Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 15:06:58 (5985)

1996-05-14 15:06:58# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[15:06]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór einmitt yfir þetta með að færa völdin til forstöðumanna eða út til stofnana, ekki bara forstöðumanna heldur starfsmanna líka í ræðu minni rétt á meðan hæstv. ráðherra var í símanum. Hann hefur misst af þessum kafla ræðu minnar en ég fæ kannski tækifæri til þess að endurflytja hann á eftir þegar aðrir þeir sem eru á mælendaskrá hafa lokið máli sínu. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að markmiðin okkar varðandi ríkisreksturinn, hvert skuli stefna, eru alveg hin sömu en leiðirnar eru allt aðrar sem hæstv. fjmrh. hefur valið sér. Þegar ég tala um að færa aukin völd út til stofnana eða forstöðumanna stofnana er ég m.a. að ræða það að þegar forstöðumenn stofnana koma fyrir fjárln. Alþingis á hverju ári til að biðja um peninga til þess að geta sinnt lögboðnum verkefnum og fjárlaganefnd Alþingis, sem veit kannski ekki nokkurn skapaðan hlut um viðkomandi rekstur og ekki nema hluti þeirra sem þar starfa nennir að kynna sér hann og fara djúpt ofan í reksturinn, ákveður og forgangsraðar verkefnum hjá einstökum stofnunum ríkisins. Þetta er engin hemja. Það á að skilgreina hlutverk stofnunar og síðan eru forstöðumenn og starfsmenn sem eiga að fara í þau verkefni og þeir hafa vit á því.