Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:56:49 (6021)

1996-05-14 17:56:49# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Já, já, það má vissulega til sanns vegar færa að það er ákveðið grundvallaratriði að stjórnarflokkarnir komi sér saman um þetta mál áður en það verður lagt fyrir þingið. Engu að síður tel ég það mikilvægt sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. að nefndinni verði kynnt formlega á hvaða stigi vinnslan er og hvar ágreiningsefnin helst liggja vegna þess að ef stjórnarandstaðan fær upplýst um á hvaða stigi vinnslan er í þessu máli að þá getur hún hugsanlega greitt götu þess og greitt úr þeim málum sem þarna er ágreiningur um. Það er vissulega mikilvægt að um málið geti skapast nokkuð breið samstaða. Það er einnig mikilvægt að fá fram hjá ráðherra að hann telur rétt að iðnn. fái á þessu stigi málsins allar upplýsingar um stöðu mála.