Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 15:33:30 (5987)

1996-05-14 15:33:30# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[15:33]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. gengur í þingsalinn (Fjmrh.: Ég hef hlýtt á umræðuna.) --- hann hefur hlýtt á umræðuna, segir hæstv. fjmrh. og ég leyfi mér að óska eftir því að formaður efh.- og viðskn. hv. þm., Vilhjálmur Egilsson, verði einnig viðstaddur umræðuna. (Gripið fram í: Hann er að hlýða líka.)

(Forseti (SB): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson komi í salinn.)

(Fjmrh.: Þetta er nú bara besta ræða sem ég hef hlustað á lengi.) Þessi orð hæstv. fjmrh. sem segir að þögnin sé það besta og ljúfasta í eyrum sínum segja kannski meira en flest annað. Auðvitað er það einkennandi fyrir það samráð sem hann hefur viljað viðhafa um þessi frv., það er að menn kunni að þegja, kunni að skammast sín og þegja. Þess vegna er það besta ræða sem hæstv. fjmrh. hefur heyrt þegar þingmaður kemur í ræðustólinn og þegir en ég ætlast til þess að þeir þingmenn sem eru ábyrgir fyrir því að flytja þetta mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í þinginu séu viðstaddir umræðuna. Þess vegna mun ég ekki hefja mál mitt fyrr en hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er kominn í þingsalinn. Og hér gengur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson inn í þingsalinn. Mig langar til að byrja á því að segja að nú fer senn að ljúka 2. umr. um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þetta hefur verið mjög fróðleg umræða. Frv. er flókið á ýmsa lund. Það er tæknilega flókið og þeir þingmenn sem hafa tjáð sig um þetta frv., margir í löngu máli, hafa þurft að fara mjög rækilega í saumana á því og hefur það kostað mikla vinnu. Sú vinna hefur verið þeim mjög lærdómsrík. Það er samdóma álit þeirra eftir yfirlestur og athuganir í sambandi við frv. að þeir trúi vart sínum augum og eyrum, svo slæmt sé þetta frv. Í fyrsta lagi er þetta hrákasmíð hin versta. Það sést m.a. á þeim breytingum sem frv. hefur tekið frá því það kom fyrst fram fyrir fáeinum vikum og síðan á milli 1. og 2. umr. hér í þinginu. Þar hefur verið hringlað með réttindakerfi opinberra starfsmanna. Einn daginn var veikindaréttur ekki til, fæðingarorlofið var ekki fyrir hendi, stórir hópar, þúsundir einstaklinga höfðu verið sviptir samningsrétti. Annan daginn var búið að kippa þessu í liðinn, fæðingarorlof, veikindaréttur voru komin inn bráðabirgðaákvæði í frv. Það hefur verið sýnt fram á í umræðunni á hvern hátt þetta lagafrv. stangast á við samninga. Það raskar kjörum sem kjarasamningar hvíla á. Málsmetandi aðilar í þjóðfélaginu hafa sýnt fram á að ýmis atriði í þessu frv. stangast á við stjórnarskrá landsins og ýmsar þær skuldbindingar sem Íslendingar hafa gefið á erlendum vettvangi. Reyndar hefur mér sýnst það vera einna helst til þess að raska sálarró ráðamanna hér, eitthvað sem stríðir gegn alþjóðlegum skuldbindingum, því að við þekkjum það vel úr sálarlífi þeirra að það er líklegast til að valda þeim áhyggjum sem gæti komið upp á fínum fundum í útlandinu.

