Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 20:34:36 (6027)

1996-05-14 20:34:36# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[20:34]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um tæknifrjóvgun, tillögu sem við fjórir hv. alþm. flytjum við 3. umr. málsins. Meðflm. að tillögunni ásamt mér eru hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Við leggjum til að 4. gr. frv. orðist svo:

,,Læknir sem annast meðferð, velur viðeigandi gjafa.

Upplýsingar um gjafa skulu skráðar og varðveittar samkvæmt reglum er ráðherra setur þannig að barn getur við 18 ára aldur fengið aðgang að upplýsingum um erfðafræðilegt foreldri sitt.``

Samkvæmt þessari tillögu ætlumst við til þess að 2., 3. og 4. efnisgrein 4. gr. falli niður, en varðandi 1. efnisgreinina er aðeins um smávegis orðalagsbreytingu að ræða en ekki efnisbreytingu. Tillaga okkar felur það í sér ef samþykkt verður að sú krafa er gerð varðandi upplýsingar til barns að það hafi aðgang að þeim þegar það hefur náð 18 ára aldri en að öðru leyti setji ráðherra reglur um málið sem takmarkist við þessa kröfu eina að barnið eigi þennan rétt. Þetta felur m.a. í sér að ráðherra getur gengið frá upplýsingaskyldu eða banni við upplýsingum eftir atvikum að öðru leyti en því að reglurnar sem settar verða þurfa að standast þennan mælikvarða. Barnið hefur réttinn. Við teljum að með því að breyta 4. gr. laganna með þessum hætti komi þetta meginatriði skýrt fram en önnur atriði sem varða málsmeðferð sé á valdi ráðherra að kveða á um í reglum. Þær reglur geta verið mismunandi, innan þeirra er ákveðið svigrúm. En með þessu er ljósum beint að meginatriðum málsins sem til umræðu hefur verið allt frá því að frv. þetta kom til umræðu í þinginu, það sjónarmið að eðlilegt sé að barn eigi rétt á því að fá vitneskju um erfðafræðilegt foreldri sitt, hafi það fengið frá foreldrum um það vitneskju og kjósi að nota sér réttinn. Hér er ekki kveðið á um að foreldri beri að veita barni þær upplýsingar. Það er á valdi foreldris að gera það. Það er ekki gert af neinni skyldu, það er ekki kveðið á um það samkvæmt frv. Það verður foreldri að gera upp við sig. En barnið, hvort sem það fær slíka vitneskju frá foreldri eða foreldrum eða kýs að grennslast fyrir um það að eigin frumkvæði, á þennan rétt.

Ég tel nauðsynlegt að rökstyðja þessa tillögu frekar þó að málið hafi verið ítarlega rætt við 2. umr. málsins. Ég vil fyrst minna á að ég flutti við þá umræðu tillögu sem gekk mun lengra en þessi tillaga að því er varðar tæknifrjóvgun, þ.e. í þeirri tillögu sem ég flutti og ekki fékk framgang við 2. umr. málsins var gert ráð fyrir því að við tæknifrjóvgun kæmu aðeins við sögu kynfrumur frá erfðafræðilegu foreldri. Hefði sú tillaga náð fram að ganga hefði að sjálfsögðu ekki komið upp það álitaefni sem þessi brtt. fjallar um. Það sjónarmið kom hins vegar fram hjá allmörgum hv. þingmönnum við umræðuna að þeir teldu að hér væri um grundvallaratriði að ræða og við flutningsmenn fylgjum því eftir með flutningi þessarar brtt. en væntum þess að það sjónarmið sem við leggjum áherslu á eigi stuðning fleiri hv. þingmanna.

Þegar við notum hugtakið ,,erfðafræðilegt foreldri`` er þar fylgt skilgreiningum eins og m.a. koma fram í ritinu Barnaréttur eftir Davíð Þór Björgvinsson, gefið út á síðasta ári. Þar eru slíkar skilgreiningar og okkur sýnist ótvíræðara að nota þetta hugtak fremur en líffræðilegt foreldri, það lýsir betur því sem um er að ræða. Við höfum því valið þann kost að nota það hugtak.

