Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:01:24 (6052)

1996-05-14 23:01:24# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:01]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvaða ákvæði þingskapa hv. þm. vitnar til þegar hún krefst þess að þingmenn komi hér upp og tali. En ég ætla nú engu að síður fara í stutt andsvar við hv. þm. Ég er hrædd um að hún hafi verið erlendis eða ekki viðstödd 2. umr. ef hún hefur ekki heyrt rök (BH: Ég er búin að lesa hana.) fyrir því að viðhafa nafnleynd. Staðreyndin er sú að ef við lítum bara til þeirrar réttarþróunar sem átt hefur sér stað í Evrópu þá er nafnleyndin nánast regla þar. (Gripið fram í: Nei, nei. Hvaða vitleysa.) Ég ætla aðeins að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ef hægt er að segja eitthvað um réttarþróun í Evrópu þá er hún ekki í þá veru að aflétta nafnleynd samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum heldur þvert á móti að viðhalda nafnleynd og í einhverjum tilvikum að heimila bæði meðferð með kynfrumum frá þekktum og óþekktum gjöfum. Málamiðlunartillaga hv. allshn. sem samþykkt var við 2. umr. virðist því í einna besta samræmi við réttarþróun í Evrópu.``

Ég vitnaði fyrr í kvöld þegar ég var í andsvari við hv. þm. Hjörleif Guttormsson í umræðuna eins og hún átti sér stað í Noregi fyrir nokkrum árum. Þar taldi meiri hluti þingsins að hagsmuna barnsins væri best gætt með því að viðhalda nafnleynd. Ef nafnleynd yrði aflétt gæti það haft í för með sér breytingar í sambandi barns og félagslegs föður með afleiðingum sem ekki væri hægt að sjá fyrir endann á. Þetta eru í örstuttu máli rök inn í þá umræðu sem hér fer fram. Hins vegar vil ég segja það, hæstv. forseti, að þessari umræðu í sjálfu sér er lokið að mínu mati. (Gripið fram í.) Nefndin hefur skilað af sér og hún var sammála um breytingartillögur. Það sem málið snýst um við þessa umræðu er að hv. þm. eru að reyna að sannfæra aðra þingmenn um að fylgja sinni breytingartillögu. Ég a.m.k. læt ekki sannfærast.