Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 15:36:03 (6118)

1996-05-15 15:36:03# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessu eina tilviki höfum við í minni hlutanum ákveðið að styðja brtt. frá meiri hlutanum. Hún lýtur að því að taka af öll tvímæli um það að forseti Alþingis fari gagnvart starfsmönnum þingsins með sama vald og fjmrh. er fengið í 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 27. gr. gagnvart opinberum starfsmönnum svo og í b-lið að skrifstofustjóri Alþingis sé á sama hátt í fyrirsvari gagnvart starfsmönnum þingsins og ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis gagnvart starfsmönnum þeirra embætta. Við teljum að það sé tvímælalaust rétt efnisregla sem hér er verið að staðfesta og það sé ástæða til að taka af skarið með þannig að engin óvissa ríki í þessum efnum. Einnig hefur borið við að hæstv. fjmrh. hafi sýnt tilburði til þess að seilast til áhrifa um innri málefni Alþingis og að sjálfsögðu er rétt að Alþingi taki af skarið í þeim efnum og setji hæstv. ráðherra einu sinni á réttan bekk.