Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 18:00:20 (6024)

1996-05-14 18:00:20# 120. lþ. 137.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[18:00]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er nú ekki svo þroskaður húmoristi að ég láti mér detta í hug að núverandi ríkisstjórn afgreiði nokkurt mál sem kemur frá stjórnarandstöðunni. Hæstv. iðnrh. getur verið algjörlega rólegur með það. Mér datt það nú bara ekki í hug. Hins vegar datt mér í hug að núv. ríkisstjórn léti kannski afgreiða mál frá sjálfri sér. Það var það sem ég átti við. Ég lýsti því yfir að ég væri fyrir mitt leyti tilbúinn að beita mér fyrir því í iðnn. að ríkisstjórnin afgreiddi sín eigin mál um leið og þau verða kynnt af formanni nefndarinnar sem er jafnframt formaður undirbúningsnefndarinnar á þriðjudaginn kemur. En það hvarflaði ekki að mér að ríkisstjórnin vildi afgreiða frv. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Sighvats Björgvinssonar. Þann rausnarskap sýnir núv. ríkisstjórn ekki hv. þm. stjórnarandstöðunnar.