Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:44:05 (6003)

1996-05-14 16:44:05# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:44]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi sé ég ekkert því til fyrirstöðu að embættismenn eins og prófessorar, falli þeir undir það að vera embættismenn, geti tekið við fjármunum úr vinnumatssjóði, enda væri það þá tekið fram í úrskurði kjaranefndarinnar.

Í öðru lagi eru embættismenn skv. 23. gr. ráðnir til fimm ára. Það er aðalreglan fyrir þá sem ráðnir verða eftir gildistöku laganna en sé annað tekið fram í sérlögum gilda sérlögin framar frv. sem við erum að fjalla um í dag.

Varðandi yfirborganir eða hvað menn vilja kalla þær sérstöku þóknanir, sem fjallað er um í þessu frv., þá get ég ekki svarað því nákvæmlega hér og nú hvernig reglugerðin lítur út. Það hef ég sagt áður í umræðunni. Ég bendi hins vegar á að í 52. gr. er gert ráð fyrir því að samtök opinberra starfsmanna eigi þess kost að fylgjast með og fjalla um stjórnvaldsfyrirmæli en reglugerð á borð við þessa flokkast undir stjórnvaldsfyrirmæli í þessum lögum.

Loks vegna sveigjanlega vinnutímans vil ég að það komi fram að í gildandi lögum er einungis minnst á húsmæður í því sambandi en hérna er verið að opna fyrir starfsmenn ríkisins og reyndar er það einnig gert í sambandi við fæðingarorlofið. Þar kemur hugtakið ,,starfsmaður`` í staðinn fyrir konuna og ég hef trú á að það ætti að geta leitt til einhverrar breytingar.