Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:39:17 (6014)

1996-05-14 17:39:17# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:39]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Mikil raun er á að hlýða. Það hafa ýmsir undrast það að við alþýðubandalagsmenn skulum hafa enst til þess að endurflytja hér þingmál á fjölmörgum þingum um þetta efni. Það skýrist hins vegar m.a. af því að við höfum viljað minna þingið á þetta verkefni, þetta óleysta verkefni. Jafnframt hefur það verið tekið fram af okkar hálfu, ég held mörgum sinnum við flutning málsins, að við séum reiðubúnir, flutningsmenn og raunar allur þingflokkur Alþb., til þess að skoða tillögur sem gengju eitthvað í aðra átt en lytu að því að tryggja þau réttindi sem þarna er um að ræða, þjóðréttindi, svo sem frekast má verða. Við höfum rétt fram okkar tillögur en um leið sáttahönd í málinu. Það verður ekki við okkur sakast um þá stöðu sem hér er uppi og ríkisstjórnin getur ekki skotið sér á bak við það að aðrir flokkar hafi ekki akkúrat hitt á þann nagla sem ríkisstjórnin hugsanlega kysi að slegið væri á. Enda kemur í ljós hjá hæstv. ráðherra að stjórnarflokkarnir eru ekki búnir að ná pólitískri niðurstöðu í málinu. Það er það sem hér kemur fram. Þeir eru ekki búnir að því og það var nákvæmlega staðan sem olli því að frv. kom ekki fram um þetta efni þing eftir þing eftir þing á síðasta kjörtímabili. Málið var ekki unnið til enda af stjórnarflokkum sem þá sátu og það sama er að endurtaka sig hér. Svona vinnubrögð eru ábyrgðarlaus með öllu, virðulegur forseti. Það væri fróðlegt að heyra frekar um það af hálfu hæstv. ráðherra hvar hnífurinn stendur í kúnni. Hvaða atriði eru það eignarréttarlegs eðlis, ég skildi hæstv. ráðherra þannig að það væru eignarréttarviðhorf sem þarna stæðu í vegi, sem koma í veg fyrir að niðurstaða hafi náðst málinu? Við alþýðubandalagsmenn sem viljum lýsa virkjunarrétt fallvatna þjóðareign röktum það í okkar þingmáli hvernig á þetta var litið af lögfræðingum fyrri tíða sem um þessi mál fjölluðu. Í þeim hópi voru ekki minni menn en formenn þeirra flokka sem nú skipa ríkisstjórn, kannski ekki nákvæmlega samtímis því sem þeir skrifuðu greinargerðirnar, dr. Bjarni Benediktsson og síðar prófessor Ólafur Jóhannesson. Þeir töldu að lögfesting sem tryggði almannaeign í þessum málum gengi ekki gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Er það virkilega svo að á þeim árum sem síðan eru liðin hafi komið upp gildar túlkanir sem renni stoðum undir það að túlka beri stjórnarskrána þröngt að þessu leyti, einkaeignarréttinum í hag, einkaeignarréttinum í vil? Ég tel að allar slíkar túlkanir gangi gegn því sem hefur verið að gerast í alþjóðarétti varðandi náttúruauðlindir. Ég vísa í því samhengi til lagasetninga af hálfu grannþjóða okkar um auðlindir í jörðu eins og olíu, bæði að því er varðar Noreg og Danmörk. Ég minni á þá dóma eða þær niðurstöður eftir langa umræðu sem varð í sambandi við olíuauð Dana í Norðursjó. Ég get ekki gert annað en hvatt hv. iðnrh. til þess að leiða þetta mál í höfn hið fyrsta. Ef það er ekki gert hlýtur sú krafa að vera uppi að það komi fram hvar ágreiningurinn liggur þannig að hægt sé að taka málið hér inn í þingið út frá því sjónarmiði. Og að þingviljinn komi í ljós í þessu máli. Ég held að það liggi nokkuð skýrt fyrir út frá þeim þingmálum sem hér eru. Mér er ekki kunnugt um að það sé ágreiningur t.d. Alþb. og Alþfl. við þingflokk Þjóðvaka eða þingflokk Kvennalista án þess að ég hafi kynnt mér það eitthvað sérstaklega nýverið. Ég veit ekki um neinn ágreining við þessa flokka um að túlka rúmt gagnvart þessum málum ákvæði stjórnarskrárinnar, þ.e. að það megi ganga langt í því að lögfesta þjóðareign á náttúruauðæfum eins og hér er um að ræða, þar á meðal virkjunarrétt fallvatna. Ég tel nauðsynlegt að ef stjfrv. um málið kemur ekki fram áður en þingi lýkur verði það rætt þannig að svar fáist við því hvar hnífurinn stendur í kúnni í þessu gífurlega þýðingarmikla hagsmunamáli þjóðarinnar.