Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 14:35:05 (6087)

1996-05-15 14:35:05# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[14:35]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því hvað hér er verið að greiða atkvæði um. Hér er verið að greiða atkvæði um heimild til fjmrh. til að breyta ákvörðunum einstakra forstjóra um viðbótarlaun ef þær brjóta í bága við reglurnar eins og segir orðrétt í þessu ákvæði og afnumin heimild einstakra forstöðumanna til að ákveða starfsmönnum viðbótarlaun ef rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar er ekki í samræmi við fjárlög. Hvaða stofnanir skyldu þetta vera? Þetta eru sjúkrastofnanir, þetta eru skólarnir, þetta eru stóru, fjölmennu láglaunavinnustaðirnir sem á að vera heimilað samkvæmt þessari grein að afnema þessar viðbótargreiðslur hjá. Ég vek sérstaklega athygli á því að talað er um ,,reglurnar``. Þingmenn hafa aldrei fengið að sjá þessar reglur. Þessar reglur eru ekki til og það hefur margoft verið farið fram á það við þessa umræðu að hæstv. fjmrh. og hv. formaður efh.- og viðskn. geri grein fyrir þessum reglum. Þær eru ekki til. Þetta er marklaust tal. Ég segi nei.