Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:15:24 (6059)

1996-05-14 23:15:24# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Ég sé að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er sest í hliðarherbergi. Mig langaði aðeins til að koma inn í umræðuna þó svo ég telji að hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hafi gert brtt. okkar hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, Bryndísar Hlöðversdóttur og Kristínar Halldórsdóttur mjög góð skil áðan þá vildi ég vegna þess hversu þokukenndur skilningur hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur var á tillögunni, a.m.k. kom það fram fyrr í kvöld þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mælti fyrir henni og hv. þm. kom inn í þá umræðu, þá virtist mér hv. þm. ekki skilja í hverju tillagan væri fólgin. Þess vegna hugðist ég aðeins skýra það út fyrir hv. þm.

Með þessari tillögu okkar fjórmenninganna er verið að tryggja rétt barnsins --- er hv. þm. að fylgjast með? Ég er að eiga orðastað við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. (VS: Ég heyri hvert orð.) Það er gott. Þingmaðurinn hlustar. --- Eins og komið hefur fram margoft í umræðunni og einnig ...

(Forseti (GÁ): Forseti biður hv. þingmenn að halda ekki aðra fundi í salnum meðan hv. þm. talar.)

Eins og komið hefur fram í umræðunni, bæði við 2. umr. og í kvöld, teljum við að það séu grundvallarmannréttindi að einstaklingur geti átt þess kost að þekkja uppruna sinn. Það kom einmitt mjög skýrt fram í áliti 2. minni hluta allshn. í 2. umr. en í því áliti segir, með leyfi forseta:

,,Það eru mannréttindi að eiga þess kost að þekkja uppruna sinn, hluti af sjálfsagðri vitund fólks um sjálft sig, og meðal íslenskrar þjóðar er rík hefð og vilji til þess. Löggjafinn má ekki taka þennan rétt af einstaklingum. Ófrjósemi er vandamál sem ekki má leysa á kostnað mannréttinda þess sem verður til við tæknifrjóvgun með gjafakynfrumu. Sé þess óskað er sjálfsagt og eðlilegt að tryggð sé nafnleynd gagnvart öllum öðrum en þeim einstaklingi, sem þannig er til kominn.``

Þetta er kjarni málsins og þetta er í rauninni það sem við erum að tryggja með brtt. nema hvað ráðherra er gefinn mun meiri réttur til að koma að málinu og setja reglur hvað þetta varðar. Aftur á móti vil ég minnast á atriði sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom inn á í andsvari við Bryndísi Hlöðversdóttur áðan þar sem hún talar um að réttarþróun í Evrópu sé nafnleyndinni í vil. Það er þvert á þær upplýsingar sem ég hef um málið og einnig þvert á þær upplýsingar sem koma fram í nefndaráliti 2. minni hluta allshn. í 2. umr. Þar segir að réttarþróun í Evrópu sé tvímælalaust sú að nafnleyndinni gagnvart viðkomandi einstaklingi sé aflétt og þess vegna teljum við að í nýrri íslenskri löggjöf um tæknifrjóvgun eigi skilyrðislaust að taka tillit til þeirrar þróunar.

Aftur á móti varðandi nafnleyndina og það mannréttindabrot sem felst í því að setja nafnleynd gagnvart þeim einstaklingi sem verður til við tæknifrjóvgun með gjafakynfrumu stendur sá einstaklingur ekki eins vel að vígi eins og ættleidd börn og það er mjög erfitt að sætta sig við það. Á fund hv. heilbr.- og trn. í morgun þar sem var verið að ræða réttindi sjúklinga og aðgang að sjúkraskýrslum eða sjúkraskrám kom Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og talaði um náttúrlega þörf einstaklinga til að fá upplýsingar um ákveðna þætti um sjálfa sig. Þar kom fram hjá hæstaréttarlögmanninum ef réttindi eru tíunduð í alþjóðasáttmálum sem við erum aðilar að og höfum samþykkt gangi það lengra en lög í landinu. Þetta tel ég mjög mikilvægt að komi fram. Þess vegna spyr ég hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, frummælanda fyrir hv. allshn., hvort það hafi komið fram í umræðunni í allshn. Ef þetta er rétt hjá lögmanninum að 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir að barn skuli eftir því sem unnt er eiga rétt á að þekkja kynforeldra sína og það að aðildarríki skuldbindi sig til að virða rétt barnsins til að viðhalda því sem auðkenni það sem einstakling, þ.e. í 8. gr., gengur það framar þeim lögum sem sett verða þegar þetta frv. verður samþykkt, verði lagagreinin samþykkt eins og hv. allshn. leggur til. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni varðandi alþjóðasáttmálana og það að þeir gangi lengra en íslensk lög.

Ég óska eftir því að hv. þm. upplýsi okkur um þetta atriði.