Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:41:27 (6040)

1996-05-14 21:41:27# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:41]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að það væru hagsmunir parsins sem væru efstir í mínum huga að þessu leyti, og hagsmunir parsins eru þeir að geta valið í þessu tilfelli. Þess vegna get ég ekkert sagt annað um þessa umræðu en það að mér finnst að þeir hv. þm. sem eru að flytja þessa brtt. séu ekki enn búnir að átta sig á því að allur sá hópur sem þarf á þessari þjónustu að halda, mun líða fyrir það ef nafnleyndinni verður aflétt. Það eru ekki hv. þingmenn sjálfir eða þeir opinberu aðilar sem hafa verið að gefa ályktanir um það að það eigi að aflétta þessari nafnleynd barnsins vegna vegna. Þeir hafa ekki bent á neina lausn aðra fyrir þetta fólk sem þarf á þessum aðferðum að halda. Ættleiðing hefur ekki verið möguleg fyrir marga af þessum aðilum vegna þess einfaldlega að börnin hafa ekki verið til og síðan er líka önnur spurning sem mér finnst að fólk geti velt fyrir sér en hún er fólgin í því að í þessum tilfellum er annar aðilinn lífforeldri og getum því sagt að það sé nær því að vera barn beggja foreldra. Annað foreldrið er lífforeldri. Ég tel þetta spurningu sem fólk verði að velta fyrir sér og þá sérstaklega þeir hv. þm. sem eru að reyna að koma fram með þessa brtt.