Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 15:08:37 (5986)

1996-05-14 15:08:37# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[15:08]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Það fer að líða að lokum umræðunnar. Hún er búin að standa nokkuð lengi. Af hálfu stjórnarandstæðinga hafa verið fluttar fjölmargar ræður og frv. hefur verið gagnrýnt. Það er hins vegar mjög athyglisvert í umræðunni að enginn stjórnarliði hefur kvatt sér hljóðs fyrir utan formann efh.- og viðskn. sem talaði fyrir meirihlutaáliti og síðan eru nokkur andsvör í allri umræðunni. Þetta sýnir e.t.v. betur en margt annað þá málefnafátækt sem býr að baki frv. og það virðingarleysi gagnvart þeim einstaklingum sem þetta frv. snertir.

Stjórnarliðar sem hafa mikinn meiri hluta sjá enga ástæðu til að koma upp í ræðustól, verja frv. sitt, tala um hugsjónir sínar og þær hugmyndir sem frv. byggist á. Með þessari framgöngu lítilsvirða þeir Alþingi sem löggjafarsamkomu. Það er lagt fram stjfrv., það er keyrt í gegn án þess að þingmenn stjórnarliðsins sýni því þá virðingu við 2. umr. málsins sem er oft sú umræða sem er hvað efnismest því að þá liggja breytingartillögur fyrir, þeir taka á engan hátt þátt í þessu. Það verður einn stjórnarþingmaður sem talar í umræðunni fyrir utan hv. formann efh.- og viðskn., þ.e. fjmrh. sem mun tala á eftir.

Það er sem er e.t.v. mest gagnrýnisvert varðandi þetta frv. er ekki innihaldið, það er formið, það er hvernig þetta ber að, að það skuli vera sett löggjöf með þessum hætti án þess að reynt sé að leita samráðs og samstarfs um breytingar á löggjöf sem er 40 ára gömul. Með þessu athæfi hefur ríkisstjórnin brotið áratuga hefð í íslensku þjóðfélagi. Það er engin tilviljun að lögin eru 40 ára gömul og það er engin tilviljun að lögin á almenna vinnumarkaðinum eru 60 ára gömul. Menn hafa alveg þangað til þessi ríkisstjórn tók við völdum verið sammála um það hvaða ríkisstjórn sem var að þessum lagabálkum yrði ekki breytt nema gefið yrði nauðsynlegt ráðrúm til samstarfs og samráðs við þá vinnu. Það er enginn að segja með þessu að stéttarfélögin skrifi þann lagatexta sem endanlega verði að lögum. Alþingi hefur löggjafarvaldið og stéttarfélögin og verkalýðsfélögin vita það ósköp vel. En þau eiga skýlausan rétt á því að koma að undirbúningi lagasetningar sem varðar þau. Þetta gerir andstöðuna gagnvart þessu frv. einstaka því að gegn frv. hafa ekki einungis snúist allir stjórnarandstöðuþingmenn heldur gervöll verkalýðshreyfingin. Það eru vinnubrögðin, það er að setja löggjöf með þessum hætti sem eru fordæmanleg.

Annar gagnrýnisþátturinn í þessu frv. er vitaskuld efni þess. Það er vitað að með breytingum á löggjöf eins og þessum er verið að breyta samningsumgjörð og samningsumgjörðin markar vitaskuld niðurstöðu kjarasamninga. Í þessu frv. hefur ekki tekist að búa til það sem má kalla góða eða nýja starfsmannastefnu. Það er langt í frá. Ýmis atriði eru beinlínis bundin í kjarasamningum sem hefði átt að ræða við kjarasamninga. Þau hafa verið nefnd í umræðunni eins og um tímabundna ráðningu. Það er stefna frv. um hina lélegri ráðningarfestu og síðan ákvæðið um biðlaun og hæstv. fjmrh. hefur verið tíðrætt um hvílík ósanngirni það sé að menn séu á tvöföldum launum eins og kallað er, þ.e. við formbreytingu verði menn með biðlaun og njóti líka sinna eigin launakjara. Í umræðunni hefur verið rifjað upp að þetta er réttur sem er bundinn í kjarasamningum og verður vitaskuld ekki tekinn af án bóta. En það má velta fyrir sér hvort það sé betra eins og útfærsla frv. er að fólk getur verið á einföldum launum fyrir enga vinnu, hvort það sé betri aðferðafræði en þegar fjmrh. talar um tvöföld laun fyrir eina vinnu. Þetta vandamál er að koma upp í sambandi við fræðslustjóra víðs vegar um land eins og e.t.v. einhverjir kannast við. Vitaskuld þarf að skoða það og taka á þessum málum en það verður þá gert við samningaborðið.