Í umræðunni hefur verið sýnt fram á það að verið er að hafa réttindi af fólki. Það er verið að hafa af mönnum áunnin réttindi. Við skulum minnast þess að það var hæstv. forsrh. sem lýsti því yfir í umræðum um lífeyrismálin að ekki kæmi til greina að skerða áunnin réttindi. Það er gert með þessu frv. sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fram fyrir hönd ríkisstjórnar sama forsrh. (Gripið fram í: Er þetta satt?) Biðlaunaréttur eru áunnin réttindi. Biðlaunaréttur fyrir starfsmann sem starfað hefur í fimm ár er ekki sá sami og fyrir starfsmann sem starfað hefur í 20 ár. Hvers vegna? Vegna þess að hinn síðari hefur áunnið sér meiri réttindi og fyrir hæstv. forsrh., sem vill að þjóðin trúi því að orð hans séu dýr, standast yfirlýsingar hans ekki ef þetta frv. verður gert að lögum vegna þess að með þessu frv. er verið að hafa af fólki áunnin réttindi. Hins vegar hefur verið reynt að blekkja fólk í umræðunni. Það hefur komið fram í máli hæstv. fjmrh. og einnig í máli hv. þm., formanns efh.- og viðskn., að ekki sé verið að skerða biðlaunaréttinn svo dæmi sé tekið, það er ýmsu af öðru að taka. Staðreyndin er sú að nýráðnir starfsmenn njóta ekki þessara réttinda og þeir sem eru þegar ráðnir munu búa við rýrð réttindi. Nýráðnir starfsmenn, aðrir en embættismenn, koma ekki til með að njóta þessara réttinda og þeir sem þegar eru í starfi munu búa við rýrð réttindi. Það er verið að hafa af fólki þessi réttindi.

Hæstv. fjmrh. hefur sagt að það sé ekki réttlætanlegt að greiða tvöföld laun fyrir eina vinnu. Honum virðist e.t.v. betra að greiða einföld laun fyrir enga vinnu. Hvað þýðir breytingin á biðlaunareglunum? Nú fá ríkisstarfsmenn biðlaun sem bætur fyrir þá röskun sem hlýst af því að missa stöðu hjá ríkinu vegna þess að ríkið ákvað að leggja viðkomandi stöðu niður enda fái viðkomandi starfsmaður ekki sambærilegt starf hjá ríkinu. Biðlaunin nema föstum launum í sex eða tólf mánuði eftir starfstíma. Biðlaun skerðast ekki þótt ríkisstarfsmenn fái vinnu annars staðar á biðlaunatímanum. Þannig eru reglurnar núna. Ætlunin er að breyta þessu. Ætlunin er að biðlaunarétturinn skerðist þannig að hver króna sem viðkomandi starfsmaður kann að afla hjá öðrum á biðlaunatímanum komi að fullu til frádráttar biðlaununum. Með öðrum orðum á að setja fólk í þá stöðu að afsala sér biðlaunarétti sínum ef það þiggur laun annars staðar á biðlaunatímanum. Tökum dæmi af ríkisstarfsmanni sem hefur 120 þús. heildarmánaðarlaun, þar af 80 þús. kr. í föst laun. Þessi maður á að fá 80 þús. kr. biðlaun á mánuði. Ef þessi maður fær aðra vinnu með 80 þús. kr. heildarlaun á mánuði eftir að hafa misst starf sitt hjá ríkinu þá missir hann öll biðlaunin. Þetta gerist þótt hann tapi þriðjungi launa sinna við að taka við nýju starfi. En hvernig á að framkvæma þetta í reynd? Biðlaun eru greidd mánaðarlega fyrir fram. Þau á að skerða um tekjur sem fást annars staðar. Á að láta þetta fólk senda launaskrifstofu ríkisins mánaðarlegar upplýsingar um tekjur sínar hjá öðrum í hverjum mánuði? Hvað ef viðkomandi er atvinnulaus hálfan biðlaunatímann en nær tvöföldum tekjum hinn hluta tímans? Augljóst er að allar reglur vantar um hvernig biðlaunauppgjörin skuli framkvæmd og líka augljóst að launaskrifstofa ríkisins hefur enga möguleika til að afgreiða þessi mál eðlilega. En þá verður því eflaust svarað hér á eftir að reglurnar verði settar síðar. Það verði gengið frá þessu síðar. Það má færa rök fyrir því að þessi breyting gæti verkað vinnuletjandi. Að þjóðfélagið missti af starfsorku einstaklinga sem fara ekki út á vinnumarkaðinn til þess að missa ekki biðlaunaréttinn. Fólk sem missir vinnu sína við kerfisbreytingar hjá ríkinu á kost á biðlaunum en mundi missa af þeim ella ef það fengi hugsanlega einhverja ótrygga vinnu. Skynsamlegar reglur hvetja menn til þess að vinna en ekki hið gagnstæða.