Fjölmargar umsagnir sem bárust til allshn. styðja það sjónarmið sem hér er gerð tillaga um að lögleidd verði. Ég vil minna á nokkrar af þessum umsögnum. Það á við um nær alla aðila sem veittu umsögn, a.m.k. um Siðfræðistofnun og barnaverndarráð, aðila sem töldu að ekki ætti að heimila aðfengnar gjafakynfrumur. Þessir aðilar gerðu til vara tillögu um að væri það lögleitt, væri a.m.k. næsti varnagli sleginn, sá sem hér er til umræðu, að upplýsingamöguleiki til að veita barni upplýsingar um þetta efni væri tryggður. Siðfræðistofnun segir þannig 20. janúar 1995 í umsögn sinni nær það sama og kom fram í síðari umsögn, en þar ítrekaði hún sitt viðhorf. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ef farin verður sú leið að leyfa notkun gjafasæðis sem við erum andvíg leggjum við til að þannig verði búið um hnútana að barnið eigi þess kost að leita tiltekinna upplýsinga um uppruna sinn. Það kann hins vegar að orka tvímælis að veita upplýsingar um nafn sæðisgjafa því útilokað verður að telja að barnið geti myndað nokkuð tengsl við líffræðilegan föður. Síðan er vitnað í breskar reglur. Meginrökin fyrir þessari afstöðu eru að rangt sé með lagasetningu eða leynd að girða fyrir þann möguleika að einstaklingur geti leitað upplýsinga um sjálfan sig sem aðrir búa yfir. Slíkar upplýsingar geta verið mikilvægar fyrir einstaklinginn, jafnvel þótt nafnleyndar sæðisgjafa sé gætt. T.d. getur verið brýnt fyrir einstaklinga að þekkja erfðafræðilegan uppruna sinn vegna arfgengra sjúkdóma. Ef dönsk lög sem ná yfir þann sæðisbanka sem nú skipta við heimila ekki slíkar upplýsingar leggjum við til að samið verði við sæðisbanka í öðru landi.

Við vekjum athygli á því að verði sæðisgjöf leyfð, rísa óhjákvæmilega upp erfið siðfræðileg vandamál. T.d. getur verið erfitt að segja barni sannleikann um tilurð sína, en það teljum við að sé siðferðilega mikilvægt. Við teljum því rétt að einstaklingar sem getnir eru með tæknifrjóvgun verði upplýstir um það. Til að auðvelda foreldrum að leysa þau vandkvæði er því kann að fylgja mælum við með að þeim verði gefinn kostur á foreldraráðgjöf.``

Í umsögn barnaverndarráðs kemur fram sama sjónarmið. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í þriðja lagi mætti hugsa sér að barnið ætti rétt á ákveðnum upplýsingum um kynfrumugjafa, þó þannig að nafnleyndar væri gætt. Kosturinn við þessa ráðstöfun er sá að barninu er sagt hið sanna um tilurð sína. Það gæfi barninu einnig færi á að leita t.d. erfðafræðilegra upplýsinga sem gætu verið mikilvægar m.a. vegna arfgengra sjúkdóma, en þessi kostur útilokar að hægt væri að mæta fyllilega þeirri þörf barnsins að þekkja uppruna sinn sem sumir telja vera mannréttindamál. Því verður ekki neitað að oft er þessi þörf mjög sterk og verði henni ekki fullnægt getur það ógnað sjálfsmynd barnsins. Enn fremur má minna á áðurnefnda athugasemd frumvarpshöfunda um tilfinningaflækjur í fjölskyldunni sem barnið kynni að skaðast af.``

Umboðsmaður barna sendi umsögn, alllanga og ítarlega. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að stytta tilvitnun í umsögnina og víkja að því aðalatriði sem hér er um að ræða en þarna er vísað í alþjóðlega samninga, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og leiddar líkur að því að til þess að uppfylla hann þá þurfi að gæta þessa möguleika að upplýsa barn um uppruna sinn. Síðan segir umboðsmaður barna:

[20:45]

,,Mín skoðun er sú að þar sem ættleitt barn á rétt á að vita um uppruna sinn, þekkja foreldra sína eftir því sem framast er unnt, þá eigi barn sem getið er með gjafakynfrumu sama rétt. Annað gengur að mínu áliti í berhögg við 1. mgr. 2. gr. fyrrnefnds samnings og hina almennu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem er að finna í 1. mgr. 65. gr. hennar, sbr. stjórnskipunarlög, nr. 97/1995.

