Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 14:30:38 (6083)

1996-05-15 14:30:38# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[14:30]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Samkvæmt þessari grein sem hér eru greidd atkvæði um fá forstöðumenn stofnana heimild til að umbuna fyrir það sem kallað er hæfni, sérstakt álag eða árangur í starfi. Í Sovét forðum tíð kenndu þeir svona kerfi við Stakanov. Hæstv. fjmrh. er að ganga í gervi Stakanovs að sovéskri fyrirmynd með þessu ákvæði og það er hann sem á að setja reglur um það hvernig útfært skuli og hefur auk þess stöðugt eftirlit með þessum reglum samkvæmt orðanna hljóðan. Síðan má breyta þessu ákvæði hvenær sem er og fjmrh. getur sjálfur að eigin frumkvæði breytt ákvörðununum um viðbótarlaun og tuktað forstöðumennina til í leiðinni. Þetta er ótrúlegt kerfi sem hér á að innleiða og það er jafngott að menn séu í náðinni. Ég segi nei.