Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 15:24:25 (6111)

1996-05-15 15:24:25# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, VE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[15:24]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég segi að sjálfsögðu já við þessari grein. Eitt helsta áhyggjuefni stéttarfélaga vegna fólks sem stendur utan þeirra hefur verið að launakjör þessa fólks væru of lág og vinnuveitendur væru þar með að fá þessa starfskrafta á útsölu. Með því að gera það að skyldu að það þurfi að greiða þessu fólki, sem kýs af einhverjum ástæðum að standa utan stéttarfélaganna, ekki síðri laun en er gert gagnvart kjarasamningunum er verið að styrkja stéttarfélögin frekar en hitt. Ég tel að það sé nauðsynlegt að gefa þeim einstaklingum sem það vilja kost á því að standa utan stéttarfélaganna. Það veikir ekki stéttarfélögin eins og að þessu máli er gengið og ég minni á þá umræðu sem var í kringum EES-samninginn þegar menn héldu að fólk gæti komið erlendis frá og farið að vinna hér á landi, verið ekki í stéttarfélögum og selt vinnu sína á útsölu. Gegn þessu er stefnt í þessari grein. Ég segi því já.