Með skírskotun til alls þess sem að framar greinir og þá ekki síst til ákvæða 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnskipunarlög, nr. 97/1995, er það mín afdráttarlausa skoðun að með lögum eigi að tryggja barni sem getið er með gjafakynfrumu ótvíræðan rétt til að fá að vita hver raunverulegur uppruni þess er, eftir því sem framast er unnt. Þannig verður velferð barnsins best tryggð til frambúðar.

Réttur barns til að vita hvaðan það kemur, hver er líffræðilegur faðir þess eða móðir á að mínum dómi að ganga framar rétti foreldra til að halda slíku leyndu fyrir barninu. Skylduna til að upplýsa barnið um raunverulegan uppruna þess verður að leggja á herðar foreldrum þegar þeir telja barnið hafa öðlast nægilegan þroska til að skilja þessar aðstæður.

Ég legg því til`` segir umboðsmaður barna ,,að 4. gr. frv. til laga um tæknifrjóvgun verði breytt á þann veg að ákvæði 2. mgr., sem ætlað er að tryggja kynfrumugjafa nafnleynd, verði fellt brott. Í stað þess verði réttur barns sem getið er með gjafakynfrumu til að vita um uppruna sinn virtur og lögfestur.``

Þá ber að geta umsagnar landlæknis sem segir svo, með leyfi forseta, í erindi til allshn., 17. janúar 1996:

,,Í greinargerð um 4. gr. er skrifað: ,,Nauðsynlegt þykir að tryggja að nafnleynd ríki milli gefenda kynfrumna og þiggjenda ...`` er ekki í takt nútímaviðhorfs. Áður fyrr var það álitið ,,eðlilegt`` að samfélagið (m.a. læknar og stjórnmálamenn) gætu sagt fyrir um reglur um getnað. Álitið var að þessir aðilar skildu betur en venjulegir borgarar þessi mál. Dæmi um slíkar reglur eru m.a. ákvæði í lögum er takmarka sölu á getnaðarvörnum og reglur um ,,geldingar`` afbrotamanna.

Landlæknir leggur til að greininni verði breytt og hún hljóði svo:

Læknir sem annast meðferð skal velja viðeigandi gjafa.

Heilbrigðisstarfsfólki er skylt að tryggja nafnleynd ef gefandi eða þiggjandi óskar þess. Eftir að barnið hefur náð sjálfræðisaldri ber að gefa barninu allar upplýsingar um gefanda, þar með talið nafn, sé þess óskað.``

Hér er að tillögu landlæknis nákvæmlega sama krafa og gerð er samkvæmt breytingartillögu okkar fjögurra. Í erindi frá siðaráði landlæknis segir 10. janúar 1995, með leyfi forseta:

,,Annað meginsjónarmið sem siðaráð landlæknis vill leggja áherslu á er að einstaklingi sem til verður með þessum hætti, verði heimilaðar allar upplýsingar, þar með talið nafn, um sæðis-/eggfrumugjafa eftir að viðkomandi hefur náð 16 ára aldri. Upplýsingarnar skulu vera vel varðveittar og ekki aðgengilegar öðrum. Jafnframt telur siðaráð nauðsynlegt að foreldrum verði veitt ráðgjöf til að takast á við þann vanda sem upplýsingagjöfinni og vitneskjunni gætu fylgt.``

Í erindi Kvenréttindafélags Íslands frá 15. febrúar 1995 segir svo, með leyfi forseta. Það er tilvitnun í frv. þar sem stendur:

,,Hvorki má veita gjafa upplýsingar um parið sem fær gjafakynfrumur né um barnið.`` Um þetta segir Kvenréttindafélag Íslands: ,,Barn sem getið er með gjafakynfrumum á að eiga rétt á upplýsingum um kynforeldra þegar það hefur þroska til og óskar þess, þó þannig að nafnleynd sé virt (sbr. Bretland). Allir eiga skilyrðislausan rétt til að geta vitað um uppruna sinn.

Spurning er hvort setja ætti þak á þann sæðisfjölda sem nýttur er frá sama aðila.``

Það er nú annað mál. Þetta var tilvitnun í umsögn Kvenréttindafélags Íslands.

