markmiðslýsingar þurfa að vera skýrar og liggja fyrir hjá hverri einustu stofnun. Á því hefur verið misbrestur. En þar er ekki um að kenna starfsmönnum stofnana heldur ráðuneytunum sjálfum. Það hefði því e.t.v. frekar átt að skoða afköst einstakra ráðherra í gegnum tíðina heldur en að gefa sífellt í skyn að flest sem miður hefur farið sé starfsmönnum ríkisins að kenna sem hafa allir metnað til að bera fyrir hönd þeirra stofnana sem þeir starfa hjá. Það vantar mikið á að ríkið sé eða hafi verið fyrsta flokks vinnuveitandi. Hvort sem horft er til skipulags í ríkisrekstri eða framkomu í garð starfsmanna. Fyrsta flokks vinnuveitandi, eins og það er orðað í frv., ætti að skilja að góður árangur næst í góðri samvinnu við starfsmenn þar sem gagnkvæm virðing er til staðar. Við skulum skoða aðeins þær hugmyndir sem hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin reyndar öll hefur sett fram á undanförnum árum og mér fannst til að byrja með vera einkar ánægjulegar og hafði þá skoðun að nú ætti að fara að vinna markvisst og af ábyrgð í reksri ríkisfjármála og þá að skoða rekstur einstakra stofnana.

Fyrsta ritið sem gefið hefur verið út af hálfu fjmrn. sem ég hef fengið í hendur eða á, e.t.v. er ég búin að tapa einhverju af þessu, er rit sem gefið var út í maí 1993 og heitir ,,Umbætur og nýskipan í ríkisrekstri``. Þar er lýst hugmyndum þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. Reyndar segir í formála þess rits að fyrsta skrefið hafi verið stigið 19. mars sama ár með ráðstefnu um ríkisreksturinn þar sem tæplega 300 manns víðs vegar úr þjóðfélaginu var boðið til. Eftir þá ráðstefnu voru 40 menn skipaðir í 7 vinnuhópa sem fjölluðu um afmörkuð atriði ríkisrekstrar. Kjarninn þessarar stefnu átti að vera að dreifa valdi, auka ábyrgð og flytja ákvarðanir sem næst vettvangi og ná með því hagkvæmari rekstri og betri þjónustu. En hæstv. fjmrh. sagði 1993: ,,Það getur tekið nokkur ár að fylgja þessari stefnu fram enda er útfærsla hennar margþætt.``

Á þeim tíma trúði ég því að fyrsta skrefið yrði að fara yfir hlutverk ríkisins og skilgreina hlutverk hverrar einustu stofnunar til framtíðar.

Nýjar áherslur í ríkisrekstri með yfirskriftinni ,,Þörf fyrir breytingar``. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum árum hafa augu manna í auknum mæli beinst að umfangi, gæðum og tilkostnaði í opinberum rekstri og hvernig þróa megi hann og bæta. Ástæðan er m.a. aukinn fjárlagahalli, skuldasöfnun hins opinbera og lítill hagvöxtur. Samtímis hafa kröfur um opinbera þjónustu orðið háværari, m.a. vegna viðvarandi atvinnuleysis og margs konar þjóðfélagsvandamála. Umræðan hefur einnig einkennst af vaxandi skilningi á því að vel skipulögð og virk stjórnsýsla sé mikilvæg til að skapa þjóðum og fyrirtækjum þeirra samkeppnisforskot á alþjóðamarkaði og auðvelda þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi.``

Undir þessi markmið get ég heils hugar tekið. Það á að auka gæðin án aukinna útgjalda. Og í riti hæstv. fjmrh. segir:

,,Þau verkefni sem ríkið annast eru þýðingarmikil fyrir velferð almennings. Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil aukning í opinberum útgjöldum. Staða ríkissjóðs virðist ekki leyfa frekari aukningu. Því er mikilvægt að gæðin aukist án þess að útgjöldin vaxi.

Góð starfsskilyrði starfsmanna.

Ríkið er stór vinnuveitandi og skipulag ríkisrekstrarins hefur því mikla þýðingu fyrir starfsskilyrði fjölda fólks. Sjaldan skortir vilja starfsmanna til að veita almenningi góða þjónustu.``

Síðan kemur þessi punktur sem ég er fullkomlega sammála, með leyfi hæstv. forseta:

,,Vandamálin felast miklu frekar í skipulagi ríkisrekstrarins og ýmiss konar reglum sem standa í vegi fyrir því að frumkvæði starfsmanna og stjórnenda stofnana fái notið sín. Nauðsynlegt er að saman fari gott skipulag og góð starfsskilyrði.``

Þetta er sagt í maí 1993. Síðan er nánari útfærsla á því hvernig hæstv. ráðherra hyggst nú standa að þessum breytingum en allt skal það gert í samstarfi við ríkisstarfsmenn. Það kemur fram mjög skýrt varðandi þær breytingar sem hæstv. ráðherra fyrirhugaði að gera í ríkisrekstri, að hann lagði á þessum tíma, árið 1993 í maí, mikið upp úr því að gott samstarf tækist milli starfsmanna, ráðuneyta, stofnana og Alþingis vegna þess að hér segir í þessu riti á bls. 14 um næstu skref sem hæstv. ráðherra ætlar að taka í maí 1993:

,,Mikilvægt er að gott samstarf takist milli Alþingis, ráðuneyta, stofnana og starfsmanna ríkisins og allar nýjungar sem hér eru settar fram verði kynntar fyrir viðkomandi aðilum.``

Þetta, virðulegi forseti, er í engu samræmi við þau vinnubrögð sem síðar hafa verið viðhöfð af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar. Hann er svo sem ekkert einn um þetta, hæstv. ráðherrann.

En það verður mjög fljótt breyting á þessum viðhorfum. 20. okt. 1994 hefur hæstv. ráðherra gefið út a.m.k. tvö rit um framhald stefnunnar, á meðan hann er enn að kynna hvert skulið haldið fyrir þeim sem eiga síðan að halda á málunum með hæstv. ráðherra. Þar er fyrst rit um útboðsstefnu ríkisins. Annað rit er gefið er út í mars 1994 um samningsstjórnun og er mjög merkileg tilraun sem hæstv. ráðherra hefur sett í gang en þó ekki skilað okkur þeim niðurstöðum sem til þarf til þess að meta árangurinn og gera breytingar í ljósi þess. Það hafa aðeins verið gerðir samningar við örfáar ríkisstofnanir og það sem vantaði inn í þá samningagerð á sínum tíma var að þó að yfirlýsingar fjmrn. um að verkefnavísar þar sem verkefni hverrar einustu stofnunar væru skilgreind, lægju fyrir var nú byrjað á því að gera samninga í anda þessarar samningsstjórnunar við nokkur fyrirtæki áður en verkefnavísarnir lágu fyrir. Þannig að á engum tíma, áður en samningar voru gerðir við stofnanir ríkisins um samningsstjórnun, var skoðað hvort verkefni þeirra sköruðust við verkefni annarra stofnana samkvæmt lögum og reglugerðum og það kom berlega í ljós á ráðstefnu sem hæstv. fjmrh. stóð fyrir í nóv. 1995. En þetta er samt sem áður virðingarverð tilraun og ein af þeim tilraunum sem ég tel að hafi þurft að gera áður en menn fóru í nokkrar aðrar breytingar varðandi ríkisreksturinn.

En 20. okt. 1994 heldur hæstv. ráðherra ráðstefnu á Hótel Loftleiðum sem ber yfirskriftina ,,Hvert skal halda í launa- og starfsmannamálum ríkisins?`` Þetta var ein af þessum fróðlegu ráðstefnum sem hæstv. ráðherra hefur staðið fyrir. Og það verð ég að segja honum til hróss að þetta hafa að mörgu leyti verið mjög góðar ráðstefnur, fundir og kynningar og umræður og ég hef álitið að þær væru undanfari þess að teknar yrðu skynsamlegar ákvarðanir um nýskipan í ríkisrekstri.

