Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 15:06:48 (6104)

1996-05-15 15:06:48# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, VE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[15:06]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Það er mjög eðlilegt að takmarka biðlaunarétt með þeim hætti sem gert er í þessu frv. Það þýðir að starfsfólk sem er í vinnu hjá ríkinu og verður fyrir því að starf þess er lagt niður nýtur raunverulegra biðlauna ef það heldur ekki áfram störfum, annaðhvort hjá sama vinnuveitanda eða þá í öðru starfi, og réttindin sem slík eru því ekki takmörkuð þannig að tjóni valdi svo heitið geti.

Varðandi það að ekki skuli samið um þetta í kjarasamningum fer það einfaldlega ekki saman að halda því fram að eitthvað sé stjórnarskrárvarinn eignarréttur einstaklings og síðan að hægt sé að semja um það í kjarasamningum. Að sjálfsögðu er ekki hægt í kjarasamningum að taka stjórnarskrárvarinn eignarrétt af einstaklingum. Ég hygg að engin óvissa sé um að það stenst stjórnarskrá að takmarka biðlaunaréttinn með þessum hætti og þeim peningum, sem færu í málaferli af því tagi, væri kastað á glæ.