Sömuleiðis hefur verið bent á að með þessu frv. er sköpuð óvissa um veikindarétt og fæðingarorlof, og hvort tveggja skiptir launþega mjög miklu máli. Það hefur verið nefnt að málskotsréttur er að hluta til tekinn úr sambandi gagnvart stjórnsýslulögum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem hafa verið gagnrýnd harðlega. Starfsöryggi er rýrt og starfsöryggi hefur hingað til verið metið til launa. Þess vegna segjum við að mörg af efnisatriðum frv. eiga ekki heima í slíkri löggjöf eins og hér er heldur við samningaborðið fyrir utan aðkomuna að málinu upphaflega. Það sem er hins vegar mjög alvarlegt efnislega í umræðunni er 47. gr. frv. þar sem að okkar mati og ýmissa virtra lögmanna er vegið að rótum stéttarfélaganna þar sem þeim sem eru utan stéttarfélaga er gefinn sérstakur réttur gagnvart viðsemjanda sínum. Í þessari grein endurspeglast sú hugsun sem býr að baki þessu frv. því að það er eitt, herra forseti, sem menn verða að hafa í huga, það er hugsun á bak við þetta frv. Þó að það sé illa unnið, hroðvirknislegt og ætti að setja margt út á efnistökin í frv., er ákveðin hugsun á bak við það. Þessi hugsun sem endurspeglast í stefnu ríkisstjórnarinnar á öðrum vígstöðvum kemur fram í því að setja einhliða löggjöf sem rýrir möguleika stéttarfélaga. Þessi löggjöf tekur á ýmsum kjarasamningsatriðum og hún vegur að starfsemi stéttarfélaganna eins og þau hafa starfað undanfarna áratugi. Ákveðin hugsun er fólgin í þessari stefnu og síðan geta menn gert upp við sig hvort þeir fylgja stefnunni eða ekki.

[15:15]

Það eru ýmis úrelt atriði sem eru lögfest í frv., sem eiga ekki heima lengur í lögum og þekkjast ekki á almennum vinnumarkaði. Þar má nefna yfirvinnuskyldu, skyldu að segja upp fólki í veikindum, framlengingu uppsagna um tiltekinn tíma. Allt eru þetta ákvæði sem eiga ekki heima í nútímalöggjöf. Sú umgerð sem er gerð um hina nýju stjórnun ríkisins í frv. hefur verið gagnrýnd mjög harðlega í umræðunni, sem gamaldags stjórnarhættir. Það eina sem er raunverulega gert í þessu frv. er að forstöðumönnum er falið meira vald varðandi yfirborganir en án eftirlits. Engin tilraun er gerð til að fagráðuneyti komi að með virkari hætti í stjórnsýslu ríkisins.

Yfirborgunarvald forstöðumanna hefur verið gagnrýnt harðlega í umræðunni. Engar reglur hafa verið settar um þetta mál og ég ætlast til þess að hæstv. fjmrh. gefi þá yfirlýsingu í umræðunni á eftir að hann muni leggja útlínur að þeim reglum sem ætlunin er að starfa eftir, ekki síðar en við 3. umr., best væri í nefndinni milli umræðna.

Í frv. er sömuleiðis gert ráð fyrir mikilli miðstýringu af hálfu fjmrn. varðandi alla stjórnarhætti í stað þess að reyna að byggja upp dreifstýrt fyrirkomulag. Breytingartillögur við frv. skila litlu. Þær breyta frv. í engum grundvallaratriðum og margoft hefur verið bent á í umræðunni að nær allar umsagnir eru mjög neikvæðar gagnvart frv. Ekki eitt einasta stéttarfélag sér eitthvað jákvætt við frv. eins og það er lagt upp af hálfu hæstv. fjmrh.

Það er ósátt um afgreiðslu málsins. Það var tekið út með ofbeldi daginn fyrir 1. maí. Þrátt fyrir að minni hluti efh.- og viðskn. gerði hvað hann gat til að fá meiri hlutann til að skoða málið eilítið betur og reyna að finna vissum þáttum annan og árangursríkari farveg var ekki neitt gert með þá hugmyndafræði og niðurstaðan er sú að hér verður væntanlega lögfest mjög hrátt frv. til að vinna eftir fyrir utan að þá er búið í fyrsta skipti í áratugi að breyta samningsumgerðinni einhliða. Ég vil vekja aftur upp hugmynd sem kom fram í 1. umr. málsins ef mönnum er svo annt um að fólkið fái að koma að þessari hugmyndafræði. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vakti máls á því hvort ekki gæti verið skynsamlegt að efni frv. eða frv. sjálft færi í ráðgefandi atkvæðagreiðslu hjá öllum félögum stéttarfélaga og öðrum samningsaðilum sem þetta mál varðar.

