Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:24:20 (6060)

1996-05-14 23:24:20# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 1. minni hluta GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:24]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Þar sem enginn flutningsmaður tillögunnar situr í hv. allshn. þar sem þessi mál hafa svo sannarlega verið ítarlega til umræðu tel ég rétt sem nefndarmaður í allshn. að segja nokkur orð, einnig vegna þess að einn flutningsmaður tillögunnar er hv. þingkona Kvennalistans, Kristín Halldórsdóttir, sem gat því miður ekki verið viðstödd hér í kvöld. Ég tek efnislega undir hvert einasta orð sem hv. flm. Hjörleifur Guttormsson las upp úr umsögnum sem nefndinni bárust og færði rök fyrir réttmæti þess að barn, sem verður til við tæknifrjóvgun, eigi að fá upplýsingar um erfðafræðilega foreldra sína við 18 ára aldur. Ég talaði ákveðið fyrir þessari afstöðu í allshn. en fékk þá æ ofan í æ að heyra að þetta þýddi í reynd að tæknisæðing legðist af nema í þeim tilfellum sem það væri á milli hjóna. Ástæðan eins og hér hefur komið fram í kvöld er sögð sú og ég undirstrika það, er sögð sú, af því að mér finnst það sjálfri ekki sannfærandi rök, að þá muni ekki vera hægt að fá sæði frá sæðisbönkum þar sem nafnleynd er aflétt, t.d. frá Svíþjóð.

Þó að ég telji sjálf að eingöngu reynslan geti sýnt okkur það hvort það muni koma í ljós að ekkert sæði fáist þá fannst mér ábyrgðarhluti eftir að vera búinn að hlusta á öll sjónarmið í allshn. að ganga það langt í brtt. minni sem ég flutti sem minni hluti allshn. að taka alfarið fyrir það að nafnleynd væri viðhöfð ef sérstakar aðstæður kölluðu á. Ég vil því leyfa mér að vitna, hæstv. forseti, í ítarlegt álit 1. minni hluta allshn. um þetta mál sem Guðný Guðbjörnsdóttir skrifar ein undir, m.a. til þess að skýra afstöðu mína til þeirrar tillögu sem nú er komin fram og ég ætla þá að vitna beint í nefndarálitið, hæstv. forseti:

,,... þótt ákveðin kvenfrelsisrök mæli með því að sem flestir fái aðgang að tæknisæðingu eða glasafrjóvgun geti þessi réttur kvenna eða foreldra varla talist æðri en sú skoðun að þessi börn hafi eins og önnur börn þörf fyrir og rétt á að fá að vita um líffræðilegan uppruna sinn og rétt á þroskavænlegum uppeldisskilyrðum. Þó að hvorki barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna né mannréttindasáttmáli Evrópu verði túlkaðir þannig að barnið eigi skýlausan rétt á að vita um uppruna sinn er ljóst að a.m.k. í þeim síðarnefnda hefur þessari kröfu ekki verið hafnað.`` Ég vil nefna þetta sérstaklega vegna þess að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurði um þetta og þessir samningar voru mikið ræddir.

,,Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands er bent á að frá 1987 hafi átt sér stað ákveðin réttarþróun á túlkun mannréttindasamnings Evrópu um skyldu stjórnvalda til að veita barni upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn.

Í ljósi þessara meginviðhorfa sótti undirrituð mjög fast að 4. gr. frumvarpsins yrði breytt í þá veru að nafnleynd verði aflétt til að þau börn, sem verða til við tæknifrjóvgun, geti fengið upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn við 18 ára aldur. Helstu mótrökin, sem fram komu gegn því að heimila tæknifrjóvganir eingöngu ef nafnleynd er aflétt, voru þau að erfitt yrði að fá kynfrumur, einkum sæði, ef nafnleynd yrði aflétt. Í nefndinni náðist fram málamiðlun sem birtist í breytingartillögum meiri hlutans. 1. minni hluti getur sætt sig efnislega við þá málamiðlun í ljósi aðstæðna þó að æskilegra væri að aflétta nafnleynd alfarið ef það væri hægt án þess að tæknifrjóvganir legðust af. Orðalagið á breytingartillögu meiri hlutans miðast of mikið við gjafa kynfrumna í stað þiggjanda sem að mati 1. minni hluta á að vera sá sem ákveður hvort hann velur nafnleynd eftir faglega ráðgjöf.