Þá er að geta umsagnar frá Mannréttindaskrifstofu Íslands sem er löng og ítarleg. Þar er tekið á og fjallað um fjölmörg álitaefni sem frv. tengjast en þó ekki síst þá spurningu sem hér er til umræðu. Eftir að hafa farið yfir ýmsa sáttmála, m.a. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem áður er getið og viðhorf barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna --- raunar er fróðlegt að grípa niður í það atriði frá Mannréttindaskrifstofunni og vitna til þess, með leyfi forseta:

,,Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna (United Nations Committee on the Right of the Child) gerði athugasemd við aðildarskýrslur Noregs og Danmerkur um rétt barns til að þekkja uppruna sinn. Þar segir að hugsanlega sé ósamræmi milli barnasamningsins og þeirrar stefnu stjórnvalda í Noregi og Danmörku að viðhafa nafnleynd sæðisgjafa. Barn fái því ekki að þekkja raunverulegan uppruna sinn. Ekki er ólíklegt að síðar meir verði gerð sambærileg athugasemd við löggjöfina hér á landi verði 2. mgr. 4. gr. frv. ekki breytt.``

Það viðhorf sem túlkað er af Mannréttindaskrifstofu Íslands kemur fram í kafla sem heitir: ,,Önnur rök fyrir nafnleynd haldlítil`` og ég leyfi mér að vitna til hans, með leyfi forseta:.

,,Sé litið fram hjá niðurstöðum dómstóla og löggjöf flestra nágrannalandanna sem virðist grundvöllur greinargerðar með frv., standa eftir haldlítil rök fyrir nafnleynd kynfrumugjafa. Reynist erfitt að fá kynfrumugjafa án nafnleyndar er það sjálfstætt vandamál sem getur með engu móti talist vega upp á móti hagsmunum barsins sem geta vart verið aðrir en þeir að eiga þess kost að fá vitneskju um uppruna sinn. Það er erfitt að sjá hvernig löggjafinn getur útilokað fjölda barna frá rétti sem hann hefur tryggt öðrum börnum með í lögum.

Þess ber og að gæta að gert er ráð fyrir að upplýsingar um gjafa séu varðveittar og því ávallt hætta á því að vitneskja um þá geti borist barninu fyrr eða síðar. Frv. gerir þannig ráð fyrir að réttur heilbrigðisyfirvalda sé sterkari en réttur barnsins og er sú afstaða byggð á læknisfræðilegum þörfum. Þessu hlýtur stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands að mótmæla.``

Kaflinn er lengri en ég tel mig hafa komið aðalhugsun stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands á framfæri með þessari tilvitnun þó að þann lestur mætti lengja til frekari rökstuðnings.

Þá vil ég nefna, vegna umræðu sem fram hefur farið, hina svonefndu bresku leið sem virðist vera þannig að kynfrumugjafa sé tryggð nafnleynd að vissu marki a.m.k. Það segir í sérstakri greinargerð sem ég kann ekki að leggja út af fyrir sig mat á --- ég hef ekki farið djúpt í málið, en ég tel rétt að halda því til haga vegna þess að það hefur komið fram í umræðunni og verið minnst á það í umsögnum. ---- Þetta er samantekt frá Dögg Pálsdóttur sem mun hafa verið í nefnd sem undirbjó frv. og ráðgjafi stjórnvalda í þessu máli.

,,Warnock-skýrslan [þ.e. hin breska skýrsla] taldi að börn gætu haft þörf fyrir lágmarksupplýsingar um erfðafræðilegt efni (basic genetic information) til verndar eigin heilsu eða barna þeirra. Auk þess þyrfti að tryggja að systkini gengju ekki í ógáti í hjúskap. Málamiðlun laganna er sú að tæknifrjóvgunarstofnunin heldur skrá yfir notkun kynfrumna. Þegar einstaklingur nær 18 ára aldri á hann rétt á að fá upplýsingar um hvort hann hafi orðið til við tæknifrjóvgun og hvort viðkomandi og annar sem er tilnefndur sem væntanlegur maki séu skyld. Jafnframt á hann rétt á þeim upplýsingum um gjafann sem reglur bjóða stofnuninni að veita. Orðalag ákvæðisis útilokar ekki ...``, ég vek athygli á þessu, ,,... orðalag ákvæðisins útilokar ekki að settar verði reglur um afnám nafnleyndar, en lögin útiloka þó að slíkar reglur verði settar í framtíðinni með afturvirkum ákvæðum.``

