Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:08:52 (6028)

1996-05-14 21:08:52# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:08]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði að brtt. sú sem hv. allshn. flytur taki ekki á því grundvallarmáli sem hans tillaga og fleiri hv. þm. geri. Ég verð að segja og vil að það komist strax að í þessari umræðu að sú tillaga gerir það ekki. Hún er einhver einkennileg samsuða af nafnleyndarákvæðum og því að barnið geti fengið upplýsingar um erfðafræðilegt foreldri sitt. Þetta gengur ekki upp, annað hvort verður að víkja. Annað hvort verður að víkja, nafnleyndin eða aðgangur barnsins að upplýsingum. Gefi kynfrumugjafi sæði eða egg án þess að vita að það geti komið upp sú staða að hann verði leitaður uppi þá finnst mér það bara ekki ganga upp. Ég undrast að þessi tillaga skuli koma fram eins og hún er flutt hér.

Ég get alveg skilið þau sjónarmið að hv. þm. geti verið á móti nafnleyndinni og þá verður að flytja tillögu sem gengur út á það. En þessi tillaga gerir það ekki. Hún gengur ekki upp að því leyti til að hún gengur bæði út á nafnleynd og upplýsingar. Annað hvort verður að víkja. (Gripið fram í: Þú ert með vitlausa tillögu, hv. þm.) Það held ég ekki. (Gripið fram í: Alveg örugglega.)

Af því að hv. þm. minntist á hvernig mál voru afgreidd í Noregi þá hef ég þær upplýsingar frá umræðunni í Noregi að þar taldi meiri hlutinn að hagsmuna barnsins væri best gætt með því að viðhalda nafnleynd. Ef nafnleynd yrði aflétt gæti það haft í för með sér breytingar á sambandi barns og félagslegs föður með afleiðingum sem ekki væri hægt að sjá fyrir endann á.