Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:07:36 (6055)

1996-05-14 23:07:36# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:07]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski segja að í þessari stuttu ræðu hafi hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir einmitt svarað hreint út á hverju hún byggir sína skoðun: ,,mér finnst``. Annars vegar ,,mér finnst`` og hins vegar því að ella sé ekki hægt að framkvæma þessar aðgerðir hér á landi. Ég ítreka það enn og aftur að ég hef heyrt þessi rök og ég held ég hafi gert nægilega grein fyrir því í ræðu minni að ég var ekki að óska eftir því að fá að heyra þau einu sinni enn. Ég óskaði eftir því að fá að heyra rök fyrir því hvers vegna litið væri fram hjá rökstuðningi mannréttindasamtaka sem eru starfandi hér á landi. Ég vona að a.m.k. að það sé byggt á einhverju öðru en ,,mér finnst``. Ég ætla líka að vona að það sé byggt á einhverju öðru en því að ella sé ekki hægt að gera tilteknar læknisaðgerðir. Ég vil í því sambandi benda á að nú eru fram undan hér gífurlega miklar framfarir í tækniþróun á sviði læknisfræði og vísindarannsókna sem krefjast ítarlegrar lagaumgjarðar. Ég get bent þar á sem dæmi genabanka svokallaða sem eru að byrja að fara af stað hér á landi. Ég ætla rétt að vona að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir leggi í það eitthvað meiri vinnu en virðist hafa verið lögð í þennan rökstuðning hér ef það á að segja að ella, ef við ekki höfum þetta svona, þá fari þessar rannsóknir ekki fram hér á landi. Ef það eru helstu rökin. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur ekki enn þá svarað þeirri spurningu minni hvort hún telji íslensk mannréttindasamtök og gjörvalla mannréttindahreyfinguna vera á villigötum.