En hæstv. ráðherra flytur erindi um þróun í launa- og starfsmannamálum ríkisins og stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er eins og ég segi 1994 þannig að þá er enn um að ræða ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Þar leggur hann m.a. áherslu á að verkefni starfsmannaskrifstofu ríkisins eigi nú að breytast. Í stað launaútreiknings komi fræðsla og ráðgjöf um túlkun kjarasamninga og lagaákvæða. Á verksviði hennar verði einnig rekstur og almennt eftirlit með launakerfinu sem og dreifing upplýsinga til stjórnvalda, þingmanna og stéttarfélaga. Þetta er fyrir tæpum tveimur árum síðan og lítið hefur nú farið fyrir þessu breytta hlutverki starfsmannaskrifstofunnar enn þá eins og ég á eftir að koma betur að seinna í ræðu minni, því enn þann dag í dag er starfsmannaskrifstofan með eftirlit og athugasemdir um hvern einasta starfssamning sem gerður er við starfsmann ríkisins og fettir þar fingur út í hin smávægilegustu atriði, virðist manni vera.

[14:00]

Hæstv. fjmrh. rekur líka í þessu erindi sínu hvernig farið hefur verið með þessi mál í grannlöndum okkar og hvernig þróunin hefur verið þar og að þar hafi kjör opinberra starfsmanna verið færð nær því sem gerist á almenna markaðnum. En í flestum tilvikum sem við höfum nú skoðað hefur frekar verið um það að ræða að jafna upp á við en ekki niður á við eins og gert er hér á landi. Eins og raun ber vitni og hefur komið fram mjög oft á undanförnum mánuðum, þá hafa kjör verkafólks hér verið mun lakari en annars staðar, a.m.k. í samanburði við þau lönd sem við erum aðallega að miða okkur við. Það hefði því kannski verið nær fyrir hæstv. ráðherra að skoða það fyrst hvernig við gætum náð þeim kjörum sem tíðkast í nágrannalöndum okkar sem við miðum okkur svo gjarnan við.

Á þessari ráðstefnu talaði framkvæmdastjóri vinnuveitendasambands sænska ríkisins og síðan talaði þar Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ. Ræða hans var svo sem ekkert mjög merkileg. Hún var eingöngu staðfesting á þeim viðhorfum sem koma fram hjá framkvæmdastjóra VSÍ og hafa iðulega komið fram í hans máli og koma mjög skýrt fram í afstöðu Vinnuveitendasambandsins til þess frv. sem við erum að ræða hér og reyndar annarra verka ríkisstjórnarinnar þar sem um er að ræða skerðingu á kjörum verkafólks. Eitt þótti mér þó merkilegt þegar ég hlustaði á þessa ræðu og einnig las hana yfir núna til þess að rifja þetta allt saman upp fyrir þessa umræðu og skoða aðdraganda þeirra breytinga sem liggja nú fyrir í frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Það er að Þórarinn V. Þórarinsson ásamt mörgum öðrum sem tala á þessum fundum og ráðstefnum talar alltaf um kjarasamninga sem eitthvert sjálfstætt fyrirbæri, þ.e. að kjarasamningar hafi alltaf verið til hins verra og að þeir hafi aldrei komið nálægt þeim og viti svo sem lítið um hvað þar gerist. Að kjarasamningar hafi bara sjálfstæða tilveru og þróist svona upp og niður án þess að menn komi þar nálægt. Eins og Þórarinn setur þetta fram á þessari ráðstefnu þá talar hann um kjarasamningana og verkfallsréttinn sem fjandskap við vinnumarkaðinn til þess að draga úr þróunarmöguleikum atvinnustarfsemi hér á landi. En um nýjungar sem eiga sér stað í grannlöndum okkar og svo þær sem boðaðar hafa verið af þáverandi ríkisstjórn og þær nýjungar sem hann vildi helst sjá í ríkisrekstri, segir hann, með leyfi forseta: ,,Nýjungarnar fælust í að færa endanlega ábyrgð á rekstri stofnana á herðar þeirra sem reka þær.`` Þeir sem reka þær eru þá forstöðumenn stofnana og stjórnir stofnana en ekki ráðuneytin eða ríkið sjálft og þeir sem bera ábyrgð í heildina á ríkisrekstrinum. ,,Skili þeir ekki verki fær stofnunin ekki greiðslu. Ég er sannfærður um,`` segir Þórarinn, ,,að sá agi örvar til dáða og starfsfólk og stjórnendur leysi viðfangsefni af öryggi og fagmennsku langt umfram það sem nú gerist. Ég efast ekki um það eitt andartak að starfsfólk heilbrigðisstofnana vinnur vel og af mikilli fagmennsku en ég er jafnsannfærður um það að frammistöðutenging launa,`` það er starfsfólk heilbrigðisstofnana sem Þórarinn er að tala um, ,,ríkari kostnaðarvitund og skipulegur ávinningur starfsmanna af hagræðingu og sparnaði getur skilað sjúklingum, skattgreiðendum og síðast en ekki síst starfsmönnum umtalsverðum ávinningi. En staða stjórnandans hlýtur að breytast í grundvallaratriðum,`` segir Þórarinn, með leyfi forseta. ,,Hann verður ekki lengur næsta hlutlaus áhorfandi að deilum um kaup og kjör. Hann mundi eins og hver annar atvinnurekandi kappkosta með öllum tiltækum ráðum að halda uppi starfsemi og tekjuöflun þrátt fyrir truflanir, t.d. af völdum verkfalla. Þeir felldu ekki niður helminginn af þjónustu við almenning um sjö vikna skeið þótt lítill hluti starfsmanna legði niður störf eins og gerðist sl. vor. Þeir hefðu reynt að komast hjá átökum fyrr, dreift áhættunni með því að kaupa hluta af þjónustunni annars staðar og yfir höfuð slegist fyrir því að halda uppi rekstri.

Þetta er eðlisbreyting, eðlisbreyting sem kallar t.d. á það að stjórnendur í skólum verði ekki valdir í vinsældakosningum á kennarastofum af væntanlegum undirmönnum sínum, að þeir þurfi ekki að vera í stéttarfélagi undirmanna sinna, að kjör þeirra verði ekki ákveðin í kjarasamningum þeirra. Að því er skólastjórana varðar sérstaklega þá fullyrða margir að þessi skipan hafi leitt til þess að stjórnendur skólanna séu í hópi lægst launuðu starfsmanna þeirra þótt aðeins sé litið til vinnutíma af því þeir hafa orðið að undirgangast kjarasamninga. Þeir mega m.a. ekki eiga allt sitt undir undirmönnum sínum og verða að hafa möguleika á að beita launum til að hvetja og laða fram betri árangur starfseminnar.``

Það sem Þórarinn V. Þórarinsson segir þarna árið 1994, er síðan að birtast okkur í frumvörpum og það er ekki nema von að Vinnuveitendasamband Íslands sé jákvætt gagnvart þessu.

