Áhættu- og nýsköpunarlánasjóður

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 18:01:22 (6025)

1996-05-14 18:01:22# 120. lþ. 137.7 fundur 368. mál: #A áhættu- og nýsköpunarlánasjóður# frv., Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[18:01]

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð. Frv. er flutt af mér og öðrum þingmönnum Alþb. og óháðra hér á Alþingi. Gert er ráð fyrir því að stofnaður verði sérstakur áhættu- og nýsköpunarlánasjóður fyrir atvinnulífið.

Í greinargerð segir svo m.a., með leyfi forseta:

,,Enn einn sjóðurinn --- til hvers? Eru ekki nægilega margir sjóðir til? Og bankar? Svarið er bæði já og nei. Vissulega eru til nægilega margir sjóðir til þess að sinna margvíslegum verkefnum. Hins vegar er ekki til nein stofnun sem getur veitt fyrirtækjum og einstaklingum áhættulán --- jafnvel án þess að venjuleg veðsetning sé fyrir hendi. Þingmenn Alþýðubandalagsins heimsóttu í jólaleyfi Alþingis nokkur fyrirtæki sem glíma við nýjungar. Hér er um að ræða fyrirtæki sem hafa sprottið af hugviti en ekki eignum. Forráðamenn þeirra hafa ekki fengið fjárhagslegan stuðning, en samt hefur þessum fyrirtækjum tekist á undraverðum hraða að rífa sig upp. Dæmi um slík fyrirtæki eru Tæknival og Oz en það síðarnefnda hefur vakið athygli víða um heim og hefur reyndar þegar stofnað útibú í tveimur öðrum heimsálfum.

Þær þjóðir, sem hafa náð mestum árangri í efnahagsmálum á síðustu árum, hafa einmitt lagt áherslu á fyrirtæki sem byggjast á hugviti og það er athyglisvert að nokkur þeirra landa sem fátækust eru af auðlindum hafa náð einna lengst í því að byggja upp hagvöxt. Margt bendir til þess að möguleikar Íslendinga liggi einnig þarna; auk þess að leggja áherslu á nýtingu hefðbundinna auðlinda til lands og sjávar.

Um þessi mál var fjallað á fundi miðstjórnar Alþýðubandalagsins 17. og 18. febrúar í tengslum við umræður um kjaramál. Þar var bent á hróplegan mun á launum fólks á Íslandi og í grannlöndunum og jafnframt minnt á nauðsyn þess að efla Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þá var minnt á áhættulánasjóðinn sem gerðar hafa verið samþykktir um á vegum Alþýðubandalagsins.

Miklar umræður hafa verið um áhættulánasjóð á undanförum árum. Hafa þær ekki farið fram á Alþingi heldur fremur í fjölmiðlum.

Íslensk stjórnvöld hafa reyndar verið ótrúlega treg til að skapa aðstæður í þjóðfélaginu sem styrkja nýsköpunarstarf. Endalausar kröfur um steinsteypuveð hafa dregið mátt úr hugvitsmönnum sem hafa viljað þróa nýjungar í atvinnulífinu hér á landi. Aðrar þjóðir, svo sem aðrar Norðurlandaþjóðir, verja til dæmis miklu fé til hugvitsmanna, t.d. Danir. Fullyrða þeir sem til þekkja að hver króna sem þeir verja til þessa skili sér sjötugföld til baka! Hugvitsmenn á Íslandi hafa stofnað með sér félag og hefur það haldið fram nauðsyn þess að hér á landi yrði stofnaður áhættulánasjóður.