Ég hef, virðulegur forseti, tekið á nokkrum þeirra umsagna sem um ræðir. Vissulega tek ég þær umsagnir sem taka sterkast undir það sjónarmið sem hér er um að ræða, en kann þó að hafa hlaupið yfir einhverjar sem fjalla um málið að þessu leyti. Ég get vitnað einnig til ritsins Barnaréttar eftir Davíð Þór Björgvinsson þar sem ítarlega er fjallað um þessi álitaefni og m.a. það sem hér um ræðir. Ég læt nægja að vísa á það til frekari athugunar fyrir þá sem áhuga hafa. Þar er um að ræða bls. 143 og raunar allar götur til 167 í þessu riti, Barnarétti. Einnig er það fyrr í ritinu, frá bls. 31 þar sem fjallað er um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og til bls. 39. Á bls. 107 er sérstaklega fjallað um ákvörðun faðernis og álitaefna sem því tengjast. Víðar kann að vera fjallað um þessi efni í ritinu en ég hef farið yfir þessa þætti ritsins með tilliti til þess sem hér um ræðir og leyfi mér að vísa til þess.

Ég nefni það, virðulegur forseti, að í Svíþjóð er sem kunnugt er ekki lögleidd leynd fyrir kynfrumugjafa yfirleitt eins og hér hefur komið fram við umræðuna. Í Noregi þar sem fallist var á leynd með vissum ákvæðum í lögum voru afar greindar meiningar um það mál. Meiri hluti í norska Stórþinginu tryggði þeim ákvæðum framgang sem þar gilda, en mjög sterkur minni hluti gekk gegn því ákvæði. Og til að koma aðeins nánar að því hvaða flokkar þar voru á ferð --- ég held að það sé fróðlegt m.a. fyrir þann hv. þm. sem mælti fyrir áliti allshn. nú um að sættast á það að gera þetta mál ekki upp en viðhalda nafnleyndarákvæðunum þó að þar sé gert ráð fyrir endurskoðun að vissum tíma liðnum --- þá var norski Miðflokkurinn eindregið á þeirri sömu skoðun og hér er lögð til og Kristilegi þjóðarflokkurinn og Sósíalíski vinstri flokkurinn í Noregi. Ég hef undir höndum alla umræðuna sem fram fór í norska þinginu, hún er löng, um þessi efni og allar tillögur þar að lútandi. Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir hv. þingmenn að kynna sér þau efni því að þar eru sannarlega dregin fram mörg sjónarmið sem varða þetta mál og ekki aðeins það sem við höfum fjallað um heldur einnig það sem ég vakti athygli á við 2. umr. málsins, þ.e. það sem varðar rannsóknir. Það er alveg nauðsynlegt, virðulegur forseti, þó að það snerti ekki þessa tillögu að tekið verði á því svo að menn ani ekki út í þokuna eins og raunverulega er gert með þessu frv. Sum ákvæðin eru jákvæð eða hægt að taka undir þau. Ég greiddi þeim atkvæði við 2. umr. frekar en að hafa engin ákvæði í gildi varðandi ýmis atriði sem varða rannsóknir á kynfrumum og fósturvísum. Ég tel að það þurfi að setja á fót vettvang til þess að fara vel ofan í þau efni, til þess að móta skýrar reglur af hálfu löggjafans um hversu langt eigi að heimila að ganga í sambandi við rannsóknir á þessum efnum. Ég vil nefna það hér, virðulegur forseti, að mér sýnist að það væri ekki óskynsamlegt að fara svipaða leið og Norðmenn hafa valið og reyndar fleiri ríki, ég má segja bæði Svíþjóð og Finnland og eru það nú lönd sem standa okkur nærri um margt. Í öllum þessum þremur ríkjum var sett á fót sérstök líftækninefnd eða ráð sem fjallar um öll þessi efni, öll álitaefni sem koma upp hjá stjórnvöldum og öðrum sem snúa sér til nefndarinnar sem varða breytingar á erfðavísum og einnig tæknifrjóvgun.

[21:00]

Við vorum á dögunum að lögfesta sérstaka ráðgjafarnefnd í lögunum um erfðabreyttar lífverur. Hún er minnir mig níu manna og á að vera umhverfisráðherra til leiðbeiningar en getur líka að eigin frumkvæði tekið mál upp. Mér sýnist í raun, og má nú segja eftir á að hyggja, að það væri skynsamlegt að lögfesta einn vettvang sem taki á þessum málum í heild af opinberri hálfu, fjalli um þau og vakti þau mál. Það er tiltölulega auðvelt að koma því við með einfaldri breytingu á lögunum um erfðabreyttar lífverur eftir athugun máls, ef það verður talið réttmætt, sem og að innleiða það að því er varðar lögin um tæknifrjóvgun. Ég hef í hyggju að ýta við því að ofan í þessi efni verði farið ekki síðar en á næsta þingi.