[15:45]

Það er hætt við því að þessi breyting gæti orðið til þess að menn reyni að fara fram hjá reglunum. Að reynt yrði að skrá laun á aðra, svört vinna yrði meira freistandi og þar fram eftir götunum. Ég vil einvörðungu vekja athygli á þessum þáttum. Ég vil vekja athygli á því að hér eru ófrágengnir hlutir. Reglurnar eru ekki til, óhnýttir endar.

Ég vil vekja athygli á öðru í þessu sambandi vegna þess að hér hefur hver þingmaðurinn komið upp á fætur öðrum og sagt að þeim finnist þetta ranglátt kerfi. Menn hafa reynt að slá ryki í augun á fólki og sagt að þetta sé svo ranglátt kerfi að það verði að afnema það. Við kunnum öll að hafa hugmyndir um hvað er réttlátt og hvað er ranglátt. Við kunnum öll að hafa hugmyndir um hvað er réttlátt og hvað er ranglátt varðandi biðlaun. En það sem við ættum að geta sameinast um hér er að það er ranglátt að vanvirða samninga. Það er ranglátt að hafa réttindi af fólki einhliða með stjórnvaldsaðgerð eða lagasmíð með þeim hætti sem verið er að reyna að keyra í gegnum þingið. Eins og ég hef vakið athygli á áður ef við ætlum að fara út í þá umræðu hér á annað borð að tala um réttlæti og ranglæti þá skulum við tala um SR-mjöl. Þá skulum við tala um hálfan milljarð sem vildarvinum ríkisstjórnarinnar var færður á silfurfati. Þá skulum við líka tala um fyrirhugaða einkavæðingu Pósts og síma, ég held að hann sé kominn á dagskrá hér í næstu viku, eftir að búið er að hafa réttindin af starfsmönnum þar. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa leyft sér að fullyrða að ekki sé verið að breyta þessum réttindum. Það eru ósannindi og menn eiga ekki að leyfa sér slíkt úr ræðustól á Alþingi Íslendinga.

Enda þótt þetta lagafrv. sé hin versta hrákasmíð þá er það því miður svo að það er ekki vanhugsað að öllu leyti, síður en svo. Vegna þess að markmiðin eru mjög skýr. Markmiðin með þessari lagasmíð eru mjög skýr. Það er þess vegna engin tilviljun að fæðingarorlofið og veikindarétturinn datt út í fyrstu umferð. Það er engin tilviljun vegna þess að hugmyndafræðin, sem þetta byggir á, gerir ráð fyrir að réttindi starfsfólks séu í samningum. Þau séu samningsbundin, hvorki lögbundin né í reglugerðum. Að vissu leyti er þetta rökrétt. Ef á annað borð farið er með kjarasamninga inn í einstakar stofnanir er það að vissu leyti rökrétt ef gefa á tiltekinni stofnun svigrúm til að semja við starfsfólkið með því að færa valdið og ákvarðanir þangað inn er rökrétt að þær fái ekki jafnframt leyfi til að skuldbinda þriðja aðila sem væri ríkið. Þetta er rökrétt hugsun að vissu leyti. En þessi hugsun felur í sér miklar hættur þegar við búum við ríkisstjórn sem hefur það yfirlýsta pólitíska markmið að skerða þessi sömu réttindi. --- Ég skal gera hlé á máli mínu þangað til hæstv. fjmrh. kemur hingað og hlýðir á mitt mál. Ég skal uppfræða hæstv. fjmrh. en rök koma mönnum kannski ekki við eða skipta kannski ekki máli. (Fjmrh.: Ég hlustaði.) Skipta ekki nokkru máli. Ég hef það mikla trú á þingræðinu og á manneskjunni að dropinn komi til með að hola steininn. Jafnvel harðasta grjót. Þótt hæstv. fjmrh. muni takast að keyra þetta í gegnum þingið er sú barátta nú að hefjast. Ég segi hefjast vegna þess að þetta markar upphaf en ekki endi. Menn skulu ekki ofmetnast af því eða draga af því rangar ályktanir þótt mönnum takist að keyra með valdboði og þingmeirihluta frv. og breytingar sem ganga gegn yfirlýstum vilja þeirra sem þessi lög eiga að taka til.