En merkilegasta ræðan á þessari ráðstefnu, ,,Hvert skal stefna í launa- og starfsmannamálum ríkisins?``, var þó haldin af prófessor Sigurði Líndal og það verð ég að segja að allar ræður sem ég hef hlustað á um nýsköpun í ríkisrekstri og hvernig skuli farið með starfsmannahald ríkisins og hvernig eigi að meðhöndla starfsmenn ríkisins, allar ræður, þar með talin ræða fyrrverandi fjármálaráðherra Nýja-Sjálands, eru ekkert miðað við þann boðskap sem birtist í þessari ræðu. Prófessor Sigurður Líndal byrjaði á því að rekja söguna um opinbera starfsmenn, hvernig þessi starfshópur varð nú til. Það má vera að það hafi verið farið yfir það hér áður í umræðunni. Því miður hef ég misst af einni og einni ræðu sem hér hefur verið flutt en þær hafa allar verið mjög merkilegar og málefnalegar. Prófessor Sigurður Líndal segir í upphafi ræðu sinnar, með leyfi forseta:

,,Hér hefur verið rætt um hvert stefna skuli í launa- og starfsmannamálum ríkisins. Bent hefur verið á að rík krafa sé gerð um árangur í starfi ríkisins og vel sé hugað að stöðugu hlutverki starfsmanna. Einnig hefur verið bent á að meginákvæði um starfsmannahald sé að finna í lögum og reglugerðum og kjarasamningum. Þessi ákvæði eru sett á ólíkum tímum og við breytilegar aðstæður og í ýmsum veigamiklum atriðum víkja lög og reglur frá ríkjandi viðhorfum til starfsmanna ríkisins.

Ef skyggnst er í söguna kemur í ljós að sá hópur manna sem kallast ríkisstarfsmenn á rót að rekja til hirðar konungs sem hlaut fast skipulag á hámiðöldum, bundið sérstökum lögum og hins vegar til hersins. Í Noregi nefndust lög hirðarinnar hirðskrá og var hún sett 1276. Innan hirðar og hers festi riddarahugsjónin rætur og mótaði það hugarfar að sýna bæri konungi og kirkju hollustu og rækja bæri skyldur við þjóðfélagsþegnana. Þar liggja rætur embættishugsjóna Evrópu sem áttu drjúgan þátt í að styrkja starfshæft stjórnkerfi þótt auðvitað yrði einatt skil milli hugsjónar og veruleika eins og jafnan vill verða.

Margir Íslendingar gengu í hirð Noregskonungs og á 13. öld voru flestir íslenskir höfðingjar hirðmenn hans og lutu hirðlögum. Eftir að Ísland gekk undir Noregskonung voru sýslumenn kjarni hirðarinnar og jafnframt embættiskerfisins. Þeir sinntu þeim grunnskyldum ríkisins að halda uppi lögum og reglu, tryggja öryggi þjóðfélagsþegnanna og innheimta skatta. Síðar, eða nánar tiltekið á 18. öld, tók ríkið að hafa meiri afskipti en ella af atvinnuvegum og ýmiss konar þjónustu í anda þeirrar stefnu sem kölluð var kameralismi. Og þá má segja að allmjög hafi rýmkað um starfsmannahald ríkisins.

Ekki er ástæða til þess að rekja þessa sögu frekar`` segir prófessor Sigurður Líndal ,,... en því minnist ég á þetta að í hollustu- og agahugsjónum hirðlaganna liggja rætur þeirrar löggjafar sem lengst af hefur gilt um embættismenn hér á landi. Áhersla hefur legið á hollustu þeirra við ríkið og skyldur við þegnana.``

Prófessor Sigurður Líndal rekur síðan mjög margt í þessari ræðu sinni þar sem hann fer yfir lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. En hann segir síðan eftir að hafa farið yfir einstakar greinar laga um ríkisstarfsmenn, réttindi þeirra og skyldur, með leyfi forseta:

,,Innan einnar og sömu stofnunar vinna menn eftir mörgum kjarasamningum og eru í mörgum stéttarfélögum. Svo ég nefni einungis Háskóla Íslands, þar sem ég vinn, þar vinna menn sem starfa í 13 stéttarfélögum, þá skarast ákvæði laga nr. 38/1954 og laga nr. 94/1986 í ýmsum greinum eins og reyndar hefur verið minnt á hér fyrr og í þriðja lagi sýnist sem ákvæði kjarasamninga og laga nr. 38/1954 skarist einnig í ýmsum greinum. Af þessu sýnist mér sem áhorfanda að það sem stefna beri að í launa- og starfsmannamálum ríkisins, til að ná þeim markmiðum að gera starfsemi ríkisins sem skilvirkasta og ódýrasta, hljóti að vera að einfalda löggjöfina. Fátt getur staðið skilvirkri framkvæmd og hagræðingu meira fyrir þrifum en flókin og óljós löggjöf og þá sýnist mér þetta einna helst koma til álits.

Í fyrsta lagi að skilgreina hlutverk ríkisins betur en gert er og þá um leið auðvitað ríkisstofnana. Hvert á að vera hlutverk þess? Nú sýnist nokkuð víðtæk samstaða um að efla markaðsbúskap og einkavæða margvíslega starfsemi sem áður þótti eðlilegt að ríkið annaðist þannig að um þetta málefni, hvert eigi að vera hlutverk ríkisins, ætti að vera auðveldara að ná samstöðu um en áður var.

Í öðru lagi þá felur einkavæðing í sér að starfsmönnum ríkisins hlýtur að fækka.

Í þriðja lagi, þar sem ríkið kann að reka þjónustustarfsemi áfram þá taki það vinnuafl einfaldlega á frjálsum markaði.

Í fjórða lagi þá yrðu afleiðingar veruleg breyting á skipulagi stéttarfélaga og stéttarsambanda. Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna sameinast eða leggast niður eða gjörbreytast. Einhvers konar vinnustaðafélög eða starfsgreinasambönd koma í staðinn.

Mér hefur eiginlega alltaf verið það óskiljanlegt af hverju háskólamenn, af því að þessir tveir stafir, ,,há``, skuli vera í nafni skólans, þurfi að vera í sérstökum stéttarfélögum ekki síst þegar flestir skólar á Íslandi eru nú að verða háskólar.

Í fimmta lagi. Þeir sem gegndu þeirri starfsemi ríkisins sem samstaða næðist um að það gegndi, eiga að sæta einhliða ákvörðun ríkisins um kjaramál og hafa engan verkfallsrétt. Það er ekki í neinna þágu að lama þá starfsemi sem menn eru almennt sammála um að ríkið skuli halda uppi. Þá starfsemi á ríkið að rækja vel. Andi kjaradeilna á þar ekki heima. Hann lamar starfsemi, þyngir ríkisbáknið, eykur útgjöld ríkisins og bitnar á skattgreiðendum að lokum og skerðir lífskjör þjóðarinnar. Hvað kostar sú kjarabarátta sem er að verða ein helsti atvinnuvegur þjóðarinnar?`` spyr prófessorinn, rétt eins og menn fari í verkföll og berjist fyrir bættum kjörum að ástæðulausu. Það er hrein hörmung að svona sjónarmið skuli vera uppi í okkar litla þjóðfélagi. Í niðurlagi ræðunnar segir, virðulegi forseti, það er lokaniðurstaða prófessors Sigurðar Líndals: ,,Meðal ríkisstarfsmanna þeirra sem eftir verða þarf að kveða niður þann kjaradeilu- og fjandskaparanda sem nú um skeið hefur verið ríkjandi og endurvekja og efla þann hollustu- og þjónustuanda sem lagður var grunnur að innan ríkis og kirkju á miðöldum og hefur þrátt fyrir allt löngum fylgt embættishugsjónum Vesturlanda.``

[14:15]

Þetta voru lokaorðin og lokaerindið á þessari ráðstefnu, Hvert skal stefna í launa- og starfsmannamálum ríkisins, 20. október 1994. Þetta er alveg með ólíkindum. Eitt er að hlusta á sjónarmið eins manns sem flytur erindi á ráðstefnu en annað að fá síðan afraksturinn og innihald erindisins hér sem frv. til laga á hv. Alþingi. Það hefur nú gerst. Nákvæmlega það sem prófessor Sigurður Líndal sagði í sínu erindi er að rætast. Það á að ná fram þessum aga og þessari þjónustulund hjá starfsmönnum ríkisins og það á að gerast með hótunum.

