Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:25:12 (5997)

1996-05-14 16:25:12# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:25]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að kvitta fyrir nokkur orð, nokkrar kveðjur sem hæstv. fjmrh. flutti mér í svokallaðri svarræðu sinni áðan og láta það koma fram að það er auðvitað nokkuð ljóst að það fer hér fram atkvæðagreiðsla um þetta mál á morgun. Um tvöleytið á morgun verður atkvæðagreiðsla og eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á, verður fylgst með henni. Það verður fylgst með því hvernig menn greiða atkvæði, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu og það skiptir auðvitað miklu máli.

Þegar sú atkvæðagreiðsla hefur farið fram og þegar það hefur komið fram hvernig t.d. hv. framsóknarmenn greiða atkvæði, en þeir hafa þagað alla umræðuna, fer málið til 3. umr. Eins og kunnugt er er meiningin að það fari til nefndar á ný. Það hefur komið fram í ræðu hæstv. fjmrh., sem er mjög merkilegt að hann viðurkennir, að málið sé svo illa á vegi statt að ekki sé hægt að halda því áfram óbreyttu. Það er mjög mikil viðurkenning og ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá hreinskilni að láta það koma fram að hann viðurkennir að ekki sé hægt að halda málinu áfram öðruvísi en að breyta því verulega.

Þau rök sem hæstv. fjmrh. flytur í þessu máli eru auðvitað alveg nægileg til þess að taka málið út af borðinu á þessu þingi og hefjast síðan handa á nýjan leik næsta haust eftir að fram hafa farið viðræður um samtök launafólks, þau sem hlut eiga að máli. Í því sambandi vil ég sérstaklega nota þetta tækifæri til að taka undir hugmynd sem var hreyft af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Ágústi Einarssyni í þessari umræðu, um að það verði látið á það reyna hvort menn vilja standa saman um að þessi lög taki þá fyrst gildi, ef þau verða samþykkt, eftir að fram hafi farið allsherjaratkvæðagreiðsla í stéttarfélögum opinberra starfsmanna um málið að undangengnum viðræðum og í tengslum við kjarasamninga þá sem gera verður á næsta vetri.

Ég vil síðan, hæstv. forseti, vekja athygli á mjög alvarlegum ummælum sem fram komu í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem jafnframt er formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hann sagði: ,,Hér er verið að skerða áunnin réttindi.`` Hann vitnaði til þess að hæstv. forsrh. hefði sagt: ,,Það á ekki að skerða áunnin réttindi.`` Og það var athyglisvert sem fram kom í máli hans þegar hann sagði: ,,Yfirlýsingar forsrh. standast ekki ef þetta frv. verður að lögum.``

Margt má segja um samskipti manna í íslenska þjóðfélaginu, en eitt undirstöðuatriðið er það að á milli forustumanna í verkalýðshreyfingunni og stjórnvalda á hverjum tíma ríki eins góður trúnaður og mögulegt er. Ég held að það verði að láta það koma mjög skýrt fram að ef forustumenn verkalýðshreyfingarinnar almennt meta það þannig að orð hæstv. forsrh. að því er þetta mál varðar standist ekki, ef málið liggur þannig, þá er komið að mjög viðkvæmum og flóknum kaflaskilum í samskiptum verkafólks, launamanna á Íslandi annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar.

Það er nauðsynlegt í tilefni af því að undirstrika, hæstv. forseti, það sem fram kom einnig í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að sú umræða sem hér hefur farið fram þó löng sé, er upphaf en ekki endir. Fari svo að stjórnarflokkarnir knýi þetta mál í gegnum þingið eins og margt virðist benda til, er alveg ljóst að baráttunni um innihald þessara mála verður haldið áfram úti í þjóðfélaginu. Það tel ég að hafi komið mjög skýrt fram í ræðu formanns BSRB áðan og það tel ég að hafi komið mjög skýrt fram í yfirlýsingum frá forseta Alþýðusambandsins og frá framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins í viðtölum við fjölmiðla í dag. Það er mikilvægt að undirstrika það og skora á hæstv. fjmrh. að gera sér grein fyrir því að baráttunni sem hér hefur farið fram lýkur ekki með einhverjum atkvæðagreiðslum í þessu herbergi. Henni verður vísað út í þjóðfélagið. Þar munu hin endanlegu átök jafnvel fara fram. Og með hliðsjón af því er það umhugsunarefni að jafnreyndir stjórnmálamenn og hæstv. fjmrh. skuli láta sig hafa það að efna til illinda við gjörvöll samtök launafólks í landinu út á það sem hér liggur fyrir. Ég spyr eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson fyrr í dag og ég gerði í ræðu minni í upphafi þessa sólarhrings: Hver eru rökin? Til hvers? Af hverju að slíta í sundur friðinn? Hvað er það sem menn ætla að vinna með þessu? Eru rökin þau að menn ætla að reyra verkalýðshreyfinguna í landinu í þessa fjötra þegar samningar eru lausir í haust og vetur? Hvað er það, hæstv. forseti? Því hefur hæstv. fjmrh. enn ekki svarað en það er alveg augljóst mál að þó að umræðunni ljúki fljótlega og atkvæðagreiðsla verði á morgun og 3. umr. í næstu viku heldur umræðan áfram á hverjum einasta vinnustað og hverju einasta heimili í landinu allt þetta ár.