Ég var kominn þar í röksemdafærslunni sem ég sagði að sú ákvörðun að færa réttindi starfsmanna inn í kjarasamninga væri rökrétt á vissan hátt ef menn ætla að valddreifa öllum samningum. Hún felur hins vegar í sér mjög miklar hættur þegar menn búa við ríkisvald og ríkisstjórn sem hefur það yfirlýsta markmið að rýra þessi réttindi. Hæstv. fjmrh. hefur þannig lýst því yfir, og aðrir fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar, að til standi að samræma réttindi til fæðingarorlofs. Við höfum öll tekið undir það einum rómi, hvar sem við stöndum, að þetta sé gott markmið svo fremi sem menn samræma upp á við. Svo fremi sem þetta sé gert til að bæta réttindi en ekki hafa af réttindi. En það hefur fylgt með yfirlýsingum hæstv. fjmrh. að það eigi að samræma en það eigi ekki að koma fleiri krónur til sögunnar. Hvað þýðir það? Það þýðir réttindaskerðingu. Það er ávísun á réttindaskerðingu. Þess vegna óttast menn þessar kerfisbreytingar undir handarjaðri ríkisstjórnar sem hefur það yfirlýsta pólitíska markmið að skerða þessi réttindi.

Ég hef fylgst mjög vel með þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. Sérstaklega hef ég hlustað eftir yfirlýsingum hæstv. fjmrh. og lagt mig sérstaklega eftir andsvörum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, formanns efh.- og viðskn. Ég er búinn að bíða lengi og því miður árangurslítið eftir að heyra röksemdir. Það er kannski það erfiðasta við þessa lagasmíð alla og þá umræðu sem fer fram að við fáum ekki rökin. Við fáum bara að vita hverjar ákvarðanir þeir hafa tekið. Annað er líka slæmt í þessari umræðu. Það verður að segjast eins og er að hún er óheiðarleg. Ég er búin að taka dæmið um biðlaunin og réttindin. Nú langar mig að taka dæmið um það sem er þungamiðjan í þessum kerfisbreytingum, það er forstjóravaldið. Þar hafa samtök launafólks einum rómi og allir þeir sem hafa tjáð sig um þetta mál af hálfu stjórnarandstöðunnar á þingi lýst áhyggjum yfir því að kjarasamningar sem settir eru inn í einstakar stofnanir án þess að tryggt sé að samið sé um kjörin á félagslegum grunni muni leiða til aukins kjaramisréttis. Það hefur verið vísað til kannana sem hafa verið gerðar um þetta efni. Menn hafa fetað sig inn á þessa braut í Svíþjóð, þeir gerðu það fyrir nokkrum árum þegar hægri stjórnin sat þar við völd. Þá voru gerðar kannanir, það var skoðað hvaða afleiðingar þetta hefði haft í för með sér. Launamunur jókst, munur milli hárra og lágra varð meiri. Munur milli karla og kvenna varð meiri vegna þess að það sem gerðist var að menn hleyptu markaðslögmálunum inn í stofnanirnar og markaðurinn mismunar. Ef maður ætlar að draga úr þeirri mismunun þá mega menn ekki afsala sér tækjunum til þess. Þannig þarf að taka ákvörðun um að draga úr launamun karla og kvenna. Það verður að taka ákvörðun um það. Síðan þarf að taka ákvörðun um að laga það eftir tilteknum reglum. Og það er þar sem þessi tiltekna umræða verður svo óheiðarleg því að sagt er: Við munum setja reglur sem koma til með að tryggja þetta. Hvar eru þessar reglur? Þessi umræða getur ekki haldið áfram fyrr en við þekkjum þessar reglur. Við verðum að fá að vita hverjar þessar reglur eru. Það er vísað í einhverjar almennar reglur um að það megi ekki mismuna kynjunum, körlum og konum. Það er þegar í landslögum. En hverjar eru reglurnar? Hvers vegna fáum við ekki að sjá reglurnar? Auðvitað fáum við ekki að sjá reglurnar vegna þess að hugmyndafræðin byggir á því að forstjórinn ráði og hann fái vald yfir fólki sínu og stofnun sinni og ráðstöfun þeirra fjármuna sem hann fær í hendur. Eitt þeirra tækja sem hann á að fá í hendur er launakerfið. Það er mergurinn málsins. Þetta er hugsun og hugmynd út af fyrir sig en hið óheiðarlega í umræðunni er það að menn láta í veðri vaka að settar verði reglur sem tryggi að þessi munur komi ekki til með að aukast. Það er hið óheiðarlega í umræðunni. Hæstv. fjmrh. sagði hér fyrr í dag í andsvari við mjög góðri, fróðlegri og yfirgripsmikilli ræðu sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir flutti að launakerfið væri afar slæmt og það þyrfti að finna leiðir til að bæta það. Ég held að við séum öll sammála því að launakjör á Íslandi eru bágborin og slæm og það þarf að bæta þau. En við þurfum að vita hvert skal halda svo við gerum ekki eitthvað út í loftið. Og þetta ,,eitthvað`` sem menn eru að gera undir forustu hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur sannarlega annars staðar leitt til þess að launamunur hefur aukist milli karla og kvenna, hárra og lágra. Á þá ekki að staldra við? Það er þess vegna sem fylgst verður með atkvæðagreiðslu um frv. á morgun. Það er þess vegna sem þjóðin öll mun fylgjast með atkvæðagreiðslu um þetta frv. á morgun. Vegna þess að það er ábyrgðarhluti að innleiða hér kerfi sem sannanlega hefur skapað mismunun og ranglæti alls staðar þar sem það hefur verið reynt.

