Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:55:25 (6020)

1996-05-14 17:55:25# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:55]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eiga nú að vera hæg heimatökin hjá formanni nefndarinnar að upplýsa iðnn. um stöðu málsins vegna þess að formaður hv. iðnn. Alþingis er líka formaður nefndarinnar sem er að endurskoða ákvæðin sem snúa að eignarréttarákvæðunum í jörðu og virkjunarrétti fallvatna. Ég hef síður en svo á móti því að þetta verði kynnt. Ég held að það væri eðlilegt að það verði kynnt fyrir nefndinni á hvaða stigi þessi mál eru núna í vinnslu hjá vinnuhópnum sem þarna er að verki. Ég er tilbúinn til þess en mér finnst eðlilegt, að stjórnarflokkarnir komi sér fyrst saman um grundvallaratriðin. Þegar stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um þau þá tel ég einboðið að rætt verði við aðra flokka um framhald málsins og hvernig að því skuli staðið og þá látið á það reyna hvort aðrir stjórnmálaflokkar verða tilbúnir til þess að vera með í tillöguflutningi í þá veru sem ríkisstjórnarflokkarnir munu koma sér saman um.