Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:33:09 (5999)

1996-05-14 16:33:09# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:33]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Frá því að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru sett 1954 hefur verið samið um kaup og kjör opinberra starfsmanna á grundvelli margra þátta í þeim lögum, m.a. ákvæða um biðlaunaréttindi. Þar með eru þau réttindi orðin óvefengjanlegur hluti af kjörum opinberra starfsmanna. Það er ekki nokkur leið annað en horfa þannig á það. Þess vegna er ekki hægt að setja málið þannig upp að menn geti tekið þessi réttindi af opinberum starfsmönnum eða rýrt þessi réttindi hjá opinberum starfsmönnum öðruvísi en bætur komi fyrir. Þess vegna er ég algerlega sammála þeirri uppsetningu um þessi mál sem kemur að nokkru leyti fram hjá Gauki Jörundssyni í þeirri grein sem ég vitnaði til í ræðu minni fyrr á þessum sólarhring. Ég tel þess vegna að þessi réttindi séu bótaskyld og kaupígildi. Ég bendi á að ef þessi réttindi væru ekki til væri auðvitað til sá möguleiki að opinberir starfsmenn eða stéttarfélög þeirra eða einstaklingar í hópi opinberra starfsmanna eða annarra launamanna keyptu sér slík réttindi og þá yrðu þau verðlögð.

Þetta segi ég, hæstv. forseti, vegna þess að það er útilokað fyrir hæstv. fjmrh. að neita að horfast í augu við þennan veruleika. Hér stendur málið þannig að formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sagði áðan að þau orð sem hæstv. forsrh. lét falla virðast ekki standast. Ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti, það eru mikil tíðindi ef upp kemur trúnaðarbrestur af þessu tagi.