Það hefur komið fram og kom fram strax í upphafi hjá hv. formanni efh.- og viðskn. að hann óskaði eftir því að málið kæmi aftur til efh.- og viðskn. milli 2. og 3. umr. Það er ekki almennt að svo sé. Það er stundum gert, hvort hér búi undir sú hugun að menn vilji endurskipuleggja efni frv., taka e.t.v. ýmsa þætti út úr því eða hvort menn eru einungis að tala um að gera einhverjar smávægilegar breytingar á frv., t.d. hvað varðar gildistöku. Það er hlutur sem ég veit ekki. Hins vegar er rétt að vonast eftir því að sú harða gagnrýni sem hefur komið fram á þetta frv. hafi á einhvern hátt fest rætur hjá stjórnarliðum. Ég er ekki sérstaklega trúaður á það en ég held að það sé nauðsynlegt að menn sjái þá til hvernig málið komi frá nefndinni.

Herra forseti. Þetta frv. snýst ekki um tækni. Það snýst um pólitík og það endurspeglar stefnu ríkisstjórnar sem hefur mjög mikinn meiri hluta á Alþingi. Það er oft sagt að sérhver þjóð fái þá ríkisstjórn sem hún á skilið og það verður ekkert á móti mælt að á bak við þessa ríkisstjórn stendur mikill meiri hluti alþingismanna og við vitum einnig að samkvæmt könnunum nýtur ríkisstjórnin mikils fylgis meðal þjóðarinnar. Þetta eru leikreglur lýðræðisins sem við verðum að horfa til. Valdið er þeirra við að knýja fram frumvörp en þegar verið er að brjóta óskráð lög sem gilt hafa um áratuga skeið í sambandi við samskipti á vinnumarkaði gegnir öðru máli.

Það er auðséð af þessu frv. og af frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem var tekið út úr nefnd, einnig í ósætti í gærkvöldi, þá út úr félmn., að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir eru að ganga erinda vinnuveitenda í landinu. Stuðningur við þessa hugmyndafræði kemur einungis frá samtökum vinnuveitenda og það á við bæði þessi frumvörp, bæði þetta frv. sem við erum að ræða hér og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur.

Nú voru það ekki bara vinnuveitendur sem kusu þessa stjórnarflokka, Framsfl. og Sjálfstfl. Vafalítið kusu langflestir þeirra annan hvorn þessara flokka en það voru fjölmargir launamenn sem kusu þessa flokka. Hvort þetta leiðir til breytinga á næstu árum þegar menn sjá hve grímulaust þessir tveir flokkar koma núna fram fyrir alþjóð í útfærslu á stefnu sinni er óvíst. Það sem ég óska mér er að það renni upp fyrir þeim sem studdu og styðja Sjálfstfl. og Framsfl. hverra hagsmuna þeir gæta. Með þessu frv. eða frv. um stéttarfélög og vinnudeilur eru þeir ekki að gæta hagsmuna launafólks.

Heildarmyndin er líka nokkuð skýr því það eru ekki bara þessi tvö frumvörp sem við erum að ræða hér. Við sáum þetta við afgreiðslu fjárlaga í haust þegar margvíslega var gengið á réttindi og möguleika manna innan velferðarkerfisins og heilbrigðiskerfisins. Þar birtist einnig stefna ríkisstjórnarinnar. Við sjáum líka hvernig stefna ríkisstjórnarinnar hefur birst í skattamálum. Við erum einmitt að útfæra eða ræða mál með fjármagnstekjuskatt en útfærsla ríkisstjórnarinnar gengur fyrst og fremst út á það að opna mun betri möguleika til lægri skattlagninga fyrir hlutafjáreigendur í landinu. Það er því samræmi í stefnu ríkisstjórnarflokkanna. Hins vegar er athyglisvert í þessu að Framsfl., sem kenndi sig stundum á árum áður við vinstri stefnu og það að gæta hagsmuna launafólks, hefur gersamlega gleymt þessari stefnu af ásettu ráði. Það hefur oft komið fyrir að flokkar selji stefnu sína fyrir völd og þetta er e.t.v. það skýrasta dæmi sem maður man eftir hin síðari ár hvernig einn flokkur hefur kúvent í afstöðu sinni frá því fyrir kosningar og síðan eftir kosningar.

Afstaða Sjálfstfl. á ekki að koma mönnum á óvart þó svo honum hafi tekist að halda yfirbragði breiðs milliflokks. Það hefur og er að koma enn skýrar í ljós einmitt þessa dagana að þegar á reynir eru það fyrst og fremst einir hagsmunir sem hann ver með kjafti og klóm og það eru hagsmunir vinnuveitenda og það eru hagsmunir þeirra sem betur mega sín í þjóðfélaginu. Þetta á ekki í sjálfu sér að koma neinum á óvart ef menn skoða vandlega hvernig Sjálfstfl. hefur útfært stefnu sína. Hins vegar talar hann oft á mannamótum með öðrum hljóm og hefur gengið býsna vel í þeirri framsetningu gagnvart almenningi í landinu.

