Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:03:23 (5988)

1996-05-14 16:03:23# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:03]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. vakti athygli á því að það hefðu verið gerðar allmargar breytingar á frv. í meðförum þingnefndarinnar. Frv. hefur þess vegna farið batnandi eins og alvanalegt er um stjfrv. Ég álít að að þeim breytingum gerðum sem búið er að ákveða eða leggja til af hálfu meiri hluta efh.- og viðskn. og síðan það sem fyrirhugað er, muni leiða til þess að með þessu frv. hafi verið myndaður góður grunnur að framtíðarsamskiptum milli ríkisvaldsins og stéttarfélaga starfsmanna. Ég hygg að ekki sé verið að breyta neinu sem verið stríðir gegn stjórnarskrá eða skuldbindingum samkvæmt samningum við önnur ríki. Að sjálfsögðu er hverjum sem er heimilt að láta á það reyna fyrir dómi en ég hygg að þeim fjármunum sem í það mundu fara yrði á glæ kastað.

Þingmaðurinn rakti hér í nokkru máli skoðanir sínar á þeim takmörkunum sem verið er að gera á biðlaunaréttinum. Það var í sjálfu sér rétt með farið hvaða breytingar verið er að gera. Ég tel að þessar breytingar séu skynsamlegar. Ég tel líka að þær séu þess eðlis að þær eigi mikinn hljómgrunn meðal mikils meiri hluta þjóðarinnar.

Ég ætla ekki að halda því fram að hv. þm. sé að reyna að blekkja fólk með sínum ræðuhöldum. Hins vegar held ég að hann sé að vekja upp óþarfa tortryggni og hann sé að hræða fólk að óþörfu. Ég held líka að þegar sumarið er nú komið fyrir alvöru og þegar búið er að samþykkja þessi frv. hér og menn fara að líta fram á veginn, að þá muni upplitið á hv. þm. batna og fólk muni telja þetta hið besta mál.