Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 15:50:49 (6124)

1996-05-15 15:50:49# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[15:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. forsrh. skuli vera kominn til að vera viðstaddur lokin á atkvæðagreiðslu um frv. sem rífur réttindakerfi opinberra starfsmanna upp með rótum og afnemur áunnin réttindi gagnstætt því sem hæstv. forsrh. hafði heitið þingi og þjóð að yrði gert og það verður fróðlegt að heyra hvort hæstv. forsrh. gerir grein fyrir atkvæði sínu á eftir. Ég tek fram að stéttarfélög allra þeirra starfsmanna sem þessi lög taka til hafa mótmælt þessum lögum og ég vek athygli á því að öll stéttarfélög í landinu hafa mótmælt þessum lögum. Ég vek athygli á því að hér á þingpöllum og út úr húsinu eru fulltrúar verkalýðsfélaga frá BSRB, BHM, Alþýðusambandi Íslands, bankamönnum, öllum samtökum launafólks á Íslandi sem hafa mótmælt þessum lögum.

Þingflokkur Alþb. og óháðra vill virða almannavilja í landinu, vill virða vilja íslensku verkalýðshreyfingarinnar. Þess vegna leggjum við til að frv. verði tekið út úr þingsalnum og menn setjist niður og reyni að ná samkomulagi í samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Þess vegna segi ég nei.