Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:50:46 (6018)

1996-05-14 17:50:46# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er út frá því sjónarhorni að það skuli vanda sem lengi skal standa sem Alþb. hefur lagt þá vinnu í þetta mál sem um er að ræða undir minni forustu á sínum tíma í iðnrn. og síðar með því að flytja þetta mál jafnoft inn í þingið og raun ber vitni. Það kann að vera ágætt að setja víðtækari ákvæði varðandi jarðefni og annað af þeim toga inn í löggjöf og ekki skal standa á okkur um það efni ef hæstv. ráðherra kemur með tillögur þar að lútandi. Við höfum takmarkað okkur við orkuauðlindir landsins. Virkjunarrétt fallvatna og jarðhitaréttindi í okkar frumvörpum. Ég held að ríkisstjórninni væri sómi að ef hún tæki undir þau frv. Kannski er ástæðan fyrir því að það hefur dregist jafnlengi að koma með einhverjar tillögur í þessum málum að ríkisstjórnin er að fara yfir stærra svið en hún ræður við. Það kann að vera. Ég spyr þá hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum tekur hann ekki á því sem brýnast er í þessum efnum, þ.e. það sem varðar frumvörpin sem hér liggja fyrir, m.a. vegna þess að Evrópurétturinn er skollinn á í þessum málum? Hann er skollinn á í þessum málum bæði varðandi kaup á jarðnæði og eins möguleikana á því að taka þau auðæfi sem því fylgja, þar á meðal virkjunarréttinn. Hvaða einstaklingur í Vestur-Evrópu sem er og lögaðili getur komið hér og keppt við innlenda aðila að komast yfir þessi auðæfi.