Nú mun hæstv. fjmrh. vafalaust koma í ræðustól á eftir og endurtaka fyrir okkur að það hafi aldrei staðið á ríkisstjórninni að hafa samráð. Eflaust munum við heyra það. Við því vil ég aðeins segja eitt. Ef henni er þar einhver alvara þá tekur hún þetta frv. út úr þinginu og sest niður með hlutaðeigandi aðilum og hefur samráð. En ég skal trúa mönnum fyrir því að til að taka slíka ákvörðun þarf stóra stjórnmálamenn með sterk bein. Það þarf stóra menn til að bakka. Það þarf stærð til að sýna víðsýni. Það er auðvelt að vera þröngsýnn og smár. Það er auðvelt að nota valdið. Það er auðvelt. En það er ekki til farsældar. Og þegar menn síðan hamra á klisjunum um nútímavæðingu þá spyrja menn: Er það nútímavæðing að viðhalda í lögum ákvæði sem skyldar fólk til að vinna yfirvinnu? Er það nútímavæðing? Nú bregður svo við náttúrlega þegar komið er upp með þessi efni að þá segja þeir að þetta hafi verið í einhverjum gömlum lögum, sömu menn og segjast vera að nútímavæða allan lagabálkinn. Er það nútímavæðing að svipta einstaklinga og hópa samningsrétti og kefla þá síðan á höndum og fótum og múlbinda, svipta þá málfrelsinu, að setja í lög að brot á 40. gr. frv. geti varðað alvarlegum viðurlögum, þar sem segir að embættismönnum sé óheimilt að efna til, stuðla að eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum? Þetta er hópur sem hefur fjölgað í og það er samkvæmt geðþótta\-ákvörðun stjórnvalda hverjir lenda þar. Er það nútímavæðing að setja menn í þennan flokk og segja síðan að brot á þessum ákvæðum um að hafa afskipti af kjaradeilum eða taka þátt í umræðu um kjaramál, varði fésektum nema mælt sé fyrir um þyngri refsingu í öðrum lögum? Er þetta nútímavæðing? Er það nútímavæðing að setja í lög sérstakt ákvæði sem styrkir stöðu þeirra sem kjósa að standa utan verkalýðsfélaga? Er það nútímavæðing? Þeir sem þannig hugsa hafa ekki farið dagavillt, þeir hafa ekki farið áravillt, þeir hafa farið aldavillt. Þetta eru menn og ríkisstjórn sem ætlar að halda aftur í aldir. Þess vegna hafa menn talað um leiftursókn til fortíðar. Þeirri leiftursókn hefur verkalýðshreyfingin á Íslandi hafnað. Ég segi að sú samstaða sem er að myndast í samfélaginu á meðal launafólks og hér í þingsal, markar upphaf en ekki endi.