Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:46:41 (6016)

1996-05-14 17:46:41# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:46]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er hv. þm. kominn á framsóknarslóðina í þessum efnum heldur betur. Hv. þm. er farinn að gera heilum þingflokkum upp skoðanir. Hann er að rugla saman sem ber nú vott um það að hæstv. ráðherra hefur ekki sett sig inn í málið eins og ég taldi þó víst að hæstv. ráðherra hefði gert. Hann verður að átta sig á því að það er munur á að taka tiltekin skilgreind náttúruauðæfi og lýsa þau þjóðareign hvort sem þar er um að ræða rennandi vatn eða jarðhita, og því að slá eign sinni á lendur þar sem álitaefni eru uppi um hvar mörk skuli dregin. Þó er hitt ljóst að dómar hafa gengið í þá átt --- að því er varðar almenninga í landinu og lönd utan einkaeignarlanda --- að hæstiréttur landsins hefur vísað því til Alþingis að skera úr um málið og þar með lýst því yfir að það sé réttur Alþingis að setja lög um það. Árið 1981 féll þessi dómur þar sem þessu máli var í raun vísað til löggjafans til þess að skera úr um eignarheimildina á landi utan heimalanda, jarðeigna sem skilgreindar voru þannig að meðtöldum afrétti. Hæstv. ráðherra getur ekki boðið okkur upp á umræðu af þessum toga. Að ætla að fara að snúa málinu sem stendur óafgreitt í hans ráðuneyti upp á stjórnarandstöðuna sem vilji þjóðnýta hér einkaeignarlendur í landinu. Um það snýst málið ekki.

Ég ætla að greina hæstv. ráðherra frá einu heilræði sem forveri hans Jón Sigurðsson notaði sem viðkvæði í ræðum sínum haust og vor um þessi efni þing eftir þing. Það skal vanda sem lengi skal standa.