Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:13:21 (6007)

1996-05-14 17:13:21# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:13]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af biðlaunaréttinum. Ég vil enn á ný segja að ég tel ekki að biðlaunarétturinn sé áunnin eignarréttindi eins og lífeyrisréttindi. Ég vil enn fremur benda á að æviráðningin hvarf fyrir um það bil tíu árum síðan. Það eru líklega um 10% af ríkisstarfsmönnum, ef kennarar eru undanskildir, sem eru æviráðnir og þeir vinna sömu störf og hinir sem eru með gagnkvæman uppsagnarfrest og það er enginn launamunur á þessum aðilum.

Þegar hæstv. forsrh. flutti ræðu sína var hann að tala um lífeyrisréttindi. Það liggur alveg fyrir og það veit auðvitað hv. þm. Ég sá að hann hafði þetta skrifað. Það gildir ekki það sama um lífeyrisréttindi og biðlaunaréttinn. Það hef ég margoft sagt.

Aðalreglan í þessu frv. er að nýir starfsmenn, þ.e. nýir embættismenn, verða ráðnir til fimm ára en sérlög geta breytt frá því. Í bandorminum er gert ráð fyrir að veiting prestakalla verði miðuð við fimm ár. Það er ekki fyrr en við afgreiðslu þess frv., sem verður væntanlega ekki fyrr en á næsta hausti, sem endanleg afstaða verður tekin til þess á hv. Alþingi.

Virðulegi forseti. Hv. þm. dró uppeldi vort inn í þessa umræðu. Ég skammast mín ekki fyrir það. Ég er hreykinn og upp með mér að hafa verið skáti, var það lengst af sem strákur. Ég starfaði þar með miklum ágætismönnum. Ég vil rifja það upp af þessu tilefni að skátahöfðingi Íslands var Jónas B. Jónsson og einn af aðalskátaforingjum í bænum var Skarphéðinn Össurarson sem ól viðkomandi þingmann upp og hefur tekist nokkuð vel miðað við efniviðinn.