Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 15:05:23 (6103)

1996-05-15 15:05:23# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með 34. og 35. gr. frv. er afnuminn svonefndur biðlaunaréttur. Fyrir utan það sem almennt á við um málatilbúnaðinn í þessu frv. er tvennt sérlega ámælisvert eins og hér er ætlunin að standa að verki. Það fyrra er að þessi breyting er gerð á gildistíma gildandi kjarasamnings og það síðara er að eins og hér er gengið frá málinu ríkir fullkomin óvissa um stjórnarskrárbundinn rétt eða einstaklingsbundinn rétt manna að þessu leyti og hvað um hann verður.

Það er næsta víst að þessi frágangur málsins mun kalla á málaferli og bjóða því heim að hér standi linnulaus málaferli og óvissa ríki á komandi missirum um áhrifin af þessum lagabreytingum. Hvort tveggja er fráleitt að raska réttarumhverfi kjarasamninga á gildistíma þeirra með þeim hætti sem hér er gert en hitt er enn verra að stofna til óvissu um jafnvíðtækan, almennan rétt eins og biðlaunaréttur opinberra starfsmanna hefur verið. Af þessum tveimur ástæðum er með öllu óásættanlegt að afgreiða málið eins og hér er lagt til og við í þingflokki Alþb. og óháðra greiðum því atkvæði gegn þessu ákvæði eins og það er fram borið.