Herra forseti. Samþykkt þessa frv. er ávísun á átök. Ég minni á yfirlýsingu Ara Skúlasonar, framkvæmdastjóra ASÍ, í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann er spurður um það þegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur var tekið út úr nefnd og hann sagði einfaldlega það sem hann hefur margsagt og verkalýðshreyfingin öll. Það verður reynt til hins ýtrasta að brjóta þessi lög á bak aftur við næstu kjarasamningagerð. Það er alveg sama sjónarmið og heyrst hefur frá öllum opinberum starfsmönnum varðandi þessa lagasetningu. Það er því augljóst að ríkisstjórnin hlustar ekki neitt á þau varnaðarorð sem bæði stjórnarandstæðingar og forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa látið falla að hér sé verið að kveikja elda sem menn munu e.t.v. ekki kunna að slökkva í upphafi næsta árs. Það er e.t.v. það átakanlegasta varðandi allt þetta mál að með þessum frumvörpum og með þessari keyrslu ríkisstjórnarinnar gegn öllum félagsbundnum þegnum í verkalýðshreyfingunni erum við mjög líklega að stefna þeim stöðugleika í hættu sem við höfum búið við undanfarin ár. Þetta mál hefur dregið skýrar línur bæði í þingsölum og úti í þjóðfélaginu. Þetta snýst um þá pólitík hvort menn vilja breyta löggjöf sem varðar launafólk, hvort menn vilja breyta þeim í samráði við aðila eða ekki. Stjórnarandstaðan hefur sagt: Það er grundvallaratriði að menn setja ekki lög eins og hér á að fara að gera. Ríkisstjórnin segir: Við ætlum að beita þeim meiri hluta sem við vorum kosnir til fyrir rétt rúmu ári. Stjórnarandstæðingar og verkalýðshreyfingin segja: Það er ekki hægt að setja löggjöf á miðju samningstímabili sem varða atriði sem tengjast kjarasamningum beint. Stjórnarflokkarnir segja: Okkur er nákvæmlega saman um þetta. Við skulum lögfesta það sem við viljum varðandi kjarasamningana og komið þið síðan og eigið þið við okkur þegar samningar eru lausir.

Stjórnarandstöðuflokkarnir og verkalýðshreyfingin hafa bent á að með þessum vinnubrögðum er verið að efna til stríðs í landinu og það er víst það síðasta sem við þurfum á að halda. Ríkisstjórnarflokkunum er nákvæmlega sama um þetta og þeir segja: Ef það verður stríð þá höfum við mátt til þess með vinnuveitendum sem hafa núna betri möguleika til útfærslu stefnu sinnar, þá höfum við alla burði til að vinna það stríð.

[15:30]

Herra forseti. Það eru mjög skýrar pólitískar línur í þessu máli. Þær hafa dregið fram hina raunverulegu stefnu Sjálfstfl. í útfærslu sem Framsfl. drattast til að fylgja vegna valdanna sem hann fékk fyrir tæpu ári. Hið óvanalega er að allir stjórnarandstöðuflokkarnir eru algerlega samstiga í mati á þessari stöðu og á þeim aðgerðum og tillögum og áherslum sem ber að grípa til í kjölfar þessa. Það má vera, herra forseti, að samþykkt þessa frv. og sú aðferðafræði, sú stríðsyfirlýsing sem ríkisstjórnin leggur upp með, muni skerpa pólitískar línur enn frekar á næstu mánuðum og næstu tveimur árum þannig að úr þessu verði pólitískar breytingar næst þegar verður kosið til Alþingis. Það má vera að verið sé að búa til nýja mynd af stjórnmálum framtíðarinnar.

Herra forseti. Mitt mat er það að við höfum ekki á þessu þingi rætt mál sem snúast um meiri grundvallaratriði en þetta frv. og það frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem við eigum eftir að taka til umræðu. Þegar málin snúast um stjórnmál þá taka menn afstöðu samkvæmt hugsjónum sínum og lífsskoðun. Þeir sem fylgja aðferðafræði ríkisstjórnarinnar varðandi yfirgang og misbeitingu á þeim meiri hluta og þá hagsmuni sem hún vill verja fylgja henni þá. Og almenningur verður þá að fylgja þeirri stefnu þegar hann hefur tækifæri til þess og það tækifæri fær almenningur ekki fyrr en í kosningum. Þetta mál skapar því skil á milli stjórnar og stjórnarandstöðu þannig að ekki verður betur gert og það er sannfæring okkar varðandi þetta mál ef ríkisstjórnin dregur það ekki til baka sé hún búin að efna til óvinafagnaðar um næstu áramót og að þar verða veitt sár sem gróa hugsanlega seint.