En það er ekki allt vont sem gert hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar og tillögum um breytingu á ríkisrekstri eins og ég nefndi hér áðan. Tveir bæklingar til viðbótar við þá sem ég hef þegar kynnt hafa komið út. Það er Verkefnavísir, ríkið hefur látið gera hann, og bæklingur um fjárreiður ríkisins og endurskipulagningu. Hvort tveggja mjög þarft, virðulegi forseti, og allt í lagi að hrósa hæstv. fjmrh. úr því að hann er fjarstaddur fyrir að hafa komi þessu í verk. En þetta tvennt er undirstaðan að því sem á eftir átti að koma. Það er endurskipulagningin. Vegna þess að endurskipulagning í ríkisrekstri, segi ég enn og aftur, verður aldrei markviss nema grunnupplýsingarnar um verkefni hverrar stofnunar liggi fyrir. Þær eru hér, þetta er grunnurinn að því að fara nú í þessar breytingar hægt og sígandi í samráði við starfsmenn en ekki með því að byrja á því að traðka á þeim með þeim hætti sem hér er verið að gera.

Það er enn ein ráðstefnan sem ég ætla að vitna hér til, þar á meðal erindi sem oft hefur verið farið yfir sem fyrrv. fjmrh. Nýja-Sjálands hélt, en hún kemst ekki í hálfkvisti við prófessor Sigurð Líndal hvað hugsjónir og boðskap varðar. Þarna var flutt erindi frá OECD, Derry Ormond hélt mjög gott erindi sem við gátum margt lært af og síðan flutti hæstv. fjmrh. sitt erindi. Að vísu er komin ný ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., þótt ekki hafi orðið mikil breyting á. Áfram er haldið á þeirri braut sem mörkuð var 1992 og 1993 og framsóknarmenn hafa svo sem lítið skipt sér af því eins og við sjáum að er að gerast varðandi starfsmenn ríkisins. Og ekki hafa þeir dregið úr vilja Sjálfstfl. til þeirra breytinga sem þeir hafa boðað. En í erindi hæstv. fjmrh. fór hann yfir umbætur síðustu ára, útboðin og útboðsstefnuna og þær breytingar sem á að gera á fjárlögum og ríkisreikningi. Hann nefnir einkavæðinguna og talar þar um þessi góðu dæmi sem er sala ríkisins til að mynda á Lyfjaverslun Íslands og lokun og sala Ríkisskipa. Hvergi í ræðunni nefndi hann SR-mjöl. Í fjórða lagi nefndi hann áhersluna á aukna samkeppnisvitund hjá hinu opinbera. Síðan nefndi hann verkefnavísana sem ég tel að séu af hinu góða og breytingar í eignaumsýslu ríkisins. Eftir að hafa farið yfir þetta eyddi hann nokkrum tíma í ábyrgð og afrakstur og svo kom þriðji þátturinn sem fjallaði um sjálfstæði og sveigjanleika í starfsmannamálum sem ég fór í hér í upphafi ræðu minnar og var boðaður strax 1992--1993 og þá sérstaklega tekið á því að draga ætti úr völdum starfsmannaskrifstofu ríkisins og fjmrn. ætti að hætta að vera með puttana í hverjum einasta samningi sem gerður væri við starfsmenn ríkisins innan stofnana. Hvernig hefur þetta verið í framkvæmd? Ef maður skoðar framkvæmdina trúir maður því þá að það liggi eitthvað á bak við þessar fullyrðingar hæstv. ráðherra um að sjálfstæði og sjálfsforræði stofnana í eigin málum verði aukið? Ef horft er á efndirnar frá því 1992 og 1993? En í þessum þriðja þætti ræðu hæstv. fjmrh. á þessari ráðstefnu fyrir tæpu ári sagði hann: ,,Ábyrgð stjórnanda verður aukin, sjálfstæði stofnana við gerð launasamninga ber að efla og gera launakerfið sveigjanlegra.`` Áður hefur þeirri skoðun hans verið lýst að draga ætti úr valdi starfsmannaskrifstofunnar og vangaveltum um hlutverk hennar. Maður skyldi ætla að frá 1992 eða 1993 hefði verið færi á að stíga a.m.k. eitt skref í þessa átt. En hefur það verið gert? Nei, það hefur ekki verið gert. Þvert á móti hafa þau mál sem hefur verið farið með inn til hæstv. ráðherra til hans ráðuneytis og á þessa skrifstofu verið afgreidd með afar neikvæðum hætti. Við gerð gildandi kjarasamninga voru uppsagnarákvæði sett inn þar sem hvor aðili fyrir sig gat sagt samningum upp héldi hann að forsendur samningsins hefðu breyst á samningstímanum. Eða eins og segir í síðustu grein samninganna, með leyfi forseta, þ.e. samningum opinberra starfsmanna: ,,Forsenda samnings þessa er að verðlagsþróun á samningstímanum í heild verði áþekkt því sem gerðist í helstu samkeppnislöndunum þannig að stöðugleikinn í efnahagslífinu verði tryggður. Á samningstímanum munu fulltrúar fjmrh. og félaganna, eða sá aðili sem það tilnefnir, koma saman og meta hvort forsendur samningsins hafi haldið. Hvorum aðila er heimilt að segja samningum lausum með minnst mánaðarfyrirvara ef verulega og marktæk frávik hafa orðið að samningsforsendum samkvæmt þessari grein. Komi til uppsagnar samkvæmt framanskráðu tekur hún gildi 31. des. 1995.`` Á grundvelli þessa ákvæðis ákvað Starfsmannafélag ríkisstofnana SFR, eitt fjölmennasta aðildarfélag BSRB, að segja upp gildandi kjarasamningi þar sem félagið taldi að forsendur samningsins hefðu ekki haldið og launaþróun hefði ekki verið með þeim hætti sem ætla mætti miðað við gefnar forsendur. Nú mætti halda að miðað við allt talið um aukið frelsi og svigrúm stofnana ríkisins og að láta reyna á hæfni stofnana til samningsgerðar hefði hæstv. fjmrh. gripið tækifærið fegins hendi og vísað samningum til þeirra stofnana sem hlut áttu að máli, trúr sínum eigin yfirlýsingum þess efnis að samningar séu betur komnir hjá stjórnendum sem eru í beinnum tengslum við þá sem störfin vinna. Aftur og aftur síðan 1992 hefur áherslan verið lögð á aukið sjálfstæði og sjálfsforræði stofnana í eigin málum. En þetta tækifæri var látið ónotað. Þess í stað var uppsögn samninganna vísað til Félagsdóms og dæmd ógild. Það er reyndar annað sláandi dæmi frá þessu sama félagi, Starfsmannafélagi ríkisstofnana, dæmi sem sýnir svo ekki verður um villst að sjálfstæði stofnana er ekki neitt þrátt fyrir miklar yfirlýsingar. Í kjarasamningum eru ákvæði um samstarfsnefndir. Hlutverk þessara samstarfsnefnda er að fjalla um laus- og fastráðningu starfsmanna á vinnustöðum. Samstarfsnefndin skal m.a. fjalla um röðun í launaflokka og um samninga við fólk sem færist á milli starfa innan stofnunar eða á milli stofnana. Nefndinni er einnig falið að jafna ágreining sem upp kann að koma eftir að röðun í launaflokka hefur farið fram. Til upplýsingar fyrir hv. þm. Sjálfstfl. sem hér er einn frá stjórnarliðum auk hæstv. ráðherra og virðulegs forseta er ég núna rétt í ræðu minni búin að fara yfir ýmis markmið sem ráðherrann hefur sett sér í því að endurskipuleggja ríkisstofnanir og margt af því er mjög gott. Ég hef einnig rakið hvernig farið hefur verið og ætlunin er að fara með starfsmenn og hvernig framkvæmdin á yfirlýsingum Sjálfstfl. síðan 1992--1993 um aukið sjálfstæði og sjálfsforræði stofnana hefur verið og þá sérstaklega ef við horfum til þess að það átti að færa vald til stofnana í samningsgerð. Ég er hér að rekja störf samningsnefnda sem samið var um í kjarasamningum opinberra starfsmanna og hvernig farið hefur verið með þau.

