Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:28:53 (6012)

1996-05-14 17:28:53# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:28]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Einn er sá þáttur þessa máls sem ég hlýt að gera að umræðuefni við 3. umr. en það er 2. tölul. í 1. gr. frv. þar sem fjallað er um fjárfestingarheimildir í orkufyrirtækjum varðandi virkjanir vatnsfalla og jarðhita og þau atriði sem koma þar fram þess efnis að einstaklingar, búsettir innan Evrópska efnahagssvæðisins í öðrum ríkjum en hér, og lögaðilar, sem heimilisfastir eru í öðru ríki, hafa jafnan rétt á við Íslendinga til fjárfestingar.

Þegar þessi mál voru rædd fyrir áramót, líklega í nóvembermánuði, gaf hæstv. iðnrh. yfirlýsingu um að frv. mundu koma fram, hæstv. ráðherra vænti að þau kæmu um miðjan desember inn í þingið, fyrir áramót, sem tækju á þessum efnum og tryggðu eðlilegan rétt Íslendinga yfir virkjanaheimildum. Sem kunnugt er þá liggja hér fyrir þinginu frv., þingmannafrumvörp, um þetta efni og eru búin að gera sum hver árum saman. Það hafa komið fram á undanförnum mörgum árum yfirlýsingar frá hverjum iðnaðarráðherranum á fætur öðrum þess efnis að það yrðu sett lög sem tryggðu réttindi okkar Íslendinga yfir virkjunum, þ.e. yfir fallvötnunum. Þannig að við hefðum þar trygg réttindi sem eðlilegt er. Í því frv. sem ég er 1. flm. að er gert ráð fyrir því að virkjunarréttur fallvatna verði ótvírætt þjóðareign og það er sú leið sem eðlileg er í þessu sambandi. Er málið þá annars eðlis en það sem hér liggur fyrir. Þar er allt galopið um þau efni. Þegar gengið var á hæstv. ráðherrann nokkru síðar um þetta efni þá var frv. enn skammt undan. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er staða þessa máls af hálfu ráðuneytisins? Er það virkilega svo að hæstv. iðnrh. ætli að feta í slóð forvera síns í embætti, Jóns Sigurðssonar, sem hafði það að viðkvæði þegar spurt var snemma á þingi að frv. væri að koma og kæmi fyrir áramót og þegar spurt var seint á þingi var von á því næsta haust. Þetta endurtók sig ár eftir ár. Ég man ekki betur en hæstv. iðnrh. hafi greint frá því að það lægi mikið fyrir um þessi efni í ráðuneytinu. Það var sett niður nefnd í októbermánuði, gott ef ekki 17. október, án þess að ég vilji fara með dagsetninguna, nefnd manna sem átti að skila samkvæmt skipunarbréfi tillögu um málið inn í þingið um miðjan desember í síðasta lagi. Þetta er ekki forsvaranlegt, virðulegur forseti. Sá tímabundni fyrirvari sem Íslendingar höfðu, að því er þetta varðaði rann út um sl. áramót. Þannig að yfir okkur er skollinn Evrópurétturinn að þessu leyti.

Formaður nefndarinnar sem um ræðir er úr þingflokki framsóknarmanna ef ég man rétt, hv. þm. Stefán Guðmundsson. Annar þm., líklega hv. þm. Sturla Böðvarsson, er þar einnig sem ábyrgðaraðili af hálfu sjálfstæðismanna. Þetta er því allt á ábyrgð stjórnarflokkanna, staðan í þessu máli. Og ég verð að hafa nokkuð sterk orð um þessa stöðu, virðulegur forseti. Það er að mínu mati óafsakanlegt að setja þjóðréttindi í þá stöðu sem nú er að þessu leyti og aldeilis stórfurðulegt að hæstv. ríkisstjórn skuli halda þannig á máli. Menn þekkja þessa raunasögu.

Ég gat um þátt ríkisstjórnarinnar með aðild Alþfl. á sínum tíma þar sem Jón Sigurðsson var iðnrh. en það má líka minna á stjórnina sem mynduð var 1991 og sá ráðherra var einnig aðili að í byrjun þar sem var njörvað niður í stjórnarsáttmála að lög sem tryggðu réttindi okkar að þessu leyti kæmu fram á 115. þingi. Það var nærri því dagsett hvenær það gerðist. Ég vænti þess að það komi hér fram glöggar upplýsingar af hálfu hæstv. ráðherra um stöðu málsins. Ég hvet til þess að menn láti það ekki dragast lengur og það verði reynt að ganga frá þessum málum fyrir lok þessa þings. Annað er með öllu óforsvaranlegt. Það er verið að knýja hér á um afgreiðslu mála sem varða réttindi fjöldasamtaka í landinu og lögð öll áhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að beita sér í málum af þessum toga sem auðvelt er að skapa samstöðu um ef eðlilegar tillögur koma fram um þetta efni í þinginu og bætt verði úr þeirri algerlega óviðunandi stöðu sem þing og þjóð eru sett í hvað þetta snertir.