Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:06:02 (5989)

1996-05-14 16:06:02# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Hér er um það bil að ljúka tel ég a.m.k. í dag eða á næstu mínútum nokkuð langri umræðu. Mig langar til gamans kannski meira og þó til fróðleiks í upphafi að nefna það að þessi umræða hefur líklega verið ein sú ef ekki sú allengsta sem hefur átt sér stað í þingsölum. Hv. þm. Svavar Gestsson talaði fyrripart þessa dags, upp úr miðnætti í gærkvöldi og minnti okkur sjálfstæðismenn á að við hefðum í stjórnarandstöðu slegið öll met með málþófsumræðu um umhverfismál. (ÖS: Það var sjálfsagt mál.) Nú fletti ég upp í þingtíðindum og taldi mínúturnar sem þá var talað. Það voru sex umræður í því máli, (Gripið fram í: Páll sá bara tvo á Lækjartorgi.) þrjár umræður í efri deild og þrjár umræður í neðri deild. Samtals töluðu menn í 26 klukkutíma og 50 mínútur. (SvG: Í því því máli. Að stofna umhvrn.) Þegar það var verið að stofna umhvrn. Það var þetta málþóf sem þá var talað um. (SvG: Þegar þið fóruð aldavillt.) Í 2. umr. einni (Gripið fram í: Hvað þá hefði það verið annað mál?) Í einni umræðu nú, 2. umr. hafa menn talað í rúma 34 klukkutíma. En eins og ég hef sagt áður í umræðunni er talið að ræðuhöld á viku hverri að meðaltali í þinginu séu 17 klukkutímar. Þannig að þessi 2. umr. jafngildir tveggja vikna umræðum í þinginu að meðaltali. Þetta er sagt hér ... (Gripið fram í: Bíddu eftir 3. umr.) (Forseti hringir) Ég bið nú hv. stjórnarandstæðinga (SvG: Viltu meira?) aðeins að róa sig vegna þess að þetta er sagt að því gefna tilefni að hv. þm. í gærkvöldi, kannski meira til gamans og fróðleiks, var að benda mér á að þessi ræðuhöld núna væru smámunir miðað við það hvernig staðið var að umræðunum um umhvrn. á sínum tíma. Ég bið menn að taka þetta ekki öðruvísi en þetta er sagt. Þetta er sagt kannski til gamans af því að stundum muna menn ekki nákvæmlega mælikvarðan þegar þeir eru að bera saman hluti.

Í þessari umræðu hafa mörg ólík sjónarmið komið fram eðlilega. Umsagnir sem eru óvenjulega margar í þessu máli hafa verið kynntar mjög rækilega af hálfu hv. stjórnarandstæðinga sem margir hafa tekið til máls í umræðunum. Formaður efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og sá sem hér stendur hafa reynt að svara í andsvörum nokkrum spurningum sem til okkar hefur verið beint. En sjálfsagt er það nú svo að ekki hefur öllu verið svarað. Það er ljóst og því hefur verið lýst yfir af formanni nefndarinnar að málið gengur nú til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég tel afar eðlilegt að nefndin kanni rækilega fram komin sjónarmið sem hefur verið lýst í umræðunni. Það er augljóst að breyta þarf frv. umfram það sem gert er ráð fyrir í þeim breytingartillögum sem fluttar hafa verið við 2. umr. málsins. Af þeirri ástæðu að ég tel að varla gefist tími til að afgreiða frv., svokallaðan bandorm, sem er fylgifrv. með þessu frv. Það þýðir að sjálfsögðu að breyta þarf frv., ekki síst 22. gr. sem fjallar um embættismenn, hverjir skulu verða embættismenn og afmarka það betur þannig að það sé alveg kristaltært hverjir teljist til embættismanna þar til svokallaður bandormur hefur fengið endanlega afgreiðslu en það verður varla fyrr en á næsta þingi. Þetta segi ég hér vegna þess að það mun áreiðanlega skýrast betur í nefndarstarfinu á milli funda hvernig að þessu verður staðið.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram í lok umræðunnar vegna þess að ég hygg að það sé eðlilegra að loknu því starfi sem nefndin á eftir að láta fara fram, að í 3. umr. komi þau viðhorf fram og þá er hægt að svara þeim fyrirspurnum betur sem til mín hefur verið beint í þessari umræðu enda kunna mál að skýrast ef gefið er út framhaldsnefndarálit. Og nýjar breytingartillögur koma fram sem skýra munu sumt af því sem hv. stjórnarandstæðingum hefur leikið forvitni á að vita.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ástæðulaust þess vegna fyrir mig á þessari stundu að hafa fleiri orð um þetta mál. En mér er ljóst að 3. umr. er eftir og þá gefst að sjálfsögðu enn á ný tækifæri til þess að fjalla um málið og skýra efni þessa frv. umfram það sem tekist hefur í 2. umr. málsins.