Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 15:48:14 (6122)

1996-05-15 15:48:14# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[15:48]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hin almenna pólitíska mynd er að skýrast. Það liggur fyrir frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem kemur til umræðu næstu daga. Það er verið að ljúka afgreiðslunni á þessu máli sem verður að kallast endemismál af mörgum ástæðum. Það hefur verið haldinn aðalfundur Vinnuveitendasambands Íslands. Það er verið að brýna kutana alls staðar. Það er verið að lýsa því yfir að það eigi að stofna til almennra átaka í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin er að slíta sundur friðinn bæði á Alþingi og úti á vinnumarkaðnum.

Það sem verra er, hæstv. forseti, er að það einn af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar hefur fullyrt að með þessu frv. sé verið að taka af launafólki áunnin réttindi. Það er allt annað en hæstv. forsrh. lýsti yfir fyrir nokkrum vikum og það er alvarlegt mál þegar trúnaðarbil skapast á milli forsrh. landsins og forustumanna í verkalýðshreyfingunni. Þess vegna á auðvitað ekki að ræða þetta mál stundinni lengur heldur vísa því á almennan vettvang og ég segi nei við því að málið fái þinglega meðferð.