Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:49:27 (6017)

1996-05-14 17:49:27# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:49]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta heilræði fyrrv. hæstv. iðnrh. hafi í sjálfu sér verið ágætt og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ætti að vinna að einhverju leyti eftir því. En það að hugsa bara um náttúruauðlindir í jörðu út frá rennandi vatni og jarðgufu eða heitu vatni í jörðu, er að hugsa þröngt um hlutina. Það er akkúrat þannig sem stjórnarflokkarnir ætla ekki að taka á þessu máli vegna þess að mörg önnur jarðefni eru nýtanleg og eru oft á tíðum á einkalandi. Menn verða því, hv. þm. að horfa aðeins út fyrir túngarðinn hjá sér og líta á þessa hluti í dálítið öðru samhengi. Þessi jarðefni höfum við mörg til staðar í dag og erum að nýta. Ég tek sem dæmi vikurinn sem bæði er á landi í opinberri eigu og einnig í einkaeigu.