Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:12:46 (5990)

1996-05-14 16:12:46# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. á einstakt lof skilið fyrir alveg sérstaka ósérhlífni við að verja alveg einstaklega vondan málstað. Hér hefur hann setið samfleytt í 35 klukkustundir að því er hann hefur sjálfur reiknað út og haft engan sér til liðsinnis nema hinn vaska þingmann, hv. þm. Vilhjálm Egilsson. Eitt hefur vakið athygli mína og annarra þingmanna. Þessir tveir þingmenn stjórnarliðsins hafa staðið algerlega einir í vörninni. Það hefur ekki einn einasti þingmaður samstarfsflokksins látið sjá sig í ræðustól en núna hafa þau sögulegu tíðindi gerst að þrír þingmenn Framsfl. eru komnir í salinn. Enginn þingmaður Framsfl. hefur lýst skoðun sinni úr þessum ræðustóli. Enginn þingmaður Framsfl. hefur kvatt sér hljóðs til andsvars. Enginn þingmaður Framsfl. hefur lýst skoðun sinni á málinu. Enginn þingmaður Framsfl. hefur sýnt að hann er maður til að segja hér í stólnum það sem þeim bersýnilega finnst öllum, þ.e. að þeir dauðskammast sín fyrir aðild að þessu máli. Og ég spyr hinn vaska hæstv. fjmrh. Þykir honum það ekki nokkuð sárt og talsverður áfellisdómur, ekki yfir honum heldur yfir samstarfsflokknum, Framsfl., að hann hefur engan stuðning fengið af honum við að verja þetta mál?