Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 14:15:08 (6076)

1996-05-15 14:15:08# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[14:15]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. sem verið er að greiða atkvæði um er um skerðingu á réttindum starfsmanna ríkisins. Það felur í sér óeðlileg og óviðunandi afskipti af innri málefnum stéttarfélaganna og verulega skerðingu á samningsrétti þeirra. Þetta er frv. sem setur í uppnám ýmis grundvallarréttindi starfsmanna ríkisins, svo sem að því er tekur til fæðingarorlofs og veikindadaga, það afnemur fyrirframgreiðslu og biðlaunarétt nýrra starfsmanna, færir forstöðumönnum óeðlilegt vald til að ráðgast með undirmenn og þannig mætti áfram telja.

Þetta frv. er andstætt hagsmunum kvenna sem eru meiri hluti starfsmanna ríkisins. Þetta er frv. um breytingar á réttindum sem hafa verið metin ígildi launa og starfsmenn ríkisins hafa goldið fyrir með lægri launum en ella. Þess vegna á að tengja breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frjálsum samningum um kaup og kjör. Ég segi nei við þessari grein og frv. í heild.