Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:36:42 (6037)

1996-05-14 21:36:42# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ótrúlega þokukenndur skilningur og málflutningur stjórnarliða í málinu í kvöld og það er kannski vegna þess að það er aðeins farið að líða á kvöldið og menn hafa verið að síðan í morgun. Þetta kemur ákaflega á óvart.

Ég hef t.d. ekki fengið á hreint hvort hv. síðasti ræðumaður vill hafa í fyrirrúmi hagsmuni parsins eða hagsmuni barnsins. Við spyrjum náttúrlega ekki um sjónarmið einhverra sem ekki eru til. Annars finnst mér kannski dæmigert um skilning manna og skynjun á þessu máli þegar hv. þm. dregur fram plagg frá læknum á Landspítalanum um að í nánustu framtíð þurfi ekki nema eitt sæði til að frjóvga egg. Þetta er alveg dæmigert fyrir skilning hv. þm. á málinu. Ég veit ekki annað en það hafi verið frá upphafi þannig að það þyrfti eitt sæði til að frjóvga egg þannig að barn yrði til. Og vera að nefna að það sé eitthvað sem muni gerast í framtíðinni, ég veit ekki betur en þetta hafi verið alla tíð á þennan hátt.

Ég vildi gjarnan fá skýringu hjá hv. þm. á því hvort hann vill hafa í fyrirrúmi hagsmuni barnsins eða hagsmuni parsins. Að opna til hálfs eins og tillaga allshn. felur í sér er í raun að vera að brjóta á réttindum þeirra barna sem verða til og fá ekki upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn. Það er verið að brjóta réttindi á þessum börnum verði þessi lagagrein samþykkt eins og hún kemur frá allshn.