Fyrsti minni hluti leggur því til breytingu á 4. gr. þar sem uppröðun efnisgreina og orðalag breytir áherslum þannig að fyrst er rætt um þau tilvik þar sem nafnleynd er aflétt og lögð áhersla á að það er val kynfrumuþiggjandans sem ræður úrslitum um það hvort reynt verður að fá kynfrumur frá gjafa sem er tilbúinn að aflétta nafnleynd.``

Þessi lausn er að því leyti ófullnægjandi að það eru væntanlegir foreldrar sem hafa valið það hvort barnið geti fengið upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn við 18 ára aldur í stað þess að það verði opið val fyrir öll börn sem fæðast vegna tæknifrjóvgunar.

[23:30]

Hin leiðin er að útiloka alfarið tæknifrjóvganir með nafnleynd. Síðan segir og ég vil vekja athygli á því: ,,Ef fram kemur breytingartillaga í þá veru [að nafnleynd verði aflétt] munu þingkonur Kvennalistans taka sjálfstæða afstöðu til hennar sem einstaklingar.``

Nú ætla ég ekki að vitna frekar í þetta nefndarálit þar sem ég hef lokið umfjöllun um þennan þátt málsins, en það er skemmst frá að segja að mín brtt., sem gekk þó lengra í þessa átt en brtt. meiri hlutans, var felld og brtt. hv. þm. Hjálmars Jónssonar sem er efnislega mjög svipuð þeirri sem hér er flutt var því miður dregin til baka við 2. umr. og hefur nú verið breytt í samráði við hann í nokkurs konar endurskoðunarákvæði. Lögð er áhersla á að skipuð verði nefnd sem endurskoði framkvæmd á þessum lögum eftir tvö ár, eða fylgist með framkvæmdinni og endurskoði þau eftir tvö ár. Þar með finnst mér núna vera komnar þær aðstæður að það sé rétt að styðja tillögu sem tryggir að barnið fái skýlausan rétt til að fá að vita um erfðafræðilegt foreldri sitt. Það er mín afstaða að fyrst ekki var hægt að ganga að minni tillögu, sem þó opnaði á þessi rök sem mjög voru höfð í frammi í nefndinni, að ég er tilbúin til að styðja þessa tillögu. Ég vil þó vekja athygli hv. flm. á því að hér var dreift tveimur afbrigðum af tillögunni og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var í upphafi umræðunnar í kvöld með fyrra afbrigðið, ef svo má segja. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég er ekki alveg ánægð með orðalagið á þeirri tillögu sem nú er til umræðu þó að efnislega sé ég sammála því sem hún segir. Hún hefur einn annmarka að mínu mati. Ég ætla að leyfa mér að lesa tillöguna því að ég er ekki viss um að hv. áheyrendur hafi allir fylgst með því um hvað hún fjallar, en tillagan er orðuð svona:

,,Upplýsingar um gjafa skulu skráðar og varðveittar samkvæmt reglum er ráðherra setur þannig að barn getur við 18 ára aldur fengið aðgang að upplýsingum um erfðafræðilegt foreldri sitt.``

Annmarkinn við þessa tillögu er að mínu mati sá að það er ekkert sagt um það hver er réttur gjafans til að vita eitthvað um tilvist barnsins, hvort það hafi orðið til barn eða ekki, fram að 18 ára aldri eða þess vegna eftir 18 ára aldur. Ég tel að þetta skipti máli ekki síst, og það er mjög mikilvægt, fyrir uppeldi viðkomandi barns og samskiptin í þeirri fjölskyldu. Því tel ég alls ekki rétt að skilja þetta eftir í því tómarúmi sem mér finnst þessi tillaga benda til.

Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig að segja að það sé fyrst og fremst eða eingöngu réttur barnsins sem skiptir máli og ég er sammála því að það er auðvitað fyrst og fremst réttur barnsins sem á að ráða. En að mínu mati er ekki nóg að segja bara að hitt verði ákveðið í reglum sem ráðherra setji. Ég hefði kosið að þessi tillaga væri skýrari um hvaða rétt foreldrar barnsins og gjafinn, kynfrumugjafinn hafa. Því vil ég hvetja hv. flm. þessarar tillögu til að kanna hvort þetta telst lagalega nógu skýr tillaga. Ef svo er er ég tilbúin til að styðja hana.