Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:45:23 (6015)

1996-05-14 17:45:23# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú bara svo, hv. þm. að það hefur enginn verið að ásaka eða kenna stjórnarandstöðunni um að þetta frv. væri ekki komið fram. Ég sagði einfaldlega áðan málið er ekki tilbúið. Það er ekki fullrætt milli stjórnarflokkanna hvernig skuli tekið á þessum eignarréttarákvæðum sem ég fullyrði hiklaust að eru flókin. Ef hv. þm. lítur á frv. alþýðuflokksmanna sem hér liggur fyrir og ber það saman við það frv. sem hv. þm. sjálfur hefur flutt ásamt fulltrúum Alþb. þá er nokkur munur á þeim. Ekki trúi ég því að hv. þm. ætlist til þess ef það á að fara hér að lögfesta eignarrétt á náttúruauðæfum í jörðu, að þar sem náttúruauðæfi finnast í skilgreindu einkaeignarlandi í dag verði það gert að þjóðareign. Er hv. þm. að tala um að taka stóran hluta landsins jafnvel og þjóðnýta? Ég hélt að þau sjónarmið væru ekki lengur til í Alþb. en ég heyri að svo er.