Alþýðubandalagið fjallaði sérstaklega um áhættulánasjóð í útflutningsleið sinni. Útflutningsleiðin byggðist á samþykktum landsfundar 1993 og varð hún undirstaða kosningastefnuskrár Alþýðubandalagsins 1995. Í útflutningsleiðinni er fjallað um fjölmarga þætti atvinnumála, auk velferðarmála og efnahagsmála almennt. Þar sagði m.a. á bls. 82:

,,Nýsköpun í hagkerfinu verður aldrei án þess að opnaður sé aðgangur að verulegu áhættufjármagni fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja fara inn á nýjar brautir. Skortur á slíku áhættufjármagni hindrar verulega þróunarmöguleika íslensks atvinnulífs.

Þess vegna er nauðsynlegt að koma á fót sérstökum áhættulánasjóði sem fjármagnaður yrði með árlegum greiðslum frá bönkum, stórfyrirtækjum, ríki og sveitarfélögum. Með starfsemi slíks sérstaks áhættulánasjóðs mundi staða bankanna styrkjast og því væri eðlilegt að þeir tækju þátt í því að koma honum á fót.

Áhættulánasjóðurinn fæli í sér:

5.1 Árlega yrðu veittar 500--700 millj. kr. til fyrirtækja og einstaklinga til að greiða fyrir nýjungum í atvinnulífi.

5.2 Hámark yrði á hverri lánveitingu, t.d. 20 millj. kr. Leitast yrði við að sem flestir fengju aðgang að áhættufjármagni. Miðað yrði við að 40--100 aðilar fengju árlega aðstoð til nýrra verkefna.

5.3 Hugvit, nýjar hugmyndir, hæfileikar einstaklinga, frumleiki og aðrir slíkir eiginleikar nýsköpunar yrðu ráðandi þættir við ákvarðanir sjóðstjórnar.

5.4 Fagleg og sjálfstæð vinnubrögð settu svip á störf sjóðsins. Árlega yrði birt skrá yfir ákvarðanir sjóðstjórnar og jafnframt birt lýsing á þeim árangri sem fyrri ákvarðanir hefðu skilað.

5.5 Engra veða yrði krafist því hér yrði um áhættufjármagn en ekki venjuleg lán að ræða.

5.6 Nái einstaklingar og fyrirtæki árangri og hljóti verulegan tekjuauka verði áhættustyrkurinn greiddur til baka á tíu árum.

5.7 Þeir sem einu sinni hafa fengið áhættufjármagn úr sjóðnum en ekki náð árangri gætu ekki komið til greina aftur fyrr en að tíu árum liðnum.````

Þetta frv., herra forseti, er í átta greinum. Í 1. gr. er gert ráð fyrir því að það verði stofnaður áhættu- og nýsköpunarlánasjóður sem taki til starfa frá næstu áramótum og hann starfi í tilraunaskyni ef svo má að orði komast til loka ársins 2000. Sjóðurinn yrði sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins og yrði vistaður í forsrn. Stjórn sjóðsins á að vera heimilt að semja við banka eða lánastofnanir um vistun hans og að annast stjórnsýslu fyrir hann. Fyrir lok ársins 2000 tekur Alþingi ákvörðun um framlengingu eða breytingu á starfseminni með hliðsjón af þeirri reynslu sem þá liggur fyrir.

Í 2. gr. er fjallað um stjórn sjóðsins. Gert er ráð fyrir að hún verði fimm manna. Einn verði tilnefndur af samtökum launafólks sameiginlega, annar af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þriðji af samtökum atvinnurekenda sameiginlega en forsrh. skipar tvo án tilnefningar og er annar þeirra formaður stjórnarinnar.

Við skipan stjórnarinnar skal þess gætt að valdir séu menn sem hafa sérstaka þekkingu og/eða reynslu af nýsköpun í atvinnulífi.

