Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:17:43 (5993)

1996-05-14 16:17:43# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:17]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er heiður að svara fyrir Framsfl. Hins vegar vil ég taka undir það sem hér hefur verið kallað fram í að það er auðvitað ekki eðlilegt að beina þessu til mín, að nota tímann til þess að skamma aðra hv. þingmenn sem ekki geta veitt andsvar í þessari umræðu. (ÖS: Þeir geta komið sér á mælendaskrá. Menn eru búnir að bíða eftir því sólarhringum saman.) Þá á hv. þm. eins og ég veit að hann hefur gert fyrr að vekja athygli á því í sinni ræðu. Það hefur hann gert og ekki fengið önnur svör en þau að hv. þingmenn Framsfl. eins og þingmenn Sjálfstfl. virðast vera harla ánægðir með það að fjmrh. og formaður efh.- og viðskn. sitji fyrir svörum fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna.

Ég vil einungis segja að það hefur reyndar komið fram og mun koma betur fram þegar hæstv. félmrh. ræðir hér sín mál að það hefur auðvitað verið haft samráð og samstarf við verkalýðshreyfinguna um þessi mál. Það er hins vegar (Gripið fram í.) ljóst og það liggur fyrir að það er ekki samstaða á milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar í þessum málum. (ÖJ: Það hefur ekkert samráð verið haft.)

Varðandi þetta mál sem hér er til umræðu vegna frammíkallsins, þá vil ég bara enn einu sinni --- af því að hv. þm. bað nú eiginlega um það í sinni ræðu áðan --- þá skal ég enn þá einu sinni (ÖS: ... í andsvari.) Ég veit það. Ég er ekki í andsvari við hann en hann kallar fram í og þess vegna er ástæða fyrir mig að ítreka það enn á ný að það var farið af stað með samráð. Því miður var það ekki eins mikið og ég hafði ætlað vegna þess að hv. þm. og samtök hans kusu að fara þá leið að fara gegn frumvarpsdrögunum. (ÖJ: Kusum lýðræði gegn einræði.) Hv. þm. getur kallað fram í. Það verður væntanlega fært til bókar. En þetta átti nú að vera andsvar við andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. (Gripið fram í.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að hefja ekki efnislegar umræður í andsvari.)