Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:35:04 (6013)

1996-05-14 17:35:04# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:35]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hér um væntanleg frumvörp um eignarrétt á auðlindum í jörðu og frv. um virkjunarrétt fallvatna. Það er rétt hjá hv. þm. að það voru gefin fyrirheit á haustdögum um að hægt yrði að koma slíkum málum inn í þingið fyrir áramót. Nefnd var skipuð til þess að fara yfir þessa hluti og ég tók þá fram að það væri mikið til af efni um þetta mál. Það veit hv. þm. mjög vel. Hann hefur lagt mikið af mörkum í þeim efnum og nefndin sem hóf störf í byrjun nóvember átti samkvæmt skipunarbréfi að hafa lokið störfum fyrir miðjan desember þannig að hægt yrði að koma þessum hlutum hér fram. Staðreyndin er hins vegar sú að málið er erfiðara en menn gerðu sér í hugarlund í fyrstu og það lá fljótlega fyrir í desember að það væri ekki hægt að koma málinu inn á þeim tíma sem þá hafði verið áætlaður. Nefndin er enn að störfum og er býsna langt komin eftir því sem ég veit best. Það eru ekki nema fáir dagar síðan ég lét kanna hvað nefndarstarfinu liði. Það er hins vegar svo að þótt mikið liggi fyrir af efni þá er ekki alveg víst að allir séu nákvæmlega sammála um það efni sem þarna skuli lagt til grundvallar og hvað skuli lögfest. Eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson veit þá hefur hv. þm. Sighvatur Björgvinsson líka lagt hér fram í þinginu frv. sem taka til þessara sömu hluta. Það eru frv. og efni sem að miklu leyti var unnið í tíð hans sem iðnrh. Efnislega er ég ekki sammála öllu því og ég er ekki efnislega sammála heldur þeim frv. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur lagt hér fram. Og það má kannski segja að þessi mál skilji svolítið að um það hvaða viðhorf menn hafa til eignarréttarins í þessum efnum. Og það er það sem við þurfum að ná hinni pólitísku samstöðu um, ekki bara á milli stjórnarflokkanna. Ég tel þó að það sé fyrsta skrefið vegna þess að á milli þessara tveggja stóru flokka geta auðvitað verið mismunandi áherslur á það hvernig menn horfa á eignarréttinn. Ég geri mér hins vegar vonir um og veit að menn eru býsna langt komnir í þessari vinnu. En það er líka alveg ljóst að þessi frv. munu ekki verða lögð fram á þessu þingi og þá er ég að einhverju leyti kominn í sömu spor og forveri minn í starfi, þáverandi iðnrh. Jón Sigurðsson, sem lofaði, eftir því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson segir, á haustin að frv. kæmi fram fljótlega og síðan á vorin að frv. kæmi næsta haust. Ég vonast til þess að þurfa ekki að lenda í þessum sporum og hægt verði að koma þessum frv. hér inn í þingið næsta haust þannig að maður standi ekki frammi fyrir því. En eins og ég segi, það hefur mikið verið útbúið af efni um þetta en það eru auðvitað mjög miklar pólitískar deilur um það hvernig eigi að líta á eignarréttinn, hvaða augum eigi að líta hann í þessu sambandi. Og þar held ég t.d. að ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson séum kannski ekki alveg sammála.