Virðulegur forseti. Allshn. hefur gert að tillögu sinni eins og hér hefur verið rætt að skipuð skuli þriggja manna nefnd við gildistöku þessara laga sérfróðra aðila á þremur sviðum, læknisfræði, lögfræði og siðfræði, til að fylgjast með framkvæmd laganna og vinna að endurskoðun þeirra og hafi hún til hliðsjónar laga- og tækniþróun á sviði tæknifrjóvgunar m.a. með tilliti til nafnleyndar. Nefndin skal ljúka störfum innan tveggja ára frá gildistöku laganna eins og segir þar. Ég er að sjálfsögðu ekki á móti því að slík nefnd sé á fót sett, það er ágætt mál og auðvitað miklu betra en ekki. Ég mun því styðja þessa tillögu allshn. Hún tekur hins vegar ekki á því grundvallarmáli sem við flutningsmenn teljum réttmætt að þingið taki hér afstöðu til við 3. umr. málsins, hún ýtir því út í óvissa framtíð. Ég tel að það sé mikil þörf á því að Alþingi horfi á þessi efni, fari yfir þau og taki afstöðu til þeirra. Alþingi á að taka á grundvallarmálum og það getur ekki verið annað en til bóta að það sé gert. Það er óvíða brýnna en á sviðum sem þessum því spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir hér og reyndar á ýmsum fleiri sviðum sem tengjast tækniþróun á okkar tíð eru að leiða okkur út í svo mikla óvissu að menn þurfa að svara því hvort þeir ætli að fara í þá vegferð eða ekki. Ég held að menn þurfi frekar að gera það upp við sig áður en lengra er haldið inn í myrkviðinn hvað þetta mál snertir en mörg önnur. Við ræddum hér í gær einn þátt þessa máls sem varðar tölvutæknina og skráningu upplýsinga um einstaklinga og samskipti þeirra. Það er önnur saga en af svipuðum toga. Og menn mega ekki láta tæknina bera sig af leið endalaust. Það getur ekki endað nema á einn hátt. Til þess erum við hér á Alþingi Íslendinga að setja upp vegvísa að þessu leyti. Ég met mikils alla þá viðleitni sem fram hefur komið í þessum efnum hér og ég er ekki að kveða upp neina dóma yfir þeim þingmönnum sem hafa aðrar skoðanir, alls ekki. En jafnbrýnt er að menn svari samviskuspurningum af þeim toga sem hér um ræðir.

Ég vil taka það fram í þessu samhengi að ég mat mikils þá viðleitni sem hv. þm. Hjálmar Jónsson hafði uppi í sambandi við málið við 2. umr. og þau sjónarmið sem fram komu í nál. hans. Hann hefur valið að ganga til samkomulags í þingnefndinni og það er að sjálfsögðu hans val sem ég virði. Ég sé enga ástæðu til að ætla að hann hafi breytt um sjónarmið í málinu frá því sem var og komið hefur fram.

Virðulegur forseti. Það var sagt hér af formanni allshn., sem því miður er ekki viðstaddur þessa umræðu hér og nú, eitthvað á þá leið við 2. umr. málsins að Ísland hafi þótt standa einstaklega góðan vörð um mannréttindamál, ekki síst réttindi barna. Það má vera að við höfum margt vel gert í þeim efnum og ég vona að sá dómur sé réttur. En mér sýnist hins vegar að við séum að víkja af þeirri leið með allalvarlegum hætti. Við eigum tæplega skilið svo góða einkunn að settum lögum samkvæmt tillögu allshn. og meiri hluta allshn. eins og hún lá fyrir við 2. umr. Það mál er ekki leyst með þeirri tillögu sem hér er flutt af hálfu nefndarinnar þó ég muni greiða þeirri tillögu atkvæði þegar hún kemur til atkvæða. Ég treysti öðrum hv. meðflutningsmönnum til að skýra þau viðhorf til málsins sem ég hef ekki komið hér að eða kunna að vera með öðrum áherslum. Við höfum auðvitað ekki samræmt okkar sjónarmið í öllum greinum varðandi þetta mál en við stöndum saman að þeirri tillögu sem hér er flutt og ég vænti þess að hún fái nokkurn hljómgrunn í þinginu.