Í kjarasamningi SFR, eins og allra opinberra starfsmanna, er ákvæði um þessar samstarfsnefndir. Í grein 11.2 í kjarasamningi SFR segir svo til um hlutverk nefndanna, með leyfi forseta:

,,Það er að fjalla um laus- og fastráðningu starfsmanna á vinnustöðum og vinnumarkaði SFR hvað varðar röðun í launaflokka. Einnig gildir þetta um fólk sem færist á milli starfa innan tiltekinnar stofnunar eða á milli stofnana. Nefndirnar skulu reyna til þrautar að jafna ágreining er upp kann að koma eftir að röðun í launaflokka hefur farið fram.``

SFR gerði samkomulag við starfsmannaskrifstofu ríkisins um að samstarfsnefndum yrði komið á í einstökum stofnunum. Ein þeirra stofnana er Ríkisspítalar. Þar á að fara fram endurskoðun á launaflokkaröðun, breytingar á starfsheitum og öðrum þeim klögumálum sem upp kunna að koma milli verkalýðsfélagsins og stofnunar. Það skal rætt í þessum samstarfsnefndum. Í starfi nefndarinnar hefur æ ofan í æ komið í ljós að Ríkisspítalar virðast hafa afar lítinn rétt til ákvarðanatöku hvað varðar launamálin. Flestar ákvarðanir samstarfsnefndar eru bornar undir starfsmannaskrifstofu fjmrn. til samþykktar eða synjunar. Er þá lítið orðið eftir af sjálfstæðinu sem mikið hefur verið gumað af. Eitt af þeim málum sem var tekið upp af hálfu samráðsnefndar Ríkisspítalanna og SFR voru launamál læknaritara. Þeir töldu sig hafa dregist aftur úr miðað við umfang og breytingar á störfum þeirra, aukna menntun og meira vinnuálag. Síðast þegar læknaritarar fengu breytingar á launaflokkaröðun var það fyrir tilstilli samstarfsnefndar en ekki í samningum þannig að það var komið fordæmi fyrir vinnubrögðunum. Kjör stórra hópa eins og læknaritara og fangavarða hafa hreyfst á milli samninga á þennan hátt og reyndar margra annarra hópa sem væri of langt mál að telja upp hér. Vinna þessi við leiðréttingu á kjörum læknaritaranna hófst um leið og samráðsnefndin tók til starfa 1993 og var unnið með læknariturum að skilgreiningu á störfum þeirra og umfangi. Það var gert með starfsmannastjóra Ríkisspítala sem var fulltrúi fyrir Ríkisspítalana í samráðsnefndinni. Fulltrúar frá SFR störfuðu einnig að þessu máli. Að sögn fulltrúa í samráðsnefndinni kom aldrei fram hjá fulltrúa Ríkisspítala að hann hefði ekki umboð til að vinna þessa vinnu, hvorki á fundum með læknariturunum né í samráðsnefndinni. Í maí árið 1995 var síðan gert samkomulag um að læknaritarar hækkuðu um tvo launaflokka og að áframhaldandi vinna yrði varðandi launakjör þessa hóps sem er langt frá því að vera eðlilega launaður miðað við vinnuframlag og ábyrgð. Launin eru e.t.v. í samræmi við það að hér er um dæmigerða kvennastétt að ræða.

[14:30]

Skemmst er frá því að segja að þessi samningur gekk aldrei í gildi því nú töldu yfirmenn Ríkisspítala og einnig formaður samninganefndar ríkisins að fulltrúi Ríkisspítalanna hafi ekki haft umboð til að hækka þennan tiltekna hóp, það ætti að gerast í kjarasamningum. Þá var bent á að í kjarasamningaviðræðum hefði fengist staðfesting á þessu samkomulagi varðandi læknaritarana. Það fékkst frá fulltrúa Ríkisspítala í nefndinni sem m.a. varð grundvöllur þess að tekin var ákvörðun um það í SFR að ganga frá kjarasamningi 12. apríl 1995 í þeirri góðu trú að samkomulagið við samráðsnefnd Ríkisspítalanna stæði. En því var ekki að heilsa. Orð og undirskrift fulltrúa Ríkisspítala í samráðsnefndinni voru gerð ómerk og sagt að hann hefði farið út fyrir sitt umboð. SFR fór með málið í Félagsdóm og fór fram á að fá viðurkennt með dómi Félagsdóms að ákvörðunin á samráðsnefndarfundi Ríkisspítalanna og Starfsmannafélags ríkisstofnana frá 11.5. 1995 um kjör læknaritara væru bindandi fyrir stefnda, sem var hæstv. fjmrh. fyrir hönd fyrir ríkisins, og að stefnda yrði gert að greiða stefnanda málskostnað að mati Félagsdóms. ,,Við þá ákvörðun verði gætt skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af aðkeyptri lögmannsþjónustu sem stefnandi njóti ekki frádráttarréttar vegna,`` eins og segir í málsskjölum. Aðalkrafa stefnda, þ.e. hæstv. fjmrh., var hins vegar að málinu yrði vísað frá Félagsdómi og að stefnda yrði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati Félagsdóms. Úrskurðurinn varð síðan sá að frávísunarkröfu stefnda, hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs, var hrundið og málskostnaður dæmdist ekki í þessum þætti málsins. Hæstv. fjmrh. sem talar mikið um að færa völd til stofnana, kjarasamningana til stofnana, lætur hins vegar ekki staðar numið þarna. Hann hefur vísað málinu til Hæstaréttar. Þannig fara alls ekki ekki saman orð og efndir.

(Forseti (ÓE): Það er fullmikill kliður í salnum. Gefið ræðumanni hljóð.)

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að menn skulu taka allt tal um ábyrgð og að færa ábyrgð út til stofnana með fyrirvara og skoða hvernig verkin hafa verið á undanförnum árum.

Hæstv. ráðherra lagði sem sagt áherslu á í þessari ræðu sinni á yfirlýsingar um að launasamningar yrðu gerðir hjá stofnununum og forstöðumönnum stofnana væri gert mögulegt að umbuna fyrir sérstaklega vel unnin verk. Það hefur komið fram æ ofan í æ í ræðum hæstv. ráðherra. Jafnframt sagði hæstv. ráðherra á þessari ráðstefnu að ríkið ætlaði að verða fyrsta flokks vinnuveitandi. Og þessi fyrsta flokks vinnuveitandi segir í 9. gr. frv. að forstöðumenn geti ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum vegna sérstakrar hæfni, sérstaks álags í starfi og fyrir árangur í starfi. Reynsla annarra þjóða sem nýverið hafa farið út í svipaðar breytingar er nokkuð einsleit.

