Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:52:45 (6019)

1996-05-14 17:52:45# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:52]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hreyfir hér vissulega mjög mikilvægu máli og það var fróðlegt að hlusta á svör hæstv. ráðherra við fyrirspurn hans um hvort von væri á frv. varðandi virkjunarrétt fallvatna. Hv. þm. upplýsti að hann hefur ár eftir ár flutt frv. um þetta efni í þinginu og þau hafa vægast sagt fengið mjög litla umfjöllun í nefnd og ekki þá umfjöllun sem þau eiga skilið. Það er sjálfsagt í ljósi þess að í iðnrn. er verið að skoða þetta mál ár eftir ár án þess að það komi niðurstaða. Nú finnst mér tímabært að iðnn. sem hefur frumvörp hv. þm. til umfjöllunar skoði þessi mál sérstaklega. Ég held að það sé tími til kominn að iðnn. fái upplýst, af því að hún er árlega með þessi frv. til umfjöllunar, hver þessi ágreiningur er varðandi það stjfrv. sem ávallt er verið að boða um þetta efni. Ágreiningurinn virðist liggja bæði milli stjórnarflokkanna og annarra sem um þetta mál fjalla. Ég vil því spyrja ráðherrann af því nú veit ég að iðnn. er ekki með svo mörg mál til umfjöllunar á þessum lokavikum þingsins, hvort hann telji ekki rétt, og ég mun sjálfsagt leita eftir því í nefndinni, að formaður nefndarinnar komi á fund iðnn. til að greina iðnn. frá stöðu þessara mála. Þannig er hægt að upplýsa iðnn. um hvar menn greinir á í þessu efni og þá getur hún frekar metið frv. tvö sem liggja hér fyrir hv. iðnn. frá þingmönnum Alþb. og virðast lítið fást rædd þar. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt, verði eftir því leitað að formaður nefndarinnar komi á fund hennar og greini henni frá stöðu mála og hvar ágreiningsmálin liggja varðandi þessi mikilvægu mál.