Í 3. gr. er fjallað um tilgang sjóðsins og þar segir:

,,Tilgangur sjóðsins er að stuðla að hvers konar nýsköpun í atvinnulífi, en einnig þróunar- og tilraunastarfi og nýjum verkefnum sem virðast geta orðið arðsöm. Sjóðurinn skal sérstaklega sinna þörfum þeirra sem ekki hafa fullnægjandi aðgang að öðrum sjóðum né hefðbundnum lánastofnunum sem þó starfa í þágu atvinnulífsins. Sjóðurinn beinist ekki síst að því að styrkja þá einstaklinga og þau fyrirtæki sem ekki geta uppfyllt hefðbundar kröfur um venjulega veðsetningu fyrir lánum eða skortir áhættufé í formi hlutafjár til að ráðast í ný verkefni.

Til þess að fundur sé lögmætur þarf meiri hluti stjórnar að sitja hann og ræður einfaldur meiri hluti fundarins ákvörðun stjórnar. Ákvæði 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um vanhæfi gilda um meðferð mála hjá sjóðstjórn.``

Í 4. gr. er fjallað um tekjustofna sjóðsins.

5. gr. er um skyldur og verkefni sjóðstjórnar og sjóðsins. Þar er gert ráð fyrir því að sjóðurinn verði notaður til að kaupa hlut eða hluta í nýjum fyrirtækjum eða í eldri fyrirtækjum vegna nýrra verkefna sem efnt er til innan lands eða erlendis, enda selji sjóðurinn hlut sinn strax og viðkomandi fyrirtæki ræður eitt við verkefnið að mati sjóðstjórnar. Við frágang á kaupum sjóðsins á hluta í fyrirtæki skal frá því gengið hvenær sjóðurinn hverfur úr rekstri þess.

Þá er gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins verði heimilt að veita óendurkræfan styrk, víkjandi lán eða vaxtalaus lán úr sjóðnum, enda séu gerðar strangar faglegar kröfur til fyrirtækisins.

Gert er ráð fyrir að heimilt verði að veita lán úr sjóðnum, jafnvel þótt fyrirtækið geti ekki veðsett eignir á móti lánunum með hefðbundnum hætti.

Gert er ráð fyrir að heimilt verði að kosta sérfræðiaðstoð við markaðssetningu og þróunarstarfsemi fyrir fyrirtæki.

Gert er ráð fyrir því að heimilt verði að veita lán á venjulegum kjörum til viðbótar annarri fyrirgreiðslu annarra lánastofnana.

Síðan er fjallað um reglugerðarheimildir. Í 6. gr. segir: ,,Stjórn sjóðsins er skylt að gera strangar faglegar kröfur til stjórnenda fyrirtækis sem fær lán eða stuðning frá sjóðnum. Óheimilt er að veita stuðning úr sjóðnum til fyrirtækja sem sérstaklega tengjast stjórnarmönnum.``

Ég hef þannig gert grein fyrir þessu frv. okkar þingflokks, hæstv. forseti. Í sjálfu sér má segja að frv. af þessu tagi tengi saman fleiri en eina atvinnugrein og væri því kannski eðlilegt að það færi til hv. efh.- og viðskn. sem hefur með ýmsa sjóði að gera. En það er líka hugsanlegt að málið fari til hv. iðnn. sem er núna t.d. að fjalla um breytingar á lögum um Iðnþróunarsjóð þar sem gert er ráð fyrir því að heimilt verði að lána til áhættuverkefna og að það verði lagt inn á sérstakan afskriftareikning í hvert skipti sem stjórn Iðnþróunarsjóðs metur það svo að um áhættulánveitingar sé að ræða.

Það hefur einnig komi til tals að það er í gangi endurskoðun á þessu sjóðakerfi. Meðal annars iðnaðarsjóðunum og nýsköpunarsjóðunum, því litla sem til er af því tagi. Sú endurskoðun er undir forustu viðskrn. og iðnrn. og ég tel með hliðsjón af því, hæstv. forseti, að það væri ekki úr vegi að þessu frv. yrði þrátt fyrir allt vísað til hv. iðnn. þannig að hún gæti aflað nauðsynlegra umsagna um málið svo að það megi þróa enn betur áfram.

Ég legg til að málinu verði vísað til iðnn. og 2. umr.