Í fyrsta lagi: Þau viðmið sem forstöðumenn nota við ákvörðun á umbun til starfsmanna byggja oftar en ekki óháð því hvaða lög og reglur gilda þar um á huglægu mati forstöðumannanna á frammistöðu starfsmannanna. Mat þeirra er ókerfisbundið og háð geðþótta viðkomandi forstöðumanns. Það eru einnig mörg dæmi þess þar sem þetta hefur verið reynt að forstöðumenn umbuni starfsmönnum sínum fyrir að stuðla að frama forstöðumannsins sjálfs og framlengingu ráðningarsamnings forstöðumanns. Breytingin hefur einnig haft í för með sér að launamunur milli karla og kvenna hefur aukist. Vegna þessarar reynslu annarra þjóða hafa opinberir starfsmenn mótmælt því að láta forstöðumenn umbuna starfsmönnum með þessum hætti. Það er veruleg ástæða til að mótmæla þessum breytingum og hafa áhyggjur af því hvert stefnir verði þetta frv. samþykkt. Hæstv. fjmrh. hefur engar áhyggjur af því að þessi breyting hafi í för með sér að launamunur kynja aukist eins og reynsla erlendis sýnir. Dæmi innan lands sýna reyndar það sama. Hann hefur óbilandi trú á mætti sínum. Hann ætlar að setja reglur sem tryggja að konur hafi sömu möguleika á að fá umbun og karlar hafa nú þegar. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að það eru sömu forstöðumenn sem nú eiga að fá þessi völd til að umbuna starfsmönnum sínum sem voru í nýlegri launakönnun Jafnréttisráðs staðnir að því að mismuna gróflega konum og körlum hvað varðar einmitt þessar sporslur. Forstöðumenn voru staðnir að því að mæla frammistöðu starfsmanna eftir því hve mikil viðvera þeirra var en ekki eftir frammistöðu í starfi. Forstöðumenn sem voru svo fornir í hugsun að þeir töldu enn nauðsynlegt að umbuna körlum sérstaklega þar sem þeir væru fyrirvinnur. Þetta kom fram í þessari launakönnun. En þá talaði hæstv. fjmrh. um viðhorfsbreytingu, það væri þörf á viðhorfsbreytingu. Því spyr ég hvort þessi viðhorfsbreyting hafi átt sér stað fyrst þessum mönnum er nú rúmu ári seinna treyst til að ákveða sporslur upp á eindæmi og án allrar íhlutunar stéttarfélaga þeirra.

Vegna þeirra breytinga á valdi forstöðumanna til að ákveða umbun til starfsmanna sem lagt er til í frv. finnst mér að hæstv. fjmrh. verði að svara þeim spurningum sem hafa komið fram í umræðunni aftur og aftur, nánast hjá hverjum einasta hv. ræðumanni sem hér hefur talað. Þær eru hvort þingið fær ekki að sjá þessar reglur sem tryggja eiga konum og körlum sama rétt til aukagreiðslna áður en frv. kemur til afgreiðslu. Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að tryggja að hægt sé að fylgjast með því, ef reglurnar eru nú svona góðar eins og hæstv. ráðherra hefur trú á, hvort forstöðumenn framfylgi reglunum? Eins og hæstv. fjmrh. veit þá er málum þannig háttað nú með þær upplýsingar sem við höfum úr launakerfi opinberra starfsmanna að ekki er hægt að sjá hvort sporslur hafni á réttlátan hátt hjá starfsmönnum hins opinbera. Það var einmitt ein af ástæðunum fyrir því að farið var út í að gera þessa könnun sem ég hef nefnt áður á vegum Jafnréttisráðs. Það varð sem sagt að framkvæma dýra spurningakönnun til að kanna m.a. hvort ákvæðum jafnréttislaganna um að greiða beri konum og körlum sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf sé framfylgt. Það voru engin gögn til sem hægt var að vinna út frá. Þessum spurningum verður hæstv. fjmrh. að svara áður en umræðunni lýkur. Hv. þm. verða að velta þessu fyrir sér. En þar sem tvær hliðar eru á öllum málum verðum við jafnframt að velta fyrir okkur sjónarhorni stjórnenda stofnana sem mér sýnist að hafi bara alls ekkert verið kallað eftir. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvort ekki er með þessum breytingum verið að skerða rétt þeirra og stöðu eða a.m.k. að stilla þeim upp við vegg. Í raun verði þeim alltaf og ævinlega miðstýrt frá fjmrn. En eins og segir í 9. gr. frv. geta forstöðumenn stofnana ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum vegna sérstakrar hæfni sem nýtist í starfi svo og fyrir árangur í starfi. Ákvarðanir þessar skulu fara eftir reglum, þessum títtnefndu sem hæstv. fjmrh. setur, og tryggir konum og körlum sömu möguleika á að fá viðbótarlaun. Í skýringum með greininni kemur fram að það tíðkast hjá ríkinu að greiða starfsmönnum uppbætur á laun. Meðal annars í formi ómældrar yfirvinnu vegna sérstakst álags í starfi. Og sumar stofnanir hafa farið þá leið að greiða öllum starfsmönnum þessa óunnu yfirvinnu svokölluðu. Einstaka ríkisstofnun hefur gert það. Það er mér kunnugt um bara eftir að hafa starfað í fjárln. Þessar greiðslur á að afnema og þessar sporslur eiga að koma í staðinn. Ástæðan fyrir því að þessar reglur eru settar er að þessar launauppbætur, óunnin yfirvinna, hafa að mati fjmrn. verið ósamræmdar og tilviljanakenndar. Ég get ekki séð að ákvæði 9. gr. breyti neinu um það ógagnsæja launakerfi sem viðgengist hefur hjá ríkinu eða auki samræmi í launagreiðslum. Greiðslur fyrir svokallaða óunna yfirvinnu eru algengar en ekki samræmdar á nokkurn hátt þrátt fyrir að starfsmannaskrifstofa fjmrn. hefur haft heljartök á öllum samningum við starfsmenn og launagreiðslur til þeirra. Ég get ekki séð að greiðslurnar verði samræmdari með því að fela forstöðumönnum að ákveða þær hverjum í sinni stofnun óháð því sem gerist annars staðar. Það verður að hafa í huga að möguleikar forstöðumanna til að greiða þessar launauppbætur munu fara eftir heimildum í fjárlögum sem veita nú ekki mikið svigrúm og taka ekki alltaf mið af raunverulegum þörfum stofnana. Og hvað á forstöðumaðurinn að gera ef fjárlagaheimildir hrökkva ekki fyrir grunnlaunum og þeim lágmarksverkefnum sem honum ber að sinna samkvæmt lögum? Ekki getur hann látið útgjöldin fara fram úr fjárlagaheimildum því þá fær hann áminningu eða lausn frá störfum samkvæmt 38. gr. Og ekki getur hann heldur dregið saman í verkefnum eða þjónustu því þá bíða hans sömu örlög samkvæmt 38. gr., áminning eða lausn frá störfum.

