Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:41:04 (6063)

1996-05-14 23:41:04# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel mig ekki þurfa neina könnun á því lögfræðilega. Ég tel mig alveg bæran um það að móta og flytja tillögu sem studd er af þremur hv. þm. og þarf ekki neina sérstaka lögfræðilega könnun á því efni. Tillagan er alveg ljós og ljósar heimildir sem ráðherra fær til að móta þetta að þessu skilyrði uppfylltu sem er meginefni tillögunnar.

Varðandi spurninguna um nafnleynd er alveg ljóst að sæðisbanki og sæðisgjafi verður að undirgangast eða hann verður að taka við þeirri kröfu sem í því felst að barnið á rétt á upplýsingum við 18 ára aldur. Fram að þeim tíma getur verið um að ræða nafnleynd og sú nafnleynd getur varað lengur, þ.e. ef barnið fær ekki upplýsingar eða gengur eftir því, sínum rétti. En þessi staða er uppi og fyrir henni hlýtur að verða gerð grein og settar reglur í samræmi við það þannig að þeir aðilar sem við sögu koma geri sér þetta ljóst.

Að því er varðar foreldri er það auðvitað val foreldranna eftir sem áður hvort þeir greina afkvæmi sínu frá þessu eða ekki. Sá réttur er ekki af foreldri tekinn. En rétturinn er eftir sem áður barnsins að leita upplýsinganna hvort sem það telur sig hafa haft ástæðu til þess eða án þess, sem sagt að eigin frumkvæði.