Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:22:46 (6011)

1996-05-14 17:22:46# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, Frsm. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:22]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Þetta mál sem er í síðustu umræðu er stjfrv. um að heimila fjárfestingu útlendinga í íslensku atvinnulífi. Ágreiningsefnin hafa verið fjárfestingar í sjávarútvegi. Forsaga málsins var sú að ég komst ekki til að fara yfir málið í lok 2. umr. en umræðan hefur verið dálítið sundurtætt í tíma.

Ég ætla aðeins að fara yfir nokkur atriði um málið. Stjfrv. gerir ráð fyrir óbeinni fjárfestingu í sjávarútvegi sem þýðir að útlendir aðilar geta náð allt að 62% með óbeinum hætti í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Það tel ég ekki vera góða aðferðafræði og ég minni enn og aftur á að við þingmenn Þjóðvaka lögðum fram frv. sem heimilaði 20% beina fjárfestingu og síðan komu fjórir sjálfstæðisþingmenn sem vildu 49% beina fjárfestingu.

Þingmenn Sjálfstfl. urðu að bakka með öll sjónarmið sín vegna þess að málflutningur þeirra fékk ekki hljómgrunn innan stjórnarmeirihlutans.

Umsagnir sem bárust um frv. voru þess eðlis að ýmsir studdu frumvörpin um beina fjárfestingu. Má þar nefna Alþýðusambandið, Samtök iðnaðarins og Verslunarráðið svo nokkrir séu nefndir. Ýmsir lögðust gegn slíkri heimild til fjárfestingar en mjög margir töldu ástæðu til að heimila beina fjárfestingu erlendra aðila, þó þannig að einungis væri um vinnsluþáttinn að ræða. Það er þessi viðkvæmni sem menn þekkja vel, þ.e. að veiðarnar eru nokkuð næmar fyrir tilfinningum okkar Íslendinga og á það sínar eðlilegu skýringar.

Að áliti minni hluta nefndarinnar stendur auk mín hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Við töldum rétt að breyta uppsetningu á útfærslu málsins, þó þannig að heimila erlendar fjárfestingar í fiskvinnslu og láta þá ákvæði stjfrv. um fjárfestingar í veiðum gilda eins og það er lagt upp. Með þessari útfærslu værum við ekki að gera neitt annað en að setja sjávarútveg eða fiskvinnslu sem jafnsetta iðnaði og öðrum atvinnugreinum. Við höfðum talið að þetta væri heppileg útfærsla, þ.e. millileið í þessum hugmyndum að heimila beina fjárfestingu í útgerð og vinnslu. Frv. okkar gengur út á það að heimila einungis erlendar fjárfestingar í fiskvinnslu.

Rökin fyrir þessu eru m.a. að slík ný bein tengsl geta skapað ýmsa nýja markaðsmöguleika. Við Íslendingar höfum reynslu af fjárfestingum í sjávarútvegi erlendis. Þetta geti styrkt íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og í sjálfu sér höfum við Íslendingar ekkert annað en góða reynslu af þátttöku útlendinga með okkur í íslenskum atvinnufyrirtækjum.

Því miður tókst ekki í nefndinni að vinna málinu fylgi við þá málamiðlun sem við lögðum til. Greidd voru atkvæði um þessa útfærslu við 2. umræðu málsins og brtt. okkar var felld en síðan var stjfrv. samþykkt með lítils háttar brtt. meiri hluta nefndarinnar sem breyttu í engu grundvallaratriðum.

Ég harma þessa niðurstöðu. Það er greinilegt að það tekur lengri tíma að breyta atvinnuháttum okkar í átt til þess sem horfir til framfara hvað viðvíkur þessum þætti. Við því er ekkert að gera. Það hefur verið tekist málefnalega á í umræðunni og ég held að þetta sé ljósara í hugum manna eftir þá umræðu. Ég tel að útfærsla ríkisstjórnarinnar sé með marga galla og það hefur verið farið ítarlega yfir það, bæði við 1. og 2. umr. málsins og ég mun ekki gera það frekar að umtalsefni.

Ég kýs hins vegar að lokum að vekja athygli á svokölluðu Olís-ákvæði sem var sett inn í frv. af hálfu meiri hluta nefndarinnar sem er íþyngjandi gagnvart einu fyrirtæki hérlendis. Ég tel þetta vera ámælisverða lagasetningu að útfæra hana eins og gert er í frv. Það var hægt að finna aðrar leiðir til að gæta jafnræðis milli aðila án þess að raska í nokkru þeim grundvallaratriðum sem menn hafa verið að ræða um. Ég er hins vegar fullviss varðandi málatilbúnað okkar minnihlutamanna um það að heimila beinar fjárfestingar í fiskvinnslu hér á landi að þetta mun koma. Hvort það verður á þessu ári eða næsta ári skal ég ekki fullyrða en ég er sannfærður um að þarna var lagt inn á braut sem hefði orðið okkur happadrjúg. Því miður snerist meiri hlutinn gegn okkur í því máli en ég á von á því að málið verði endurvakið á hinu háa Alþingi síðar.