Annað sem skiptir máli í þessu sambandi er að forstöðumenn hafa ekki vitneskju um fjárheimildir sínar nema til skamms tíma í einu. Og þó að gerðir hafi verið samningar við nokkrar stofnanir ríkisins, samningsstjórnun, og menn séu að boða áætlanagerð fram í tímann þá er það ekkert sem liggur fyrir í dag. Þeir hafa því enga tryggingu fyrir launagreiðslum sem þeir hafa þó í dag þegar fjmrn. ábyrgist samninga og veitir stofnunum aukafjármagn vegna launasamninga sem fela í sér hækkanir. Það sama gildir um starfsmennina. Sama óöryggið gildir fyrir starfsmennina í launagreiðslum. Öryggi starfsmannsins verður ekki mikið ef ekki verða breytingar á fjárlagagerð ríkisins þar sem gerðar eru áætlanir til nokkurra ára. Þetta ber í raun allt að sama brunni. Það er kannski ekki verið að færa svo mikið vald til forstöðumanna ríkisstofnana í raun nema því fylgi aukafjárveitingar sem ég á alls ekki von á. Það er hins vegar verið að gera forstöðumennina að blórabögglum fyrir þá lækkun á launakostnaði stofnana og fækkun starfsmanna sem þessi ríkisstjórn stefnir að. Og forstöðumennirnir munu ekki komast undan því að vinna þessi verk nema þeir láti af störfum samkvæmt 38. gr. frv. Vilji hæstv. fjmrh. í raun samræma launauppbætur og gera þær markvissar ætti hann að líta sér nær. Það þarf engar lagabreytingar til að bæta þau vinnubrögð sem tíðkast í fjmrn. og á starfsmannaskrifstofunni. Þeirri samræmingu má ná með kjarasamningum sem miða að opnu og gagnsæju launakerfi þar sem mið er tekið af álagi í starfi og árangri. En það verður ekki gert með þessu frv. Réttur forstöðumanna er í raun ekki mikill þegar vel er að gáð. Samkvæmt 26. gr. þykir rétt að veita embættismanni lausn frá störfum um stundarsakir ef hann hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi samanber ákvæði 38. gr. og er ekki einu sinni skylt að vara hann við með áminningu. Mikið skal vald ráðherra vera. Það má reka forstöðumanninn ef verkefnum stofnunarinnar er ekki sinnt sem skyldi eða þjónusta hennar telst óviðunandi. Einnig ef útgjöld fara fram úr fjárlagaheimildum. Þeir sem hafa lengi starfað í fjárln. vita að það eru ekki margar stofnanir ríkisins sem hafa bolmagn til að sinna þeim verkefnum öllum sem þeim er falið að sinna samkvæmt lögum. Sama má í raun segja um þá þjónustu sem stofnanirnar veita og eiga að veita samkvæmt lögum. Ofan á það bætist að það er ekkert óalgengt að hæstv. ráðherrar og ráðuneyti feli stofnunum ýmis verkefni án þess að tryggja að þær standi undir kostnaði af þessum verkefnum. Hæstv. ráðherra mun því ekki þurfa að leita lengi eftir ástæðu til að reka forstöðumanninn eftir að forstöðumanninum hefur verið gert að reka nánast alla starfsmennina vilji hann losna við starfsfólk ríkisins. Hæstv. ráðherra hefur svipu sem hann getur beitt til að fá forstöðumann til að lækka launakostnað, fækka starfsfólki eða sinna öðrum þeim verkum sem óþægileg eru og ráðherrar vilja losna undan ábyrgð á.

[14:45]

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að fara yfir þá stefnu sem núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn boðuðu í breytingum á rekstri ríkisins og enn og aftur vísa ég til þess að margt þar er jákvætt. Hins vegar finnst mér að það sé verið að byrja á öfugum enda og þetta frv. sem hér er lagt fram án nokkurs samráðs við starfsmenn ríkisins þar sem þeir munu búa við mikið óöryggi, ekki bara vegna frv. heldur vegna allra annarra breytinga sem eru fyrirhugaðar á ríkisrekstrinum, þá hefði mér þótt eðlilegt að staldra við og byrja á því að skilgreina markmið og þjónustustig hverrar stofnunar og í raun markmið með þjónustu ríkisins alls og taka út þau verkefni sem við erum sammála um og viljum sjá áfram að séu greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Í þessari umræðu hefur einnig verið lögð á það áhersla af hálfu hæstv. ráðherra að ríkið og stofnanir þess verði fyrsta flokks vinnuveitendur. Þessi umræða hefur ekki bara verið í gangi hér. Hún hefur verið í gangi erlendis og í umræðunni erlendis, t.d. á Norðurlöndum, er mikið lagt upp úr hlutverki hins opinbera sem fyrirmyndar atvinnurekanda, fyrsta flokks atvinnurekanda heitir það í frv., frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. En það er mikill munur á hvað átt er við með hugtakinu eftir því hvort umræðan er hérlendis eða erlendis. Þegar Norðurlandabúar, þar á meðal t.d. fjármálaráðherra Dana, Mogens Lykketoft, ræða um hlutverk hins opinbera sem fyrsta flokks vinnuveitanda, þá eru þeir að tala um hið opinbera sem framsýnan atvinnurekanda sem mótar starfsmannastefnu með það að markmiði að starfsmennirnir séu hafðir með í ráðum þar sem það séu þeir sem veita þjónustuna og vinna verkin. En með hugtakinu fyrirmyndaratvinnurekandi er einnig átt við í þeirri umræðu að leitast sé við að gera starfsmönnum kleift að vinna, að samræma vinnu utan heimilis, ábyrgð á heimili og uppeldi barna. Að lokum er litið svo á að hið opinbera gegni miklu hlutverki við að stuðla að jafnrétti kynja á vinnumarkaði. Hið opinbera á sem sagt að vera fyrirmyndaratvinnurekandi og móta starfsmannastefnu, fara óhefðbundnar leiðir og vera framsýnt.

Þegar hæstv. fjmrh. talar um hlutverk hins opinbera hér á landi sem fyrsta flokks atvinnurekanda, þá telur hann að gera þurfi betri grein fyrir því til hvers er ætlast af stjórnendum og starfsmönnum stofnana, þ.e. að vera fyrsta flokks atvinnurekandi, að það sé gerð betri grein fyrir því til hvers er ætlast af starfsmönnum ríkisins á meðan Norðurlandabúar tala um að prófa hið opinbera í samráði við starfsmenn. En til að gæta fyllstu sanngirni verður þó að geta þess að talað er um í frv. að við mótun starfsmannastefnu hins opinbera eigi að byggja á því að auka jafnrétti milli karla og kvenna og í 13. gr. er talað um rétt starfsmanna til sveigjanlegs vinnutíma með þeim fyrirvara þó að yfirmenn samþykki. Fyrir utan það að kveða á um rétt til sveigjanlegs vinnutíma er ekkert í frv. sem bendir til þess að hugmyndir hæstv. fjmrh. um hið opinbera sem fyrsta flokks atvinnurekanda eigi nokkuð skylt við hugmyndir nágrannaþjóða okkar þar um. Þar er ekki að finna framsækna hugsun við mótun starfsmannastefnu. Þvert á móti virðist markmiðið vera að taka upp starfsmannastefnu sem byggir á öllu því afturhaldssama, sem tíðkast á almennum vinnumarkaði: Forstjóraveldið, skipunum að ofan eða eins og það heitir í greinargerð með frv. starfsmönnunum sé gerð betri grein fyrir því til hvers þeir ætlast af þeim og umbunakerfi sem byggir á mati yfirmanna og svo auðvitað reglum sem hæstv. fjmrh. hefur lofað og það verið margauglýst eftir hér, en ekkert hefur til spurst.

Í frv. kemur hin afturhaldssama hugsun einnig fram í því að gert er ráð fyrir því að réttindi opinberra starfsmanna verði samræmd við réttindi starfsmanna á almennum vinnumarkaði og það verði gert með því að jafna réttindin niður á við. Þó að þeir sem frv. sömdu hafi bjargað sér fyrir horn á elleftu stund með því að setja inn bráðabirgðaákvæði, að réttindi starfsmanna haldist þar til um annað hefur verið samið, þá kemur hugsunin skýrt fram í athugasemd með 12. gr. frv. þar sem fjallað er um réttinn til greiðslna í fæðingarorlofi og veikindum. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Fyrir þá starfsmenn sem nú falla undir lög nr. 38/1954 og ekki eru skilgreindir sem embættismenn samkvæmt þessu frv., mundi þetta þýða að með réttindi þeirra færi með sama hætti og annarra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. að tryggður yrði lágmarksréttur.``

Til að kóróna yfirferðina ætla ég að lokum að nefna að hið afturhaldssama sköpunarverk hæstv. fjmrh. að gera hið opinbera að fyrsta flokks vinnuveitanda er ekki einungis tekið upp það afturhaldssamasta úr samtímanum, heldur er leitað aftur í aldir að hugmyndum. Frv. gerir nefnilega ráð fyrir því að starfsmenn hins opinbera skiptist annars vegar í yfirboðara, embættismenn, út úr kansellíi fyrri alda eins og prófessor Sigurður Líndal lagði til, og hins vegar almenna starfsmenn með lágmarksréttindi og þeim starfsmönnum þarf að gera grein fyrir til hvers er ætlast af þeim. Hin nýja starfsmannastefna hæstv. fjmrh. á því lítið skylt við það sem er að gerast í þeim löndum sem við teljum okkur eiga mesta samleið með. Í þeim löndum er haft að leiðarljósi við mótun starfsmannastefnu að hið opinbera sé framsýnt, taki ekki upp hið neikvæða á almennum vinnumarkaði og það sem hefur dagað uppi úr starfsmannastefnu fyrri alda.

Það er einnig veigamikill hluti af hinni framsæknu starfsmannastefnu að starfsmennirnir séu hafðir með í ráðum en ekki litið á starfsmenn sem einhverja sem þurfi að gera grein fyrir því sem ætlast er til af þeim án þess að þeim sé kannski gerð grein fyrir því hvert markmiðið sé yfir höfuð með því að reka þá stofnun sem þeir starfa við. Framsýnn fyrirmyndaratvinnurekandi er í hugum nágrannaþjóða okkar atvinnurekandi sem leitast við að gera starfsmönnum kleift að samræma vinnu utan heimilis, ábyrgð á heimili og uppeldi barna eins og ég sagði áðan. Opinberir starfsmenn sinna mikilvægri samfélagslegri þjónustu, flestir við menntun og umönnun og eiga betra skilið af hendi hæstv. fjmrh. og okkar, hv. alþm. en þann afturhaldssama fyrsta flokks vinnuveitanda sem boðaður er í frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur staðið í nokkuð marga klukkutíma. Ein og ein rödd hefur heyrst í þá veru að stjórnarandstaðan standi fyrir málþófi og það eru helst þeir hv. þingmenn sem hafa tekið sér frí frá störfum á Alþingi meðan umræðan hefur staðið yfir. Það eitt sýnir hversu lítinn skilning fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa á þessu máli. Hér er verið að skerða kjör fjölda launþega í landinu eins og fram hefur komið hjá þingmönnum Alþfl., Kvennalista, Þjóðvaka og okkur þingmönnum Alþb. Allar umsagnir sem bárust efh.- og viðskn. utan ein eru neikvæðar og þar er bent á fjölmörg atriði sem skerða kjör starfsmanna ríkisins.

Það má lesa lista yfir þetta í upptalningu í umsögn BSRB, með leyfi forseta, en þar segir:

Helstu áhrif á réttindi almennra starfsmanna: Starfsöryggi að mestu afnumið, skipun sem ráðningarform afnumin, réttur nýrra starfsmanna til biðlauna afnuminn, réttur annarra starfsmanna til biðlauna skertur verulega, réttur til forgangs að sama starfi ef stofnað er aftur afnuminn, réttur til fyrirframgreiddra launa afnuminn, réttur til yfirborgunar skertur, veikindaréttur settur í uppnám, fæðingarorlofsréttur settur í uppnám, réttur til launalausra leyfa settur í uppnám.

Helstu áhrif á réttindi embættismanna: Starfsöryggi að mestu afnumið, ótímabundin skipun sem ráðningarform afnumin, kjör ákveðin utan kjarasamninga, aðild að stéttarfélögum og þátttaka í starfi þeirra bönnuð, réttur til biðlauna skertur verulega, réttur til forgangs að sama starfi ef stofnað aftur afnuminn, réttur til yfirborgunar skertur.

Helstu áhrif á skyldur starfsmanna. Skyldi það sæta framlengingu á uppsagnarfresti --- og það er eitt atriði sem hæstv. ráðherra þyrfti að skoða aðeins betur og hv. nefnd á milli fyrst formaður efh.- og viðskn. er kominn í salinn. Það er þetta með að sæta framlengingu á uppsagnarfresti. Að vísu getur starfsmaðurinn gert grein fyrir því af sérstökum ástæðum sem yrðu til þess að hann þyrfti ekki að sæta því. En í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram og átt sér stað hér á þingi og töluvert hefur verið undanfarið um áreiti, kynferðislegt áreiti á vinnustöðum. Haldið þið að starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir áreiti á vinnustað og segir upp starfi sínu, muni gera grein fyrir ástæðu uppsagnar á þann máta? Og það eru áreiðanlega ýmis fleiri tilfinningaleg vandamál sem þarna kunna að koma upp.

Síðan segir: Hverjum starfsmanni sett ný skylda, leiðbeiningaskylda. Skylt að hlíta breytingu á starfi og sæta kjaraskerðingu eftir uppsagnarfrest. Skylda starfsmanna að hlíta breytingum á starfi og þola skert starfskjör. Skylda embættismanna að flýta flutningum á milli embætta. Skylda embættismanns að vinna vinnuskyldu á bótatíma vegna stöðumissis. Sérstakar skyldur forstöðumanna vegna rekstrar og verkefna stofnana svo ekki sé talað um eins og ég benti á áðan að forstöðumenn stofnana geta haft þá skyldu og hafa þá skyldu að segja upp starfsfólki, fækka ríkisstarfsmönnum. Það er skylda þeirra nr. eitt, tvö og þrjú verði þetta samþykkt. Fækka ríkisstarfsmönnum. Þeir eiga að taka það að sér fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Öll þessi atriði sem hér hafa verið talin upp breytast verulega, verða ef þetta frv. verður að lögum. Það hefur verið nefnt að stjórnarandstaðan komi með málflutningi sínum í veg fyrir eðlilega, lýðræðislega afgreiðslu þessa máls. Hvaða merkingu leggja hv. stjórnarliðar í orðin ,,eðlileg afgreiðsla, lýðræðisleg afgreiðsla``. Er það eðlileg og lýðræðisleg afgreiðsla þegar samráð og samstarf við samtök allra ríkisstarfsmanna í landinu eru hunsuð? Er það lýðræði þegar ganga skal á rétt starfsmanna ríkisins með þessum hætti og svara ekki tilmælum þeirra eða ábendingum? Kjarasamningar gilda út þetta ár og það er rétt að bíða með breytingar þar til eðlilegar samningaviðræður hefjast milli ríkis og starfsmanna þess. Það eru eðlileg vinnubrögð og lýðræðisleg. Þetta er lítilsvirðing við ríkisstarfsmenn og réttindi þeirra og réttur til þess að fjalla um sín mál við samningaborðið er einskis virtur. Það eitt er næg ástæða til þess að krefjast þess að frv. verði dregin til baka. Og ofan á það bætist síðan að það er verið að skerða kjarabundin réttindi eins og margoft hefur komið fram í umræðunni. Samninga eftir samninga hafa ríkisstarfsmenn gefið eftir af beinum launakröfum sínum gegn því að þessi réttindi verði aukin og menn vita að laun ríkisstarfsmanna fyrir sambærileg störf á almenna markaðnum hafa verið lægri vegna þess að menn hafa verið að meta þessi réttindi í beinhörðum peningum. Þrátt fyrir þetta hafa stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar og þá um leið miklir stuðningsmenn þessa frv. og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur, haldið því fram að engin samningsbundin réttindi séu skert. Það er slæmt hvað þessir hv. stuðningsmenn frv. hafa lítið látið sjá sig við umræðuna því hún hefur verið málefnaleg og góð. Umræðan hefur snúist um vinnubrögð og um efnisinnihald frv. Í frv. felst ekki að ríkið verði fyrsta flokks vinnuveitandi. Ef menn samþykkja frv. undir þeim formerkjum hefðu þeir átt að hlusta betur á umræðuna og kynna sér umsagnir. Það er mat hv. þingmanna Alþb., Alþfl., Kvennalista og Þjóðvaka og alls launafólks í landinu að þið, hv. stjórnarliðar, séuð á rangri leið.